17.11.1969
Neðri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

77. mál, Útgerðarstofnun ríkisins til atvinnujöfnunar

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til umr., var lagt fyrir síðasta þing af formanni Alþb., Ragnari Arnalds. Hann mælti þá fyrir málinu í þessari hv. d., en síðan fór það til n., og fara ekki frekari sögur af því. Þannig vill verða um býsna mörg mál, sem hér er fjallað um, að þótt þau séu lögð fram snemma á þingtímanum, þá vilja þau mörg tefjast svo í n., að þau koma aldrei til endanlegrar afgreiðslu. Ég tel, að allt of mikil brögð séu að þessu og hæstv. forsetar Alþ. þyrftu að gefa þessu máli meiri gaum en gert hefur verið. Hins vegar er það mjög mikill misskilningur, að hægt sé að salta mál með því að svæfa þau í n. Ef mál fjalla um einhverja góða hugmynd, þá heldur hugmyndin áfram að lifa engu að síður, og það hefur sannazt á þessu máli. T. d. gerðust þau tíðindi hér fyrir nokkru á þingi, að allmargir hv. þm. Framsfl. fluttu í Ed. frv. um hliðstætt efni: Frv. til l. um Togaraútgerð ríkisins og stuðning við útgerð sveitarfélaga. Í þessu frv. var tekin upp hugmyndin úr frv. því, sem flutt var á vegum Alþb. í fyrra og sumir þættir raktir býsna nákvæmlega. Ég er ekki að nefna þetta, vegna þess að ég telji, að Framsfl. hafi þarna verið að hirða af okkur mál, eins og stundum er komizt að orði hér í þingsölunum, þegar hv. alþm. eru að bera hvor á annan, að þeir hafi stolið frá sér málum. Ég sá raunar í einu stjórnarblaðinu um daginn fyrirsögn, sem hljóðaði á þessa leið: Þingmaður stelur. Og þegar ég fór að gá, hvað þarna væri um að ræða, þá kom í ljós, að einn af þm. þessarar d., hv. þm. Jón Skaftason, hafði leyft sér að flytja till. um aukinn stuðning við vísindastarfsemi í landinu, og blaðið taldi, að þetta væri algerlega óheimilt, vegna þess að um þetta mál hefði verið fjallað á landsfundi Sjálfstfl. Afstaða af þessu tagi er auðvitað algerlega fráleit, og ég vil hér lýsa sérstakri ánægju með þann stuðning, sem Framsfl. hefur veitt þessari hugmynd með flutningi sínum á frv. í Ed.

Mér virðist sá stuðningur vera svo mikilvægur, að það eigi að vera nokkuð augljóst, að hér á þingi ætti að vera meiri hl. við þessa hugmynd, ef Alþfl. heldur við yfirlýsta stefnu sína í þessu máli. Þetta er hugmynd, sem Alþfl. hefur ákaflega oft hreyft, og það hefur einmitt verið rifjað upp í sambandi við frv. framsóknarmanna, að 1937 var þetta ákaflega mikið ágreiningsmál milli Framsfl. og Alþfl. Framsfl. hefur skipt um skoðun í málinu vegna breyttra þjóðfélagshátta m. a., og því tel ég, að nú eigi að vera mjög góðir möguleikar til þess að fylgja þessu máli eftir. Raunar er Sjálfstfl. ekki andvígur því, eftir því sem hann segir sjálfur, að ríkisvaldið beiti áhrifum sínum til þess að auka togaraútgerð á Íslandi, en það mál er að sjálfsögðu nátengt þessu frv. Í áliti sjútvn. 18. landsfundar Sjálfstfl. er fjallað um, hvað gera þurfi til þess að efla sjávarútveg á Íslandi. Þar er talað um, að æskilegt sé að takmarka ríkisforsjá, eins og gera mátti ráð fyrir, en síðan segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Nefndin telur þó, að eins og nú standa sakir, sé nauðsynlegt að unnið sé skipulega að endurnýjun fiskiskipastólsins, en þess beri þó að gæta, að hún sé fyrst og fremst miðuð við þarfir atvinnuvegarins sjálfs og verði stöðug og jöfn. Enn fremur er ljóst, að eins og nú er komið, er óhjákvæmilegt, að ríkisvaldið leggi verulega mikið af mörkum til endurnýjunar togaraflotanum, sem er ómissandi þáttur í atvinnulífi landsmanna.“

