23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

Þingfréttir í dagblöðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er að gefnu tilefni, sem ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, en þó ætla ég að reyna að hafa aths. mína alveg ádeilulausa, og þó að tilefnið sé að þessu sinni frásögn í Tímanum í morgun, þá er aths. mín sett fram almennt.

Það er svo, að þrátt fyrir mjög þröngan húsakost hafa hæstv. forsetar þingsins haft forgöngu um það og hafa gert sér far um að búa vel að þingfréttariturum blaða og útvarps hér í þinginu. Hefur verið tekið sérstakt húsnæði til þess nú síðari árin, þar sem þeir hafa aðstöðu í klefum sínum og með hlustunartæki, sem er ósambærilegt við það, sem áður var. Á sama hátt og þingið hefur talið sig gegna skyldum gagnvart þingfréttariturum blaðanna að þessu leyti, þá verðum við þm. einnig að gera kröfu til þess, að í frásögnum þingfréttaritara gæti þess, að þeir verða líka að gegna skyldu gagnvart Alþ. og þm. Í gær varð ég að gegna þeirri skyldu minni hér að svara fsp. um úthaldsdaga varðskipanna, og ég gaf upp tölur um úthaldsdaga varðskipanna. Ég lét fylgja þeim miklu minni skýringar og túlkun heldur en hefði kannske verið hægt að gera og m. a. kannske vegna þess, að ég held, að bæði við í ríkisstj. og einnig þm. höfum lagt á það áherzlu nú upp á síðkastið að reyna að stytta mál okkar sem mest í fsp.-tímanum. En þær tölur, sem ég nefndi, voru auðvitað alveg ótvíræðar og skiljanlegar, og gaf ég auk þess nokkrar skýringar á tölunum. En af þessu öllu saman eru dregnar þveröfugar niðurstöður, þegar fréttir birtast svo í morgun, því að í fyrirsögn í Tímanum er sagt, að úthaldsdögum varðskipa hafi fækkað að undanförnu, á sama tíma sem gæzluþörfin stórvex. Tölur mínar voru aðrar. Þær voru þessar, að á 12 mánuðum 1968 hefðu úthaldsdagarnir verið 864 og á 9 mánuðum 1969 694 3/4 hluta ársins. En ég sagði, að á mánuði að jafnaði væru úthaldsdagar fleiri í ár heldur en nokkurt annað ár frá 1965. Ég fór ekki lengra aftur í tímann. Ég sagði, að 1965 hefðu þeir verið 70, 1966 70, 1967 75, 1968 72, en úthaldsdagar að meðaltali á mánuði 1969 77. Auðvitað var augljóslega hægt að reikna það, þegar ég segi, að úthaldsdagarnir til 1. okt. séu 694, að þeir mundu með hlutfallslega sama úthaldi síðasta ársfjórðunginn verða 924, þ. e. a. s. fleiri en á s. l. ári, og að meðaltali á mánuði gerði ég grein fyrir, að þeir væru fleiri. Mér þætti vænt um, ef þessi mistök, sem ég geri ráð fyrir, að séu, en ekki annað, verði leiðrétt.

Ég hef ástæðu til þess að ætla, og skal aðeins bæta því við, að úthaldsdagar varðskipanna síðasta ársfjórðunginn verði fleiri en þetta meðaltal 3/4, fyrri hluta ársins er, vegna þess að ég gat þess, að Ægir hefði verið í „garanti“-skoðun í nærri mánuð. Það er bara tveggja daga úthald á honum í júlímánuði. Ég gat þess einnig, að hann hefði ekkert verið gerður út til gæzlu í september, vegna þess að stimpill brotnaði á Dalvík, svo að tvo mánuði af þessum níu var stærsta varðskipið óvirkt, en alla aðra mánuði ársins hefur úthald þessa skips verið 24–25 dagar á mánuði. Ef við tökum t. d. bara þá raunverulega 9 mánuði ársins 1968 og 9 mánuði ársins núna, er líka 40 daga raunverulegur munur. Ef Ægir, sem núna er kominn í lag eftir þetta óhapp, verður gerður út með svipuðum hætti og áður, þá er líklegt, að það verði um 100 daga meira úthald á varðskipunum árið 1969 heldur en 1968, en það er um 10% aukning.

Nú er mér ósköp vel ljóst, að það má lengi deila um, hvernig sagt er frá fréttum, hvernig túlkaðar eru fréttir, og það er allt of langt mál til þess, eins og sagt er, að fara út í það. En þegar við erum beðnir um að gefa upplýsingar, ráðh., tölulegar upplýsingar eins og gefnar eru, þá má ekki draga alranga niðurstöðu af þeim tölum, sem við höfum gefið þm. og engin aths. hefur komið um, að ekki væru réttar, enda eru þessar tölur fengnar frá Landhelgisgæzlunni sjálfri.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, því að eins og ég sagði vildi ég reyna að hafa þau ádeilulaus. En ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta þingsins, að þeir komi þessari aths. réttilega áleiðis, sem er í því fólgin almennt, að fréttaritararnir, sem hét eru, þingfréttaritararnir, geri sér grein fyrir því, að eins og þeir hafa og eiga kröfu á góðri aðstöðu hér í þinginu, þá eigum við líka kröfu til þess, að þeir gæti skyldu sinnar að birta frásagnir, sem eru í samræmi við það, sem er sagt að þessu leyti, a. m. k. þegar um beinar tölulegar upplýsingar er að ræða.