10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

Utanríkismál

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er dálítið undarlegt að þurfa á hverju einasta ári að leiðrétta einföldustu atriði í sambandi við aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum úr ræðum hjá hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan: „Sannleikurinn er sá, að Kína hefur alls ekki sótt um aðild.“ Nú hélt ég, að það væri á vitorði allra og ætti að vera sérstaklega á vitorði þess manns, sem fer með utanríkismál á Íslandi, að Kína þarf ekki að sækja um aðild að Sameinuðu þjóðunum, vegna þess að Kína er aðili að Sameinuðu þjóðunum. Kína er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, og Kína á sæti í Öryggisráði samkvæmt ákvæðum stofnsamningsins. Þetta er ekkert deilumál. Deilumálið er hitt, hver á að fara með umboð Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Á það að vera meginlandið sjálft, þar sem búa 700–800 millj. manna, eða eiga það að vera stjórnarherrar, sem flýðu til eylandsins Formósu? Um þetta er deilan. (Utanrrh.: Sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar.) Sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar? Hvað á hæstv. ráðh. við? (Gripið fram í.) Það veit ég ósköp vel. En það var ekki um að ræða neina persónulega stofnun þessara einstaklinga. Það er þjóðin, sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum, en ekki þessir forustumenn, sem ekki gátu haldið völdum í heimalandi sínu. Það er ekki heldur um það að ræða, hvort viðurkenna á aðild Formósu sem sérstaks ríkis að Sameinuðu þjóðunum. Það vandamál liggur ekki fyrir enn þá. Því er haldið fram, jafnt af valdamönnum í Peking sem af valdamönnum á Formósu, að þarna sé ekki um tvö ríki að ræða, heldur eitt, þetta er sameiginlegt mat þessara tveggja aðila. Ef þessar aðstæður breyttust og ef stofnað yrði sjálfstætt ríki á Formósu, þá kemur auðvitað upp það vandamál, hvort eigi að viðurkenna það, og ég teldi, að það væri sjálfsagt mál, ef þar yrði stofnað raunverulega sjálfstætt ríki. En það vandamál liggur raunverulega alls ekki fyrir.

Raunar var það ekki þessi árvissa og einfalda leiðrétting, sem olli því, að ég kvaddi mér hér hljóðs, þó að ég hefði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umr., heldur þau ummæli hæstv. utanrrh. áðan, að umr. hér hefðu leitt í ljós mikla og vaxandi samstöðu um utanríkismál og að á því sviði þyrfti að vera alger þjóðareining. Það er vissulega rétt, að fyrir þjóð eins og Íslendinga er það ákaflega mikilvægt, að eining sé um utanríkismál. En ég held, að það sé ástæða til að leggja á það mjög þunga áherzlu, að um það mál getur aldrei orðið eining, á meðan þeirri stefnu er fylgt, að erlendur her sé á Íslandi og sé þar með mikla herstöð og hafi þaðan mjög víðtæk áhrif. Það hlýtur að vera forsenda utanríkisstefnu Íslendinga, að Íslendingar séu frjálsir og sjálfstæðir í landi sínu. Og það er staðreynd, hvaða afstöðu sem menn hafa til hernáms, að erlend herseta skerðir sjálfstæði. Þeir menn, sem bera ábyrgð á erlendri hersetu á Íslandi og telja hana nauðsynlega, hafa um leið lýst stuðningi við þá stefnu, að eins og ástatt sé geti Íslendingar ekki haft fullt frelsi og sjálfstæði í landi sínu. Þetta er að sjálfsögðu mikið alvörumál. Meðan þetta ástand er, þá mun verða deilt um þessi mál. Það skulu menn gera sér algerlega ljóst. Það hvílir ákaflega þung ábyrgð á þeim valdamönnum, sem hafa kallað þetta ástand yfir Íslendinga og viðhalda því.