Það er þannig einnig stefna Sjálfstfl., að ríkisvaldið verði að leggja verulega mikið af mörkum til þess að efla togaraútgerð á Íslandi. Og þegar afstaða flokkanna er eins einróma og fram kemur í þessu, þótt einnig sé vissulega um ágreiningsefni að ræða, þá er engu að síður allsherjar stuðningur við það, að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að efla togaraútgerð á Íslandi, svo mikilvægur, að eitthvað ætti undan að láta.

Þetta mál, togaraútgerðin, er mikið stórmál, eins og allir vita. Alþb. hefur undanfarinn áratug flutt till. árlega á þingi um opinberar ráðstafanir til þess að endurnýja togaraflotann á Íslandi. Eitt slíkt frv. liggur nú þegar fyrir Ed., frv., sem hv. þm., Gils Guðmundsson og Karl Guðjónsson, flytja um forystu ríkisins fyrir því að kaupa 15 togara, sem síðan verði seldir útgerðaraðilum. Allir hv. alþm. vita, hver þróun hefur orðið í togaramálum. Fyrir áratug, þegar núv. hv. ríkisstj. tók til starfa, voru togararnir í landinu 48, en nú eru þeir aðeins um 20. Meðalaldur þessara togara, sem eftir eru, er 18 ár, og yngstu togararnir eru 9 ára gamlir. Og allir vita, að þessi skip samsvara ekki lengur þeim kröfum, sem til togara eru gerðar. Ástandið í þessu efni er einna alvarlegast á Reykjavíkursvæðinu. Hér hefur togurum fækkað um 10 á síðustu 5 árum. Og í Hafnarfirði hefur þeim fækkað úr 10 í 3 á sama tíma, auk þess sem vélbátum í Hafnarfirði hefur fækkað um 2/3 á síðustu 12 árum. Af þessu hefur það að sjálfsögðu leitt, að togaraaflinn hefur orðið æ minni hluti af aflafeng landsmanna. Árið 1959 var togaraaflinn 41% af heildaraflamagninu, en á síðasta ári var þetta magn dottið niður í tæplega 21%, og í Reykjavík var þessi samdráttur að sjálfsögðu mun meiri. Af afla þeim, sem var hagnýttur í Reykjavík 1959, voru 78% togarafiskur, en í fyrra 34%, og þetta hefur leitt til þess, að afköst frystihúsa hafa minnkað til mikilla muna.

Á áratugnum 1959–1968 var um að ræða fækkun mannafla í frystihúsunum í Reykjavík um 200–300 ársmenn, enda þótt heildarfjölgun fólks væri á sama tíma 14–12 þús. manns á því svæði, sem frystihúsin sækja vinnuafl sitt til. Þetta er ákaflega alvarlegt ástand, og hverjar hafa verið afsakanir stjórnarvalda, þegar um þetta hefur verið rætt á undanförnum árum? Þær afsakanir hafa verið á þá leið, að framtak einstaklingsins hafi ekki viljað leysa þennan vanda. Það hafi engir einstaklingar verið til, sem vildu kaupa togara. Það var engin eftirspurn eftir togurum, segja menn. Og þó menn viðurkenni, að Íslendingar þurfi togaraflota, þá er þetta notað sem afsökun, að engir einkaaðilar hafi haft bolmagn eða vilja til að kaupa togara. En þetta er ekkert ný reynsla hér á landi. Þessa reynslu hafa menn haft áratugum saman. Hvernig var ástandið í lok síðustu heimsstyrjaldar, þegar þjóðin öll var sammála um það, að endurnýja þyrfti togaraflotann, og þegar mynduð var sérstök ríkisstj. til þess að tryggja nýsköpun atvinnulífsins? Þá kom í ljós, að einkaaðilar höfðu hvorki getu né vilja til að taka þetta verkefni að sér. Þá gerðist það, að ríkisstj. ákvað, að Íslendingar skyldu kaupa 32 togara. Og hæstv. ríkisstj. samdi um kaup á þessum togurum. Síðan bauð hún þá fala til útgerðar, og þegar í ljós kom, að einkaaðilar voru ekki reiðubúnir til þess að taka þetta verkefni að sér nema tiltölulega fáir, þá var gripið til þess ráðs að stofna bæjarútgerðir víða um land til þess að tryggja það, að þessir togarar væru gerðir út.

