04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

Námslán

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, sem hér hefur farið fram á milli hv. 6. þm. Reykv. og hæstv. menntmrh., því að mér finnst þetta mál líka þannig vaxið, sem um er að ræða, lánamál íslenzkra námsmanna, að það sé svo stórt og þýðingarmikið, að við eigum helzt að reyna að ræða um það án þess að um það þurfi að standa harðvítugar deilur.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst sú, að mér fannst frekar óljós þau svör, sem komu frá hæstv. menntmrh. um það, hvað hann og ríkisstj. hyggjast gera í þessum málum á næstunni. Ef ég skildi ráðh. rétt, þá voru svör hans eitthvað á þá leið, að ríkisstj. mundi láta taka þessi mál til athugunar í samráði við þá aðila, sem um þau mál eiga sérstaklega að fjalla, og niðurstöður þeirra athugana yrðu svo síðar teknar upp, þegar farið væri að semja fjárlög, og það mundi ekki verða þess vegna gengið öllu fyrr frá þessum málum en í sambandi við samningu fjárl. og afgreiðslu þeirra næsta haust. Ég held, að ég hafi skilið hæstv. ráðh. rétt, að þetta eru meginatriðin í því, sem hann sagði.

En ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, sem kom fram hjá seinasta ræðumanni alveg sérstaklega, að mjög margir námsmenn geta ekki beðið jafnlengi eftir svörum eins og hæstv. ríkisstj. virðist gera ráð fyrir. Þeir námsmenn, sem þegar eru komnir eitthvað áleiðis, verða að ákveða á þessu sumri, hvort þeir halda áfram eða ekki, og það veltur alveg á svörum hæstv. ríkisstj. um marga þeirra, hvort þeir geta haldið áfram eða ekki. Það bætist svo við, að á þessu vori bætast við nokkur hundruð stúdenta, og þeir þurfa einnig að gera það upp við sig í sumar, hvað þeir ætla að taka sér fyrir hendur að stúdentsnáminu loknu. Og það, hvað þeir gera margir hverjir, veltur á þeim svörum, sem koma frá hæstv. ríkisstj., og þeir geta ekki beðið eftir því til næsta hausts að fá þessi svör. Þau þurfa að koma miklu fyrr.

Þess vegna vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann gæti ekki svarað því nú, að það mætti vænta þess, að svör ríkisstj. um þetta efni, hvað hún hyggst fyrir í sambandi við námslán námsmanna, hvort hún ætlar að hækka þau eða ekki, — hvort þau svör gætu ekki legið fyrir miklu fyrr en næsta haust, t.d. 1. júní eða 1. júlí í síðasta lagi. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh. um þetta atriði. Og í öðru lagi vil ég spyrja í framhaldi af því, hvort ekki megi vænta þess, þó að endanleg niðurstaða liggi að sjálfsögðu ekki fyrir, hvort endanleg niðurstaða muni samt ekki verða sú, að hann geri ráð fyrir því, að aðstoð við námsmenn muni verulega aukast frá því, sem hún hefur verið á þessu námsári, hvort þeir megi ekki reikna með því, að annaðhvort verði námslánin hækkuð eða tekin upp námslaun í einhverju formi. Þó að ríkisstj. gæti ekki sagt neitt ákveðið um þetta nú, þá er það eigi að síður mikilvægt fyrir námsmenn að fá nokkra vísbendingu um þetta og hverju þeir mættu reikna með í þessum efnum. Það mundi verða til þess, að þeir ættu auðveldara en ella að taka ákvarðanir, bæði þeir, sem eru í framhaldsnámi, og þeir, sem ætla að byrja á nýju námi á komandi hausti.

Sem sagt, ég vildi beina þessum tveim fsp. til hæstv. ráðh.: Í fyrsta lagi, hvort ekki megi vænta ákveðinna svara frá ríkisstj., t. d. fyrir 1. júní eða 1. júlí eða það snemma, að námsmenn gætu haft hugmynd um það, sem gert yrði, áður en þeir þyrftu að taka endanlegar ákvarðanir um sitt framhaldsnám eða hvað þeir ætla að gera, og svo í öðru lagi, hvort ekki megi vænta þess, þó að ríkisstj. geti ekki sagt ákveðið um það núna, að námsaðstoð muni verulega aukast frá því, sem nú er, og þeir geti treyst á það, þegar þeir gera sínar áætlanir.

En því skulum við gera okkur grein fyrir, að þó að námsmönnum verði kannske eitthvað á í sambandi við þessa baráttu sína, þá er hún byggð á fullkominni alvöru, sökum þess að það er áreiðanlega þannig ástatt um langflesta þeirra, sem eiga ekki þeim mun ríkari aðstandendur, að þeir horfast í augu við það, ef þeir fá ekki neina frekari úrlausn en hefur verið til þessa, að þeir verða að hætta námi. Og ég held, að hver og einn þm., sem stæði í sporum slíks námsmanns, hljóti að gera sér grein fyrir því, að þessir menn standa frammi fyrir nokkuð alvarlegum hlutum. Þess vegna verða menn að taka tillit til þess, að þeir kannske grípa stundum til aðferða, sem hefðu verið betur ónotaðar. En ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vænti þess, að hæstv. ráðh. geti svarað þessum tveim fsp., sem ég hef beint til hans.