16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

215. mál, skemmtanaskattur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða margorður, því í fyrsta lagi er þetta mál flutt af n. sem ég á sæti í og í öðru lagi hefur því verið lýst yfir, að n. muni taka frv, til athugunar milli umr. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að ég vildi beina til hæstv. menntmrh. einni eða tveimur spurningum, en hann mun nú ekki vera í húsinu, að því er mér var tjáð, þannig að einnig þess vegna mun ég stytta mál mitt mjög.

Í megindráttum tel ég að þetta frv. og þá jafnframt það frv., sem raunar fylgir frv. þessu, þ. e. frv. um breyt. á l. um félagsheimili, séu í meginatriðum til bóta og það hafi verið óhjákvæmilegt að gera einhverja breytingu að því er snertir skemmtanaskattinn og kvikmyndahúsin, til þess að ekki færi svo, að þessi tekjustofn til menningarstarfsemi, þ. e. skemmtanaskattur og miðagjald af kvikmyndahúsum, minnkaði enn við það að fleiri eða færri af þessum húsum yrði lokað. Það er enginn vafi á því, að í þessu frv. felst sú réttarbót fyrir kvikmyndahús, sem ætti að gera þeim kleift að starfa áfram. Ég hygg, að það sé hárrétt, að það hafi verið óumflýjanlegt að jafna þarna aðstöðu kvikmyndahúsanna, því það var orðið þannig, t. a. m. hér í Reykjavík og nágrenni, að um það bil helmingur húsanna hafði undanþágur frá skemmtanaskatti, og um það voru mörg dæmi að það, sem átti að renna til sérstakrar starfsemi, fór í sumum tilfellum beinlínis í reksturinn. Það var ófært og þurfti að leiðrétta, eins og gert er með þessu frv.

Það, sem ég ætlaði hins vegar að minnast á við hæstv. ráðh., hefði hann getað verið hér við umr., það voru mál Menningarsjóðs, en aðaltekjur hans hafa verið og eru miðagjald, fyrst og fremst gjald af kvikmyndahúsum en einnig miðagjald af dansleikjum. Það var ákveðið sem aðaltekjustofn Menningarsjóðs árið 1957 og var gjaldið þá ákveðið 1 kr. af bíómiðum og 2 kr. af aðgöngumiðum að dansleikjum. Þá var meðalverð aðgöngumiða að kvikmyndahúsum 17 kr. og þetta miðagjald var því ekki svo lítið, því 1 kr. gerði þá um 6% af þeirri upphæð. Síðan hefur þetta haldizt algerlega óbreytt. Það hefur verið innheimt samkvæmt lögunum frá 1957 1 kr. af hverjum bíómiða og 2 kr. af dansleikjamiðum, en nú er svo komið, að meðalverð aðgöngumiða er orðið um 70 kr., — það mun vera lagt til grundvallar í þessu frv., — og 1 kr. miðagjald er því komið niður í 1½%.

Á þessum árum hefur stjórn Menningarsjóðs, menntamálaráð, margsinnis snúið sér til menntmrh. og menntmrn. um vanda þessarar stofnunar, því það er ekki aðeins að þetta miðagjald, sem er aðaltekjustofninn og um leið sá, sem hefur þó verið öruggari en hinn, hafi numið aðeins 1 kr., eins og ég sagði, heldur hefur krónunum smátt og smátt fækkað, vegna þess að aðsókn að kvikmyndahúsum hefur óneitanlega minnkað. Þegar bezt lét árið 1965 og árin þar á undan og eftir, þá var þetta miðagjald samtals 3.3 millj. kr., en var komið niður í 2.3 millj. kr. á árinu 1969. Það hefur því lengi verið mikil þörf á því að dómi þeirra, sem hafa með málefni Menningarsjóðs að gera, að eitthvað væri gert til þess að leiðrétta hans hlut, því hann á að standa undir ýmissi menningarlegri starfsemi, en henni hefur ekki verið hægt að sinna nema að mjög takmörkuðu leyti vegna síminnkandi fjármagns, sem sjóðurinn hefur haft yfir að ráða. Hér er ekki aðeins um að ræða bókaútgáfu, eins og ýmsir virðast halda, því að Menningarsjóður stendur algerlega undir listaverkakaupum Listasafns ríkisins, og hversu mikið fjármagn fer til þeirra er algerlega undir því komið, hverjar heildartekjur Menningarsjóðs eru á hverju ári. Það er lögbundið, að til þessara nauðsynlegu listaverkakaupa skuli fara 1/6 hluti af brúttótekjum Menningarsjóðs ár hvert. Menningarsjóður verður lögum samkv. að standa undir ákveðnum fjárgreiðslum í Vísindasjóð. Hann á lögum samkv. að styrkja íslenzka tónlist og styrkja íslenzka kvikmyndagerð, sem vissulega væri ekki vanþörf á, en sjóðurinn hefur verið þess allsendis ómegnugur að inna þessi verkefni af hendi, svo að nokkur mynd væri á, alveg sérstaklega nú síðustu árin.