En á þessum áratug, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að störfum, þá hefur verið um að ræða raunverulega andstöðu gegn togaraútgerð innan ríkisstj. Þessi andstaða hefur að vísu oft verið falin bak við hræsnisfull orð, en engum þeim, sem fylgzt hefur með, hefur getað dulizt það, að hæstv. ráðh. og valdamenn stjórnarflokkanna voru andvígir því, að togaraflotinn yrði endurnýjaður. Þeir höfðu ekki trú á þessum atvinnuvegi. Og einmitt þess vegna voru frv. okkar Alþýðubandalagsmanna söltuð á hverju þingi. Það var ekki fyrr en nokkru fyrir kosningar 1967, að stjórnarflokkunum vitraðist sú staðreynd, að staða þeirra í almenningsálitinu var orðin ákaflega veik af þessum ástæðum. Og þá var gripið til þess ráðs, sem er alkunnugt, að skipuð var skuttogaranefnd, og þegar rætt var um togaramálin fyrir kosningarnar, þá vísuðu stjórnarflokkarnir ævinlega til þessarar nefndar.

Þarna er málið, þarna sjá menn áhuga ríkisstj., það er búið að gera það, sem hægt er að gera, til þess að tryggja það, að nú verði ráðizt í endurnýjun flotans.“ En það dofnaði heldur betur yfir n., um leið og kosningum lauk, og ríkisstj. hélt meiri hl. sínum. Þessi n. hefur starfað ákaflega slælega. Afköst hennar eru mjög lítil, og hún er í rauninni engan veginn búinn að skila því verki, sem hún átti að vinna. Að vísu er búið að gera bráðabirgðateikningar af sérstakri gerð af togara, en þessar teikningar eru engan veginn fullkomnar. Það vantar t. d. mikinn fjölda vinnuteikninga, sem þyrfti að hafa, ef ætti að bjóða þetta verkefni út raunverulega. Síðan hefur verið spurzt fyrir hjá skipasmíðastöðvum, fyrst og fremst erlendis, um það, hvort þær gætu tekið að sér að vinna þetta verk fyrir Íslendinga. Það hafa borizt svör frá allmörgum aðilum, en þau hafa verið býsna mikið á reiki, vegna þess að hér var ekki um raunverulegt útboð að ræða, vegna þess að þær upplýsingar, sem fyrir lágu hjá n., voru of takmarkaðar til þess að hægt væri að svara þeim. Og þess vegna liggur þetta mál enn þá og veltist hjá hæstv. ríkisstj.

