27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

23. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Meira en tvo áratugi hefur verðlagsgrundvöllur búvöru og afurðaverð til bænda verið ákvarðað af svokallaðri sexmannanefnd, sem skipuð er 3 fulltrúum neytenda og 3 fulltrúum framleiðenda. Í þeim tilvikum, þegar sexmannanefnd hefur eigi náð samkomulagi, hefur málið gengið til sérstakrar yfirnefndar, þar sem bændur og neytendur hafa einnig átt aðild að, og þá til fullnaðarúrskurðar. Þetta verðskráningarkerfi hefur að vísu tekið breytingum síðustu tvo áratugina, en sá grundvöllur hefur ætíð staðið óhaggaður, að bændur og neytendur ættu hér hagsmuna að gæta og ættu um þetta mál að fjalla. Samstarf bænda og neytenda innan sexmannanefndar hefur að vísu stundum verið stirt og stundum skorizt í odda, en þrátt fyrir það hefur kerfið staðið af sér öll áföll. Þegar á heildina er litið, þá tel ég að þetta verðskráningarkerfi hafi reynzt vel og till., sem fram hafa komið, um aðrar leiðir til að leysa verðskráningarmál landbúnaðarins eru ekki til bóta að mínum dómi. Á hinn bóginn lít ég svo á, að verðskráningarkerfið þurfi ýmissa endurbóta við, án þess að grundvellinum sé raskað. Með það í huga flyt ég frv. það, sem hér er til umr. og er á þskj. nr. 23 og fjallar um breyt. á l. nr. 101 frá 8. des. 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl.

Í frv. eru eingöngu fólgnar breyt. á 2. kafla l., en það er einmitt sá kafli, sem fjallar um verðskráninguna. Þessar breyt. eru margvíslegar, en meginbreyt. eru: 1) Í stað sexmannanefndar komi sjömannanefnd. 2) Neytendasamtökin og Sjómannasamband Íslands skuli tilnefna neytendafulltrúa í stað Alþýðusambandsins og Sjómannafélags Reykjavíkur. 3) Fjárhæð útflutningsbóta á einstakar vörutegundir er takmörkuð við 200% uppbætur.

Eins og kunnugt er, eiga sæti í sexmannanefnd 3 fulltrúar neytenda. Sexmannanefnd ber því keim af tveim þriggjamannanefndum andstæðra hagsmunahópa, sem eiga að semja um málið og leysa þau. Í nefndina vantar, að mínum dómi, fulltrúa, sem er óbundinn af sjónarmiðum bænda og neytenda, mann, sem getur verið tengiliður milli þessara hagsmunahópa og stuðlað að sáttum og samkomulagi innan nefndarinnar. Þar eð sexmannanefnd er höfuðlaus her, ef svo má segja, þar sem enginn formaður er í nefndinni, álít ég tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi með því að setja nefndinni óháðan formann og gera hana þar með að sjömannanefnd. Þennan formann ætla ég forsrh. að skipa og tel það vel við eiga, þar sem landbrh. á að gæta hagsmuna bænda og félmrh. hagsmuna neytenda, en forsrh. verður að hafa hagsmuni beggja jafnt í huga. Hlutverk formannsins verður að kveðja sjömannanefnd saman til funda, stýra fundum hennar og koma fram fyrir hönd hennar út á við og gagnvart ríkisvaldinu, en iðulega þarf að gera hliðarsamninga við ríkisvaldið til að skapa grundvöll fyrir samkomulag innan nefndarinnar. Síðast en ekki sízt verður það hlutverk formannsins að gegna eins konar sáttasemjarastarfi innan sjömannanefndarinnar. Af þessu leiðir, að í frv. er fellt niður ákvæði laga um sáttaumleitanir af hálfu sáttasemjara ríkisins, ef samkomulag tekst ekki með fulltrúum bænda og neytenda. Sáttastarf tekur að jafnaði langan tíma, og ef formanni sjömannan. tekst ekki að leysa það verkefni, eru engar líkur á, að sáttasemjara ríkisins takist það frekar á þeim skamma tíma, sem hann hefur til umráða samkvæmt gildandi ákvæðum framleiðsluráðsl., en þann tíma er ekki unnt að lengja vegna þess, hve skammur tími er til stefnu, frá því að öll gögn og úrtök geta verið tilbúin, unz verðlagsgrundvöllur þarf að liggja fyrir. Ég tel það einmitt kost við þetta frv., að samkvæmt því sparast sá tími, sem sáttasemjari ríkisins hefur haft málið til meðferðar, þótt skammur sé. Eftir gildandi reglum geta fulltrúar bænda fellt allar till. í sexmannan., ef þeir standa saman, þar sem þeir fara með 3 atkv. af 6 í n. Sama gildir auðvitað um fulltrúa neytenda. Það er ekki meiningin að breyta þessu, þótt fjölgi um einn mann í n. Samkvæmt 3. málsgr. 1. gr. frv. telst till. samþ. í sjömannan., ef 4 nm. eða fleiri greiða henni atkv., þó með þeim fyrirvara, að till. fellur, ef allir fulltrúar framleiðenda eða allir fulltrúar neytenda greiða atkv. gegn henni. Formaðurinn getur því ekki tryggt framgang mála í n., með því að ganga í lið með fulltrúum annars aðilans gegn fulltrúum hins aðilans. Þessi regla á að vera formanninum, og reyndar öllum nm., hvöt til þess að ná jafnan sem víðtækustu samkomulagi innan nefndarinnar.

