17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

182. mál, útvarpslög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hætta mér langt út í umr. í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., enda hefur ekki verið mikill tími til þess að setja sig inn í málið, þar sem því var útbýtt hér í gær. Ég vil segja það í sambandi við undirbúning þessa frv., að ég efast ekkert um það, að þeir menn, sem þar hafa unnið að, hafi unnið sitt verk vel, en takmarkaður hópur manna er það, þar sem í þriggja manna n. er útvarpsstjóri og formaður útvarpsráðs, sem eru nánustu forsvarsmenn stofnunarinnar og þriðji maðurinn mjög mætur fyrrv. hæstaréttardómari. En valdsvið eða hugsanasvið þessara manna er þar af leiðandi ekki mikið. Ég hefði talið, að það hefði verið heppilegra, að sjónarmið fleiri manna hefðu komið þar að heldur en þarna hefur átt sér stað.

Það, sem mig langaði til að víkja að, er í sambandi við fjármál ríkisútvarpsins, sem ég ætla ekki að fara langt út í að þessu sinni, en aðeins lýsa mínu viðhorfi til þess. Það hefur verið nokkuð uppi umr. um það, hvort afla eigi tekna til ríkisútvarpsins með nefskatti eða á þann hátt, sem gert hefur verið. Þetta mál hefur verið, að ég held, nokkuð athugað, þó að ég hafi a. m. k. ekki hér neinar heildarniðurstöður í því. Hins vegar er mér það ljóst, að útvarpsmenn eru á móti því að taka upp nefskatt og láta almenna innheimtu ríkisins hafa á hendi innheimtu á tekjustofni þess. En ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst það orka mjög tvímælis, hvort á að fylgja því formi, sem nú er fylgt í sambandi við innheimtu á útvarpsgjöldum. Mér finnst það t. d. eðlilegt, að þegar ég er búinn að greiða afnotagjöld fyrir útvarp, þá megi ég hlusta á það, hvort sem það er heima á mínu heimili eða úti í bíl mínum. Ég álít, að ég eigi ekki að greiða sérstakt gjald fyrir það, þó að ég geti ekki notið þess að hlusta á útvarpið heima í minni stofu, vegna þess að ég þarf að vera á ferðalagi. Það er ekki réttmætt, þó að útvarpið hafi komizt upp með það og haldi enn þá þeirri reglu, að láta sama aðilann greiða gjöld mörgum sinnum, af því að hann hefur ekki aðstöðu til þess að hlusta á útvarpið á sínu heimili. Sama er að segja um bátinn eða beitingarskúrinn. Ef þetta er sá aðili, sem greiddi gjaldið heima, þá á hann að njóta þess að fá að hlýða á útvarpið, þó að hann verði að hreyfa sig til. Ég er því ekki búinn að tileinka mér þá skoðun, að það sé réttmætt nú, þegar við förum að endurskoða þessa löggjöf, að fylgja þessari sömu reglu þar um, sem við höfum áður gert og sætt hefur verulegri og réttmætri gagnrýni. Ég er heldur ekki búinn að átta mig á því, en skal viðurkenna það, að ég hef haft mjög lítinn tíma til þess að setja mig inn í málið, að innheimtustjóri eigi að hafa lögtaksvald. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkisútvarpið geti beðið um lögtaksúrskurð vegna innheimtunnar hjá þeim, sem með þann rétt fara, en þurfi ekki að löggilda þá sjálfa til þess að framkvæma þetta og gera það með því, að þegar mánuður er liðinn frá gjalddaga, þá geti þeir heima í sinni stofnun úrskurðað lögtak hjá öllum útvarpsnotendum, án þess að hafa um það meiri háttar framkvæmd. Ég fæ ekki skilið, af hverju það er ekki hægt að snúa sér til sýslumanna og bæjarfógeta á viðkomandi stöðum til að fá þessa lögtaksúrskurði.

Ég verð því að segja það, að ég mundi a. m. k. vilja kynna mér þennan kafla um fjármál ríkisútvarpsins betur, áður en ég get fallizt á réttmæti hans. Ég harma það í raun og veru, að þegar þessi löggjöf er endurskoðuð, þá skuli vera tekið svo einhliða sjónarmið ríkisútvarpsins, eins og hér er gert, og þykist sjá að það sé vegna þess, hvernig athugunin er framkvæmd, og hvað sá hringur er þröngur, sem þar er fylgt.

Ég skal svo ekki við þessa umr. segja um þetta fleiri orð. En ég vil endurtaka það, að ég tel, að það sé réttmætt að taka til athugunar þær mörgu óskir og mörgu kröfur, sem hafa komið fram um það að breyta innheimtuaðferð ríkisútvarpsins og m. a. að vera ekki að innheimta frá sama aðila útvarpsgjald oft og mörgum sinnum, þó að hann verði vegna starfs síns eða af öðrum ástæðum að hreyfa sig frá sínu heimili.