17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

38. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Það er ánægjulegt að ræða þessi málefni Alþfl. við þá tvo ágætu Alþýðuflokks-Jóna, sem eiga sæti í þessari hv. d., og við síðasta ræðumann, hv. 3. landsk., Jón Þorsteinsson, vil ég aðeins segja það, að ef af því verður, sem ég vona að verði öllu fremur eftir þessa ræðu hans, að ég gefi út pésann með hinum umtöluðu tilvitnunum, þá skal ég reyna að muna eftir að senda honum áritað eintak.

Hv. 5. landsk., Jóni Árm. Héðinssyni, virðist hafa sárnað eitthvað dálítið það, sem ég sagði um afstöðu hans í sambandi við öll þessi togaramál. En þegar leið á ræðu hans, gat ég ekki betur heyrt en að hann staðfesti algerlega þetta, sem ég var að halda fram hér áðan. Það hefur óneitanlega komið dálítið undarlega fyrir sjónir, að allar ræður þeirra hæstv. sjútvmrh. og þá alveg sérstaklega þessa hv. þm. um togaramálið, hafa beinzt að því fyrst og fremst að sýna fram á það, hversu gífurlegir erfiðleikar hafi verið og séu á útgerð togara, og í rauninni að sanna það, að það sé nánast ekki hægt og ekkert vit í því að gera út togara á þessu landi. Þetta ósamræmi — að vera þó að bera fram kaup á 6 skuttogurum og halda hinu fram, að það hafi ekki verið og sé nánast ekki neinn grundvöllur fyrir togaraútgerð — það er þetta, sem ég hef verið að víta.

Hv. þm. sagði hér áðan í fyrri ræðu sinni eitthvað á þá leið, að togaraútgerð hér í nálægum löndum, útgerð skuttogara, væri alls staðar rekin með bullandi tapi, og mér skilst, að hún væri alls staðar þjóðhagslega óhagkvæm. Hvers vegna hafa menn þá verið að fjölga þessum togurum? Ég ber ekkert á móti því, að togaraútgerð hefur gengið upp og ofan hér á landi. Það hefur verið þannig oft á tíðum að henni búið, og eins og ég sagði, hefur stjórnarfarið átt sinn ríka þátt í því fyrir utan aflabrögð, sem áraskipti og jafnvel tímabilaskipti eru að — það hefur verið þannig að þessari útgerð búið oft á tíðum, að hún hefur átt í erfiðleikum. Því neita ég ekki. En ég fullyrði, að hvernig sem útgerðin hefur komið út á pappírnum, þá hefur alltaf verið þjóðhagslegur hagur af togaraútgerð, frá því að hún var tekin upp hér á landi. En það kann að vera, að það, sem hv. þm. hafi sárnað í þeim orðum, sem ég sagði hér áðan sé það, að ég lét í það skína, sem ég taldi mig hafa fulla heimild til eftir orðum hans bæði fyrr og síðar um þessi mál, að hann væri nánast andvígur þessari endurnýjun togaraútgerðar, a. m. k. í eins stórum stíl og ríkisstj. hefur nú lagt til, þ. e. a. s. þessi ósköp, að kaupa sex skuttogara. Hann er alltaf að tala um alls konar vandræði í sambandi við það. Og ef til vill hefur honum sárnað, þegar ég benti á þetta, vegna þess að ég veit, að meðal togaramanna er sá skilningur lagður í málflutning hans hér á Alþ. og þá alveg sérstaklega ræður hans hér á dögunum, að það sé hans keppikefli, að hér verði einungis smábátar. Þeir tala jafnvel um, að hann sé orðinn talsmaður þess, að farið verði að taka upp árabátafyrirkomulagið gamla.