Það hefur verið svo, að ár eftir ár hefur verið leitað eftir því að fá þarna ráðna bót á, en það hefur verið við vissa erfiðleika að etja og ekki sízt, að rn. eða hæstv. menntmrh. hefur ekki talið fært, vegna hins erfiða fjárhags kvikmyndahúsanna, að breyta þessu krónugjaldi, fyrr en nú, að því er loksins breytt í prósentugjald, og fagna ég því vitanlega, að það skuli nú loksins vera gert.

En þetta er því miður það seint, að hlutur sjóðsins í miðaverðinu hefur fallið úr 6% niður í 1½%.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvað væri fyrirhugað að gera í sambandi við þessi miklu vandamál Menningarsjóðs, sem honum eru mjög vel kunnug, því að stjórn sjóðsins hefur skrifað menntmrn. margsinnis um þennan vanda, og enn sem komið er hefur hæstv. ráðh. ekki séð sér fært að ráða þar aðra bót á heldur en þá, sem kemur fram í því, að krónugjaldinu er nú loksins breytt með þessu frv. í prósentugjald, en þá ætlazt til, að prósentan nú gefi það sama og krónan áður. Jafnframt hefur að vísu verið með stuðningi bæði fjmrn. og dómsmrn. gerð nokkur herferð í því að bæta innheimtu á hinum tveimur aðaltekjuliðum Menningarsjóðs, sem eru ýmsar sektir fyrir brot á áfengislögum, og standa vonir til, að það bæti eitthvað lítils háttar um, en þó engan veginn svo, að störf Menningarsjóðs geti verið með eðlilegum hætti miðað við þau verkefni, sem honum er lögum samkv. ætlað að inna af hendi. Þetta mál var rætt í menntamálaráði nú fyrir þremur dögum og þá var ákveðið að snúa sér til hv. menntmn. með þessi vandamál sjóðsins, og ég geri ráð fyrir, að það verði gert í sambandi við meðferð þessa máls.

Ég skal að lokum aðeins leggja áherzlu á það, að það er ætlun ráðamanna Menningarsjóðs, að ef einhver bót fæst á hans fjárhagsmálum með afgreiðslu þessa frv., þá geti sjóðurinn og hljóti hann að taka á ný upp þá starfsemi, sem hann hafði hafið með góðum árangri fyrir nokkrum árum, en það var einmitt að styrkja félagsheimili og ýmsa staði úti á landsbyggðinni með því að skipuleggja sérstakar menningarlegar dagskrár, sem þessir aðilar áttu kost á að fá með mjög hagkvæmu móti. Þar á ég við starfsemi, sem kölluð var „List um landið“ og fór vel af stað, en þeir aðilar, sem að henni stóðu, urðu því miður að hætta við vegna fjárskorts.

En sem sagt, þetta er mál, sem verður fjallað um í þeirri n., sem ég á sæti í, menntmn., og ég skal því ekki fara fleiri orðum um það á þessu stigi.