Hv. formaður utanrmn. flutti hér ræðu áðan og hegðaði sér eins og dyggur varðliði, sem vitnar í leiðtoga sinn óskeikulan, og lagði áherzlu á það, að Sjálfstfl. hefði mótað stefnuna í utanríkismálum. Þetta er alveg rétt, þetta hefur Sjálfstfl. gert hvað þetta atriði snertir. Bæði Alþfl. og Framsfl. voru andvígir því, að hér væri erlendur hér á Íslandi. Báðir þessir flokkar stóðu að því ásamt Alþb. 1956 að ákveða, að herinn skyldi hverfa úr landinu. Þetta var stefna þessara flokka. Sjálfstfl. var þá andvígur þessari stefnu, en það er stefna hans, sem hefur sigrað hingað til. En þess vegna hvílir ákaflega þung ábyrgð einmitt á Sjálfstfl. að tala um það af fullri hreinskilni, hvað hann hugsi sér um áframhaldið. Að vísu hefur hæstv. forsrh. sagt, að það fái ekki staðizt til langframa, að hér sé erlendur her. En almennar yfirlýsingar af þessu tagi nægja ekki. Menn verða að vega þetta og meta með fullum rökum og gera grein fyrir því, við hvaða aðstæður þeir teldu rétt að herinn færi. Ef maður spyr um þau atriði, þá verður ákaflega lítið um svör. Stundum lýsa ráðh. yfir því, að Íslendingar hafi ekki vit á þessum málum og það þurfi að mennta einhverja menn í þeirri grein að kunna að meta aðstæður eins og þessar. Mig minnir meira að segja, að þetta hafi verið hluti af stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. fyrir nokkrum árum, þó að ég hafi ekki heyrt mikið um framkvæmdina á því. En nú er komið annað til. Nú er talað um, að einhver dularfullur kanadískur sérfræðingur eigi að semja um þetta álitsgerð, hlutlausa álitsgerð, eins og hæstv. ráðh. komst að orði. Ef menn vilja fá hlutlausa álitsgerð um þetta mál, þá hefði sennilega verið skynsamlegra að leita til einhvers annars en aðildarríkis NATO.Ég hefði til að mynda talið það mjög skynsamlegt, að hæstv. utanrrh. hefði leitað til ágætra flokksbræðra sinna sænskra um aðstoð við þetta efni, ef hann þarf á henni að halda. En ég held, að þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh. séu alls ekki á rökum reistar. Ég held, að þessir hæstv. ráðh. hafi fulla getu til þess að meta þetta sjálfir, ef þeir vilja. Ég held, að þetta séu vífilengjur. En þá verða menn einnig að kunna að tala um mál af fullu raunsæi og af fullri alvöru.

Þeir þættir í skýrslu hæstv. utanrrh., þar sem fjallað var almennt um heimsmálin, voru vægast sagt ákaflega barnalegir. Fyrst ég er farinn að ræða þetta, þá langar mig að minnast hér á eitt atriði, sem sýnir ákaflega vel, hvernig hæstv. utanrrh. fjallar um þessi mál. Í hinni vélrituðu skýrslu segir m. a. svo á bls. 32, með leyfi hæstv. forseta, þar sem hæstv. ráðh. er að tala um, hvar sé friðsamlegt og hvar sé ófriðsamlegt í veröldinni:

„En það er einn heimshluti, þar sem jafnvægi hefur verið komið á. Friðsamasta svæðið er nú í Vestur-Evrópu, þar sem áður voru blóðugustu vígvellir í tveimur heimsstyrjöldum, sem báðar stóðu á þessari öld og eru eldri mönnum enn í fersku minni. Það liðu ekki nema rétt rúmlega 20 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar og þar til styrjöld brauzt út á ný í Evrópu. Nú eru tæp 25 ár liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er ekki fyrir tilviljun, að Evrópa er í dag friðsamasta svæði í heimi. Full ástæða er til að ætla, að friðurinn í Evrópu sé fyrst og fremst tilveru Atlantshafsbandalagsins að þakka.“

Svona einfalt er þetta. Það þurfti aðeins að stofna bandalag eins og Atlantshafsbandalagið, og þá leystust þessi vandamál Evrópu. En málið er ekki svona einfalt, því fer ákaflega fjarri. Hverjar voru ástæðurnar til þess, að styrjaldir brutust út í Evrópu á þessari öld tvívegis? Ég held, að um það sé varla ágreiningur, að ástæðurnar voru þær, að Evrópuríkin voru þá heimsvaldaríki. Í Evrópu voru þau ríki, sem teygðu áhrif sín um hnöttinn, þ. á m. Bretland, sem var með svo víðlent heimsveldi, að sólin gekk aldrei til viðar innan þess. Svipað er að segja um Frakkland og fleiri lönd. Ég þarf ekki að rekja það. Ástæðan til þess að styrjaldir brutust út var ágreiningur þessara heimsvelda um aðstöðu, um völd, um hráefni. Það, sem breyttist eftir síðari heimsstyrjöldina, var það, að þessi heimsveldi hrundu til grunna. Bretar urðu, þótt þeir ætluðu sér það sannarlega ekki, að sleppa nýlendum sínum einni af annarri. Slíkt hið sama neyddust Frakkar til að gera og háðu þeir þó blóðuga bardaga, fyrst í Indó-Kína og síðan í Alsír, til að halda völdum sínum, en árangurslaust. Heimsveldin í Evrópu eru ekki lengur þau heimsveldi, sem þau voru. En í staðinn hefur risið upp nýtt heimsveldi, Bandaríkin, sem hafa komið inn í það kerfi, sem hrundi til grunna hjá Evrópuþjóðunum. Það voru Bandaríkin, sem komu hinum hrjáðu ríkjum Evrópu til aðstoðar með hernaðarmætti sínum, með fjármagni sínu, og hafa beint og óbeint drottnað yfir Vestur-Evrópu síðan. Þetta eru gerbreyttar aðstæður. Það er af þessum ástæðum, sem ekki hafa komið upp deilur milli Vestur-Evrópuríkja á sama hátt og áður var. Það er vegna þess, að sjálfur grundvöllurinn er orðinn gerbreyttur. Það er ekki vegna þess, að eitthvert gott bandalag hafi verið stofnað. Ástæðurnar rista miklu dýpra.

