19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

Utanríkismál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil, eins og síðasti ræðumaður, láta í ljós undrun mína yfir þessari málsmeðferð. Ég hygg, að það hafi verið s. l. mánudag, að hæstv. forseti kom að máli við mig og tilkynnti mér, að það mundu fara fram umr. um utanríkismál og utanrrh. mundi gefa skýrslu annaðhvort í dag eða á föstudag. Ég skildi hæstv. forseta að sjálfsögðu svo, að hann væri að tilkynna mér þetta sem formanni þingflokks, til þess að við gætum verið undir það búnir að taka þátt í umr. um þetta. Og það tel ég út af fyrir sig mjög eðlileg vinnubrögð og met það við forseta, að hann skyldi hafa þann háttinn á. En vitaskuld hefði verið algerlega óþarft að vera að tilkynna formönnum þingflokka þetta, ef það hefur ekki verið ætlunin, að umr. færu fram í beinu framhaldi af þeirri löngu og ýtarlegu skýrslu, sem hæstv. utanrrh. hefur gefið hér. Það er auðvitað svo, eins og síðasti ræðumaður vék að, að slík skýrslugjöf sem þessi missir að verulegu leyti marks, ef umr. fara ekki fram í beinu framhaldi af henni og meðan skýrslan er fersk í minni manna. Hitt slítur þetta veigamikla mál, — þetta eitthvert allra þýðingarmesta mál, sem Alþingi Íslendinga fjallar um, með óeðlilegum hætti í sundur, og er að mínu viti allsendis óviðeigandi málsmeðferð. Það er auðvitað líka rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, að það verður mjög óeðlileg mynd, sem birtist í fjölmiðlum af þessu, þegar rakin verður skýrsla utanrrh., sem sjálfsagt er, en síðan verður frá því skýrt, að það hafi verið óskað eftir því, að framhaldsumr. yrði frestað. Frá hverjum kom sú ósk? Auðvitað hljóta allir áheyrendur að álykta sem svo, að hún hafi komið frá ábyrgum aðilum innan stjórnarandstöðunnar. M. ö. o.: áheyrendum er ætlað að álykta sem svo, að stjórnarandstæðingar hafi hér á Alþingi Íslendinga ekki verið reiðubúnir að ræða um utanríkismál.

Ég mótmæli algerlega þessari málsmeðferð. Auðvitað er æskilegt, að skýrslum sem þessari eða útdrætti úr þeim sé útbýtt áður, og það er ekkert nýtt, að það komi fram ósk um það. Ég tók þátt í þessum umr. um utanríkismál hér á Alþ., þegar síðast var skýrsla gefin um þau, og þá bar ég fram þá ósk í þeim umr., að framvegis yrði sá háttur hafður á, að þm. væri send slík skýrsla eða útdráttur úr slíkri skýrslu, áður en umr. færu fram, og það eru auðvitað æskileg vinnubrögð. Það hefði átt að gæta þess fyrr.

Ég hygg, að hv. síðasti ræðumaður sé fyrstur á mælendaskrá hjá hæstv. forseta, og hvernig sem það svo er, þá liggur það ljóst fyrir, að hann hefur ekki óskað eftir því, að umr. væri frestað. Ég býst við því, að það séu fleiri á mælendaskrá hjá hæstv. forseta, og ég hygg, að a. m. k. einhverjir þeirra hafi alls ekki óskað eftir því, að umr. væri frestað. Þess vegna tel ég alveg sjálfsagt, hvað sem öllum óskum líður frá einstökum þm., að þeir fái að tala, sem beðið hafa um orðið og eru reiðubúnir til þess að flytja sínar ræður. En ég stórlega efa það, að háttur sem þessi þekkist á nokkru einasta þingi, að það sé flutt mjög gagnmerk ræða um utanríkismál, löng og ýtarleg, og svo sé umr. bara frestað og hæstv. forseti lýsi yfir, að hann geti ekkert um það sagt, hvenær þetta mál verði aftur tekið fyrir. Við vitum, að þingið er með fangið fullt af málum, sem þarf að afgreiða, og við vitum, að páskafríið fer senn í hönd. Það er allt eins líklegt á þessari stund, ef umr. verður nú frestað, að þetta mál komi ekki til umr. fyrr en eftir páska, sem sagt það líði svo sem eins og hálfur mánuður á milli þess, að þessi skýrsla er flutt, og þangað til framhaldsumr. eiga að fara fram um hana. Ég held, að þetta sé ákaflega óeðlileg og óvenjuleg málsmeðferð, þannig að ég vildi nú óska þess, að hæstv. forseti tæki ákvörðun sína til yfirvegunar á ný, því mér finnst, að þetta gefi alranga mynd. Og úr því að hæstv. forseti hafði, sem ég tel rétt og gott, samráð við stjórnarandstöðuna, áður en þessi skýrsla var flutt, hefði það minnsta, sem hann hefði átt að gera, verið það að hafa þá samráð við stjórnarandstöðuna aftur um það, hvort þessari umr. skyldi frestað eða ekki, en að hann beri ekki fyrir sig óskir frá einhverjum óákveðnum þm., sem hann nafngreinir ekki og ég veit ekki einu sinni, hvort eru á mælendaskrá.