Fulltrúar neytenda í sexmannan. eru samkvæmt gildandi lagaákvæðum tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna og Sjómannafélagi Reykjavíkur. Með frv. er ekki gerð nein breyt. á tilnefningarrétti Landssambands iðnaðarmanna, en lagt til að í stað Sjómannafélags Reykjavíkur komi Sjómannasamband Íslands. Ætla má, að það hafi í upphafi verið fyrirætlan löggjafans, að einn neytendafulltrúinn væri fulltrúi sjómannastéttarinnar í landinu og rétt væri að fjölmennasta sjómannafélagið tilnefndi hann, þar sem landssamtök sjómanna voru þá ekki fyrir hendi. Nú er Sjómannasamband Íslands hins vegar til staðar og innan vébanda þess er Sjómannafélag Reykjavíkur, svo og fjöldi sjómannafélaga um allt land. Af þeim sökum fer vissulega betur á því, að Sjómannasamband Íslands leysi Sjómannafélag Reykjavíkur af hólmi sem tilnefningaraðila.

Þá er enn fremur lagt til í frv., að í stað Alþýðusambandsins komi Neytendasamtökin sem tilnefningaraðili. Þessi brtt. er nokkuð sérstaks eðlis, og með henni er alls ekki verið að taka Neytendasamtökin fram yfir Alþýðusambandið í þessum efnum, og að óbreyttum aðstæðum er heldur ekki verið að svipta Alþýðusambandið neinum rétti með þessu. Málið er þannig vaxið, að Alþýðusambandið hefur ekki notað tilnefningarrétt sinn í mörg ár og vill ekki nota hann. Meginástæðan mun vera sú, að tilþýðusambandið hefur tekið upp nýja stefnu í þessum málum á þá lund, að bændum beri að semja um verðlagningarmálin við ríkisvaldið en ekki neytendur. Vill Alþýðusambandið því ekkert skipta sér af verðlagningunni á grundvelli núverandi kerfis. Ég skal ekki gera þessa nýju stefnu að umræðuefni hér að fyrra bragði, en ég er henni andvígur, eins og frv. þetta ber með sér. Hins vegar verður að horfast í augu við þá staðreynd, að Alþýðusambandið fæst ekki til að skipa fulltrúa í nefndina. Þá verður að finna annan tilnefningaraðila í staðinn, er sé forsvarsaðili fyrir neytendur, og hvað er eðlilegra en velja Neytendasamtökin í það hlutverk? Hitt getur aldrei verið nema bráðabirgðaúrræði samkvæmt eðli málsins, að láta félmrh. tilnefna mann í stað Alþýðusambandsins, eins og viðgengizt hefur á undanförnum árum, þó að það sé að vísu fullgilt l. samkvæmt.

Í 2. málsgr. 12. gr. framleiðsluráðsl. segir, að tryggja skuli bændum greiðslu á þeim halla, sem þeir verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en sem svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár miðað við það verð, sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar.