Bandaríkin hafa hins vegar komið inn í kerfi þessara gömlu heimsvaldaríkja á nýjan hátt. Það, sem mótað hefur heimsástandið eftir styrjöldina, eru nýjar andstæður, sem í fyrstu urðu á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Bandaríkin gerðu sér vonir um það, þegar styrjöldinni lauk, að þau gætu borið höfuð og herðar yfir öll önnur ríki á hnettinum, sérstaklega vegna þess að Bandaríkin réðu yfir kjarnorkusprengjunni, og af því hlutust þær miklu deilur í Evrópu, sem ég þarf ekki að rekja hér, sem menn muna eftir og nefndar hafa verið kalda stríðið. En þær breytingar, sem hafa verið að gerast á þessu sviði síðan, eru þær, að þessi stórveldi hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að þau megi ekki takast á, þau verði að leysa vandamál sín eftir öðrum leiðum. Þá er komið upp það ástand, sem einkennir heimsvandamálin nú, vaxandi tilraunir þessara stórvelda til þess að skipa málum, hvar sem er á hnettinum, með samkomulagi sín á milli, beinu eða óbeinu. Hæstv. ráðh. vék að þessu í skýrslu sinni um utanríkismál og lét í ljós nokkra undrun á því, hvað stórveldin hefðu talað friðsamlega hvert í annars garð á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, og hann lét í ljós enn meiri undrun á því, hvað smáríki virtust vera hrædd við þessa vinsemd milli stórveldanna. Ég held, að hæstv. ráðh. þurfi ekki að undrast þetta neitt. Það eru alls ekki fýsilegar horfur fyrir smáríki, að tvö kjarnorkuvædd risaveldi drottni yfir málefnum mannkynsins og skerði sjálfstæði þjóða, ef þeim býður svo við að horfa. En það er þetta vandamál, sem blasir við í dag. Og það fróðlegasta, sem hefur verið að gerast í heimsmálum, er einmitt uppreisn ýmissa aðila gegn þessu kerfi. Sú uppreisn hefur átt sér stað beggja vegna, eins og menn vita. Í Vestur-Evrópu hefur hún gerzt í Frakklandi. Frakkar slitu öllu hernaðarsamstarfi við Atlantshafsbandalagið og þau samvinnuslit standa enn, og síðan ráku Frakkar alla erlenda heri úr landi sínu, allar stöðvar Bandaríkjanna, sópuðu þeim burt. Það væri hægt að minnast á ýmis fleiri dæmi um slíkt í Vestur-Evrópu, en hið fróðlegasta af þessu tagi hefur þó gerzt austan megin, og það er uppreisn Kínverja gegn þessum tilraunum risaveldanna til þess að ná jafnvægi sín á milli í heiminum. Þetta er meginástæðan fyrir hinum miklu deilum milli Kínverja og Rússa. Það er augljóst mál, og þau orð, sem hæstv. utanrrh. lét falla í skýrslu sinni um kredduágreining og annað slíkt, eru ákaflega yfirborðsleg. Það, sem máli skiptir, er það, að Kínverjar neita að sætta sig við þá framtíð, að risaveldin tvö drottni yfir öðrum ríkjum á hnettinum, og stefna að því að vera þar algerlega sjálfstæður og fullgildur aðili. Það eru hugmyndir af þessu tagi, sem einnig er rætt um í vaxandi mæli í sambandi við hugmyndina um öryggisráðstefnu í Evrópu, sem hæstv. ráðh. vék að með æðimiklum efasemdum.

Í sambandi við slíka öryggisráðstefnu er um tvö sjónarmið að ræða. Sumir virðast ímynda sér, að þessi ráðstefna eigi að vera í því fólgin, að þar verði samið um hlutina á grundvelli þeirra tveggja hernaðarbandalaga, sem eru í Evrópu, Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins, þau verði hreinlega fest í sessi sem varanlegt ástand. En það eru einnig uppi þær raddir, sérstaklega meðal smærri þjóða, að fara verði þveröfuga leið. Eina leiðin til þess að tryggja eðlilegt ástand í Evrópu sé að auka sjálfstæði og fullveldi smáþjóðanna. Og ég held, að það væri ákaflega brýnt fyrir Íslendinga að fylgjast einmitt með þeim viðhorfum.

Ég tók svo eftir, að það eina, sem hæstv. utanrrh. Íslands lagði til mála, þegar Finnar spurðu að því, hvort Íslendingar vildu taka þátt í slíkri ráðstefnu, var það að koma með þann fyrirvara, að Kanada og Bandaríkin yrðu að vera með. Nú er það í sjálfu sér eðlilegt, að Bandaríkin og Kanada séu þarna með. En það er sannarlega ekki það, sem er mest keppikefli fyrir land eins og Ísland, heldur einmitt hitt, að stuðla að því að brjóta niður þetta valdakerfi risaveldanna.

Að öðru leyti ætlaði ég ekki að taka frekari þátt í þessari umr., en vildi að lokum ítreka það, sem ég vék að í upphafi. Það er nauðsynlegt og í rauninni skylda hæstv. ríkisstj. að gera grein fyrir því, hvenær og við hvaða aðstæður hún telur, að aflétta megi hernámi af Íslandi.