23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

Þingfréttir í dagblöðum

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er vegna þess, að rætt er um þingfréttir í blöðunum, sem mig langar að bæta við fáeinum setningum. Ég tek að sjálfsögðu undir, að það er mjög þýðingarmikið, að fréttamenn fari rétt með tölur og staðreyndir þær, sem fram koma á Alþ., og skal ég ekki ræða það eða bæta neinu við um það efni.

En það er annað, sem er líka mjög þýðingarmikið, og það er, að blöðin geri sér far um að láta koma fram fréttir frá Alþ., velji ekki úr af handahófi eða eftir einhverjum annarlegum sjónarmiðum fréttaefni, en sleppi öðru. Með því að sleppa fréttum er oft hægt að gefa býsna ósanna mynd af því, sem skeður á Alþ. Og fyrst farið er að minnast á þetta kemur það upp í huga minn, að ég var einmitt í dag að gæta að því, hvernig blöðin sögðu frá umr. þeim, sem hér urðu um byggðaáætlanir í gær, en það komu fram fréttir í þeim umr. Það var t. d. sagt frá því, sem ég held að sé talsvert stór frétt, að það er byrjað að vinna að Austurlandsáætlun. Ég dreg í efa, að sú frétt hafi komið fram áður. Og fleira kom fréttnæmt fram í því sambandi. Ég var t. d. að leita í Morgunblaðinu og ég gat ekki fundið þar neinar frásagnir af þessu eða neinar fréttir af þessum umr. Ég nefni þetta sem dæmi. Ég nefni Morgunblaðið, vegna þess að ég var að leita þar. Ég sá hins vegar, að það var frásögn af þessu í Tímanum, en var ekki kominn svo langt, að ég væri búinn að leita í fleiri blöðum. Ég nefni þetta til þess að skýra það fyrir mönnum, að það er fleira, sem getur verið að, en það, að menn heyri skakkt eða fari skakkt með, sem á náttúrlega ekki að koma fyrir.

Að sumu leyti finnst mér, að þingfréttum blaðanna hafi farið aftur núna. Það var fyrir skömmu orðið þannig, sums staðar a. m. k., að maður gat séð, hverjir höfðu tekið til máls í hverju máli og stuttlega sagt frá því, hvað hver hafði sagt. Að vísu var þetta hlutdrægt að því leyti til, að það var sagt miklu meira frá því, sem sá hafði talað, sem blaðinu var kær, en hinn, sem blaðinu fannst minna til um eða var úr andstæðum flokki. En látum það vera. Það var þó frásögn. En nú hafa blöðin meira fellt þetta niður, og það virðist eiginlega helzt komið í það horf aftur, að úr sé bara valið það, sem blöðunum finnst af pólitískum ástæðum skynsamlegt að segja, og hitt látið liggja. Þetta finnst mér mikil afturför og ég vil nefna þetta dæmi, að t. d. er ekki í Morgunblaðinu, sem annars flytur talsverðar fréttir frá Alþ., svo að ég hafi getað séð, neitt sagt frá þessum umr. um Vesturlandsáætlun, Austurlandsáætlun og Suðurlandsáætlun og annað, sem fór fram í gær.