Þriðja meginbreyt., sem frv. hefur að geyma er sú, að bæta nýju ákvæði aftan við þessa málsgrein á þá lund, að útflutningsuppbætur megi þó aldrei verða hærri en 200% á neina vörutegund miðað við fob. verð. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði tel ég það fráleitt að framleiða og flytja út landbúnaðarvörur, sem seljast fyrir minna en þriðjung af framleiðslukostnaðarverði. En á síðustu 10 árum hefur það alloft komið fyrir, að á einstakar vörutegundir, einkum mjólkurafurðir, hafi verið greiddar 300–400% útflutningsuppbætur, og er mál til komið að reisa einhverjar skorður við slíku.

Í 5. tölul. 2. gr. framleiðsluráðsl. er það talið eitt af aðalverkefnum Framleiðsluráðs landbúnaðarins að vinna að því að beina framleiðslu landbúnaðarins að þeim framleiðslugreinum, sem landbúnaðinum er hagfelldastur og samrýmast bezt þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma.Ákvæði frv. um að takmarka útflutningsuppbætur á einstakar vörutegundir landbúnaðarafurða við 200% miðar einmitt að því að hvetja Framleiðsluráð landbúnaðarins til þess að inna þetta hlutverk sem bezt af hendi. Ef litið er á takmörkunarákvæði frv. eingöngu frá sjónarmiði bænda, þá skiptir þetta ákvæði litlu máli, þegar talsvert vantar á, að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar dugi til að mæta bændum hallann af búvöruinnflutningnum, Heildarfjárhæð uppbótanna mundi þá ekki skerðast. Öðru máli gegnir, þegar 10% duga, eða því sem næst, þá mundi takmörkunarregla frv. valda lækkun lá heildarfjárhæð útflutningsuppbóta.

En er þetta skerðing á hagsmunum bænda, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn? Sá möguleiki er fyrir hendi, að bændurnir ásamt vinnslustöðvunum gætu brugðizt þannig við, að breyta framleiðsluháttum og markaðsöflun á þann veg, að komizt yrði hjá því, að framleiða vörutegundir, sem þyrftu meira en 200% uppbætur. Þá hefðu bændurnir ekkert tjón beðið, en þjóðfélagið hefði grætt. En jafnvel þótt þetta tækist ekki, ættu bændurnir þann leik eftir að gera kröfu til, að útflutningsuppbótarskerðingin yrði bætt þeim upp með öðrum hætti.

Ég er þeirrar skoðunar, að verulegum hluta af þeim fjárhæðum, sem á undanförnum árum hefur verið varið úr ríkissjóði til þess að greiða útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur, hefði mátt verja á annan og miklu skynsamlegri veg í þágu bændastéttarinnar. Vissulega eru bændur verðlauna verðir að mínum dómi, ef þeir gætu sparað ríkinu verulegar fjárhæðir í greiðslu útflutningsuppbóta. Á meðan útflutningsuppbótarreglunum er ekki breytt, verður alltaf fyrir hendi rík tilhneiging til þess að framleiða svo mikið af landbúnaðarvörum, torseljanlegum á erlendum markaði, að hámarki útflutningsuppbóta verði náð, en af því leiðir svo hættuna á, að bændastéttin fari fram úr markinu og verði að bera tugmilljónahalla bótalaust á ári hverju, eins og reynslan hefur stundum sýnt.

Auk þeirra meginatriða, sem ég hef rakið hér að framan, eru í frv. fólgin nokkur nýmæli, sem stefna til endurbóta á verðskráningarkerfinu.

Samkvæmt 1. gr. frv. á að tilnefna varamenn í sjömannan. Þar sem n. hefur umfangsmiklu og mikilvægu hlutverki að gegna, tel ég nauðsyn á að koma í veg fyrir, að hún verði óvirk á stundum vegna forfalla eða fjarveru aðalmanns, og legg ég til í frv., að varamenn verið tilnefndir.

Þar sem verðlagstímabilið er nú 2 ár, tel ég eðlilegt, að sjömannan. verði tilnefnd til tveggja ára í senn, en sexmannan. er nú tilnefnd árlega. Þessi breyt. kemur fram í 1. gr. frv. Þá er í frv. lagt til, að tilnefningu ljúki fyrir 1. júlí, í staðinn fyrir 15. júlí, enda veitir ekki af, að mennirnir geti tekið tímanlega til starfa, þar sem verðlagsgrundvöllur þarf, ef vel á að vera, að liggja fyrir 1. september.

