15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hafði mælzt til þess við hæstv. forseta, að hér í þingsölunum væri ekki rætt það hugsanlega sjóslys eða mannskaði, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, fyrr en þeir aðilar, sem staðið hafa fyrir leit að skipinu, hafa gefið eins og venja er út sína opinberu tilkynningu um, að leit væri hætt og viðkomandi aðilar eða skipverjar taldir af. Það getur hver haft sinn hátt á þessu sem vill, og skal ég ekki hafa fleiri orð um það. Ég skal ekki heldur ræða á þessu stigi málsins um aðgerðir í þessu sambandi, því mér finnst hlýða að fjalla um þetta með öðrum hætti en utan dagskrár. En ég vil segja það, af því að ég er spurður sérstaklega eftir því, að dómsmrn. hefur þegar tekið til athugunar, hvernig á hafi staðið, þegar þau sjóslys hafa átt sér stað, sem hv. þm. vék að, til þess að geta á fyrsta stigi haft skýrslugerð um það atriði, og aðrar ráðstafanir yrðu þá væntanlega gerðar í samráði við alla viðkomandi aðila, sem hér eiga hlut að máli, og náttúrlega ekki sízt Alþ., en það bíður síns tíma.