10.11.1969
Neðri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

54. mál, læknalög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég vil með nokkrum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv., en þar er lagt til, að sú forsenda sé ófrávíkjanleg fyrir ótakmörkuðu lækningaleyfi, að þeir, er fá það, hafi gegnt læknishéraði eða aðstoðarlæknisstarfi hjá héraðslækni í 6 mánuði. Það er vissulega tímabært, að þetta komi inn í lög, eins og gert er hér ráð fyrir, og vona ég, að þetta verði samþ. hér á hv. Alþ. Tveir hv. þm. úr Norðurl. e. og Austurl. hafa lýst ástandinu í heilbrigðismálum þessara tveggja kjördæma, og ég sé ástæðu til að rifja hér ofurlítið upp ástand og horfur í heilbrigðismálum í Norðurl. v. og þá sérstaklega í Skagafirði.

Þann 1. september s. l. sagði héraðslæknirinn á Hofsósi upp starfi. Hann hafði gegnt því um allmörg ár með prýði. Hann var skagfirzkrar ættar og hafa tengslin við Skagafjörð sjálfsagt dregið hann nokkuð föðurtúna til, en nú bauðst honum betra hérað, Borgarfjarðarhérað, og hann flutti þangað þann 1. september. Síðan hefur Hofsós og Austur-Skagafjörður verið læknislaus. Á þessu svæði búa nú 1100 manns og háttar þannig til, að þeir, sem þurfa að leita læknis, þurfa að fara annað hvort til Siglufjarðar eða Sauðárkróks. Að fara til Siglufjarðar er sæmilegt, þegar Strákagöng eru fær og vegurinn að þeim, en því miður er það ekki alltaf og nú, þegar þetta er talað, er vegurinn búinn að vera lokaður nokkra daga. Það má segja, að hægt sé að fara til Sauðárkróks. Oftast eru opnir vegir frá Austur-Skagafirði til Sauðárkróks. Þó er það ekki alltaf. Og þessum málum er nú þannig háttað, að ef Austur-Skagfirðingar þurfa á lækni að halda, þá er haft símasamband við lækni á þessum tveimur stöðum, sem ég nefndi. Ef það er ekki um stærri tilfelli að ræða, eru símaðir lyfseðlar annað hvort til Siglufjarðar eða Sauðárkróks, en þá þarf viðkomandi heimili, sem lyfin þarf að nota, að senda bifreiðir á þessa staði, ef ekki er hægt að koma því við að nota áætlunarferðir, sem ekki er alltaf. Þessu fylgir mikill kostnaður fyrir heimilin. Það sjá allir, að þetta er mjög óhagstætt. Þá hefur verið lýst yfir óánægju í Austur-Skagafirði yfir því, að nætursamband skuli ekki vera milli Landsímans á Hofsósi við símann á Sauðárkróki. Ég sé ekki ástæðu til að koma með þáltill. um, að úr þessu verði bætt, þar sem hæstv. heilbrmrh. er viðstaddur umræður þessar, en ég treysti því, að hann athugi þetta mál og hlutist til um, að úr þessu verði bætt, ekki aðeins í Austur-Skagafirði, heldur þar sem svo háttar til, að læknislaust er í héruðum, en væri þó nokkur bragarbót á því að hafa opið nætursamband.

Það er talandi tákn um ástandið í heilbrigðismálum, að á Hofsósi er ágætur læknisbústaður. Skagafjörður er dásemdarhérað og Hofsós vel í sveit settur. En engu að síður er útilokað í dag að fá þangað héraðslækni. Hér er ekki um afdalabyggðir að ræða. Þá skal geta þess, að læknirinn hefur leyfi til lyfjasölu, en það þýðir auknar tekjur. En allt ber að sama brunni. Það er útilokað að fá þangað lækni. Þá vil ég minna á, að fyrir nokkru var auglýst laus til umsóknar læknisstaða við sjúkrahúsið á Sauðárkróki eða fyrirhugaða læknamiðstöð, sem þar á að koma upp. Mér er ekki kunnugt, að nokkur læknir hafi sótt um þá stöðu. Þó er þarna um að ræða prýðilegan kaupstað, sem er í örum vexti. Þar eru miklir tekjumöguleikar, en það er eins og að tala fyrir daufum eyrum að óska eftir því, að læknir flytji í þessa ágætu byggð. Ástandið í þessum málum er vissulega alvarlegt, þó að það sé e. t. v. í mörgum kjördæmum verra heldur en í Norðurl. v., þar sem sjúkrahús er á Hvammstanga, prýðilegt héraðssjúkrahús á Blönduósi og hið myndarlegasta héraðssjúkrahús á Sauðárkróki.

Ég er eindreginn stuðningsmaður þessa frv. og vona, að það verði samþ.