17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

182. mál, útvarpslög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Aths. hv. 3. þm. Vesturl. eru flestar um mál, sem eru kunn og hafa verið rædd lengi. Ég skal taka undir það með honum, að ég vænti þess, að þetta mál fái það ítarlega meðferð hér á þingi, að þm. geti, áður en yfir lýkur, verið ánægðir með það, að þeir hafi fengið nógan tíma til þess að íhuga það vandlega.

Það má sjálfsagt deila um, hvort á að hafa fámennar eða fjölmennar nefndir, sem semja lagafrv. Í þessu tilfelli var valin n., sem ekki var fjölmenn, en hafði þó allmikla reynslu af þessum málum.

Út af þremur einstökum atriðum, sem hv. þm. nefndi, vil ég aðeins segja örfá orð á þessu stigi. Deilan um það, hvort gera eigi útvarpsgjaldið að nefskatti, hefur staðið í mörg ár, og það hafa verið skipaðar margar nefndir, sem hafa farið ítarlega ofan í þetta mál. Í þeim n. hafa ekki eingöngu verið menn frá ríkisútvarpinu sem stofnun, heldur hygg ég, að meiri hl. þeirra, sem um hafa fjallað, hafi verið utan útvarpsins. Niðurstaðan hefur alltaf orðið sú, að vankantar á því að gera útvarpsgjaldið að nefskatti, hafa reynzt vera svo miklir, að menn hafa horfið frá því við nánari athugun og íhugun. Ég vil nefna það sem dæmi, að verði hljóðvarpsgjald í bílum fellt niður, þá falla niður milli 12 og 15 þús. afnotagjöld. Ríkisútvarpið er eins og ríkissjóður, sem hv. þm. þekkir mjög vel, og verður að fá nokkurn veginn fyrir vissum útgjöldum. Það yrði því að innheimta þessi gjöld af öðrum. Nú er það svo,að ef gjaldið ætti að verða nefskattur, mundi það geta komið mjög þungt niður á þeim fjölskyldum, þar sem er margt fullorðið fólk, t. d. fleira fólk á þeim aldri, sem borgar tryggingagjald, sem oft er nú við miðað, heldur en hjón. Það getur því farið svo, að bíleigendur losnuðu við að borga sérstakt útvarpsgjald, en að öllum líkindum yrði það yngsta fólkið, skólanemendur og aðrir, sem eru að byrja að vinna, sem búa á öðrum heimilum en sínum eigin, oftast nær foreldraheimilum, og á hinn bóginn eldra fólkið, sem yrði fyrir barðinu á þessu. Og þessi tilfærsla á gjöldum frá bílaeigendum, sem eru nú yfirleitt fjárhagslega stæðustu borgarar í landinu, til annarra óvissra, er mjög vafasöm frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Eins er það, að heimili, sem hafa fleira fólk á aldrinum yfir 16 ára, gætu farið mjög illa út úr þessari breytingu og fengið margfalt útvarpsgjald til greiðslu. Þetta eru þau atriði, sem hafa hrætt margar nefndir frá því að taka upp þessa breytingu.

Hins vegar vil ég benda hv. þm. á það, sem hann mun taka eftir, þegar honum gefst tóm til að skoða frv. betur, að í 15. gr. þess er heimild til þess, að með reglugerð megi sameina hljóðvarps- og sjónvarpsgjald í eitt gjald. Þetta þýðir að vísu ekki, að það verði gert að nefgjaldi, en þetta skapar möguleika til þess að gera þessi gjöld einfaldari í meðförum og halda þeim niðri, eins og hægt er.

Það kann að koma mönnum spánskt fyrir sjónir að hafa innheimtustjóra útvarpsins löglærðan mann og láta hann fá fógetavald á takmörkuðu sviði. Nú er talað um, að við lifum á tímum hagræðingar, viljum spara skrifstofustarfsemi og ýmislegt annað. Hér er um að ræða innheimtu á 50–60 þús. hljóðvarpsgjöldum og 35 þús. sjónvarpsgjöldum. Gæti farið svo, að í reynd væri verið að spara mjög mikla vinnu, enda er þetta ekki nýtt, því að menn hafa komið auga á þennan möguleika fyrir alllöngu, og núv. innheimtustjóri útvarpsins, sem er lögfræðingur, hefur fengið löggildingu samkv. 33. gr. l. nr. 85 1936 sem fulltrúi við embætti borgarfógeta í Reykjavík, bæjarfógeta í Kópavogskaupstað, bæjarfógeta Hafnarfjarðar, sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Keflavík. Hefur hann samkv. því heimild til að framkvæma lögtök fyrir afnotagjöldunum í þessum lögsagnarumdæmum. Þetta ákvæði er sem sagt komið til framkvæmda samkv. gildandi l. á svæðum, þar sem liðlega helmingur þjóðarinnar býr, og er því ekki um eins mikið nýmæli að ræða og ætla mætti við fyrstu sýn.