Í 2. málsgr. 4. gr. frv. eru settar fram reglur um það, á hvern hátt skuli leggja málið fyrir yfirnefnd. En þar segir, að fulltrúar framleiðenda og neytenda í sjömannan. skuli leggja ágreiningsefni sín skilmerkilega fyrir yfirnefnd. Þeir skuli setja kröfur sínar fram skriflega ásamt rökstuðningi, lýsa því, sem þeir eru sammála um, og því, sem á milli ber. Þessar reglur eru bornar fram til þess, að yfirn. megi öðlast sem gleggsta vitneskju um þau ágreiningsefni, sem hún á að skera úr um, og jafnframt til þess að koma í veg fyrir, að menn deili frammi fyrir yfirn. um kröfuliði, sem þeir voru sammála um innan sjömannan. Þá segir í lok þessarar málsgreinar, að yfirn. skuli kveða upp rökstuddan fullnaðarúrskurð eigi síðar en einum mánuði eftir, að ágreiningsefni er vísað til hennar. Ég tel nauðsynlegt að gefnu tilefni að mæla fyrir um tiltekinn hámarkstíma, sem yfirn. hefur til þess að fjalla um málið og kveða upp úrskurð. Einn mánuður atti að duga í því efni.

Í 7. gr. framleiðsluráðsl. segir, að taka skuli inn í búvörugrundvöllinn verðlagsbreytingar reksturskostnaðar samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Þarna vantar alveg ákvæði um, hvenær eða hversu oft þetta skuli gert, og hefur það valdið deilum. Í 3. gr. frv. legg ég til, að slíkar verðlagsbreytingar skuli taka inn á 6 mánaða fresti frá 1. sept. að telja, ef fulltrúar framleiðenda eða neytenda gera kröfur til þess.

Svo sem ég hef áður drepið á, gildir verðlagsgrundvöllur nú í 2 ár, og samkvæmt 7. gr. framleiðsluráðsl. framlengist hann um 2 ár í senn til viðbótar, ef honum er ekki sagt upp fyrir tilskilinn tíma. Þetta framlengingarákvæði tel ég ekki alls kostar heppilegt, því að þetta mundi í reynd þýða, að grundvellinum yrði jafnan sagt upp, þar sem bæði fulltrúar neytenda og bænda yrðu ófúsir til þess að framlengja tveggja ára gamlan grundvöll um önnur tvö ár til viðbótar. Af þessum sökum hef ég í 3. gr. frv. breytt reglunum á þá lund, að verðlagsgrundvöllurinn, sem í upphafi gildir í tvö ár, framlengist um eitt ár í senn, ef honum er ekki sagt upp. Þessa breyt. tel ég líklega til þess að draga úr áhuga bænda og neytenda á uppsögn. Þetta ákvæði er hliðstætt reglunni í l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en í þeim l. er svo fyrir mælt, að kjarasamningur eða kjaradómur gildi um tveggja ára skeið, en framlengist síðan um eitt ár, ef uppsagnarréttur er ekki notaður.

Í 5. gr. og 6. gr. frv. er lagt til, að í stað orðanna, „meiri hluti“, komi : nægur meiri hluti. Þetta er gert með hliðsjón af 3. málsgr. 1. gr. frv., en nægur meiri hluti er ekki fyrir hendi í sjömannan., þótt till. hljóti þar 4 atkv., ef allir 3 fulltrúar framleiðenda eða allir neytendafulltrúarnir greiða atkv. á móti henni.

Herra forseti. Hér að framan hef ég gert ákvæðum þessa frv. nokkur skil. Ég vænti þess, að frv. hljóti gaumgæfilega athugun í viðkomandi þingn. og aflað verði umsagnar um frv. hjá öllum þeim aðilum, sem hér eiga hagsmuna að gæta. Sýnist mönnum svo, að lokinni athugun, að rétt sé að gera breyt. á þessu frv., er ég fús til að skoða allt slíkt með velvilja, en ég hvarfla ekki frá þeim grundvallaratriðum annars vegar, að samstarf bænda og neytenda um verðskráningu búvöru haldi áfram og skipan þeirra mála verði bætt, og hins vegar að einhverjar skorður verði settar gegn ótakmörkuðum útflutningsuppbótum á einstökum vörutegundum innan landbúnaðarframleiðslunnar. Ég legg svo til, að frv. verði svo að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.