Samt hygg ég, að vissar vonir séu um það, að eitthvað geti gerzt í þessu máli á næstunni. Ástæðan er sú, að það eru nýjar kosningar framundan á Íslandi, sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Sumir staðir, a. m. k. höfuðborgin, eru þannig á sig komnir, að ég hygg, að stjórnarvöldunum finnist ekki fýsilegt að eiga að mæta kjósendum án þess að geta bent á eitthvað, sem fyrirhugað sé eða meira en fyrirhugað, í togaramálunum. En raunar hefði mér fundizt, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að greina okkur alþm. frá því, hverjar fyrirætlanir hennar eru, hvort það standi í raun og veru til að semja um smíði einhverra togara núna á næstu mánuðum. Mér virðist það aðeins vera hæstv. utanrrh., sem heyrir mál mitt, en þar er ekki í kot vísað, hann var lengi sjútvmrh. og ber mjög verulega ábyrgð á þróun togaraútgerðar á þessu tímabili. Vera má, að hæstv. utanrrh. mundi vilja svara þessari spurningu minni um það, hverjar séu fyrirætlanir ríkisstj. um aðgerðir til þess að tryggja nýja togara á næstunni.

Ég hef minnzt á þessi mál vegna þess að þetta frv. okkar um Útgerðarstofnun ríkisins til alvinnujöfnunar er að sjálfsögðu nátengt þeirri nauðsyn að auka og efla togaraútgerð á landinu. En annar meginþáttur frv. er aðgerðir til þess að tryggja aukið atvinnuöryggi á Íslandi. Allir vita, hversu mjög atvinna á Íslandi er háð því, að fiskiskip okkar, togarar og bátar, leggi afla sinn upp hér heima. Raunar blasir við okkur dæmi um þetta ástand einmitt núna þessa dagana. Undanfarnar vikur hefur verið svo ástatt, að ekki aðeins hafa allir togarar okkar siglt með aflann, heldur og svo til allir stærri bátar, þeir, sem ekki hafa stundað síldveiðar hér á miðum nær landi. Þetta ástand hefur leitt til þess, að atvinnuleysi hefur magnazt mjög mikið að undanförnu. Hér í Reykjavík er ekkert að gera í frystihúsum, þegar undan er skilin vinna við síld, og á sumum stöðum úti á landi má heita algert atvinnuleysi af þessum ástæðum. Þannig er t. d. orðið svo víðtækt atvinnuleysi á Siglufirði, að það er ekki hægt að kalla það annað en neyðarástand, og sömu sögu er að segja frá ýmsum smærri byggðarlögum, sem eru háð því, að þar sé lagður afli á land.

Í þessu sambandi er vert að minnast á það, að það er mjög alvarleg staðreynd, hversu það hefur aukizt einmitt á þessum áratug, að afli okkar hafi verið fluttur beint til útlanda, en ekki fullunninn hér heima. Á þessu sviði hefur verið um afturför að ræða. Við gerum meira af því en áður að flytja afla okkar utan sem hráefni handa öðrum í stað þess að vinna úr honum sem mest verðmæti heima fyrir. T. d. hefur ísfiskur, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, áttfaldazt að magni á árabilinu 1959–1968. Magnið, sem flutt var utan óunnið í fyrra, var átta sinnum meira en það var, áður en núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Fyrir þessu eru að sjálfsögðu margar ástæður. T. d. núna er augljós ástæða munurinn á verðlagi hér heima og erlendis. Togarar og bátar fá þrisvar til fjórum sinnum hærra verð erlendis en heima. Nú segir þetta að sjálfsögðu ekki alla sögu um afkomuna, því að þarna koma á móti tollar og mjög hár löndunarkostnaður og ýmis slík atriði, en engu að síður er það ljóst, að hér er um mjög óeðlilegan mun á verði að ræða. Það hefur lengi verið ljóst, að verðlagningarkerfi okkar á fiski hefur verið óeðlilegt og öðruvísi en tíðkast hér í nágrannalöndum okkar, og þar er áreiðanlega atriði, sem nauðsynlegt væri að breyta, því að okkur er það meginnauðsyn að tryggja það, að sem hæst verð fáist fyrir það hráefni, sem sjómenn okkar afla, og hæsta verðið fáum við með því að reyna að fullvinna aflann hérna heima.

Úr þessu almenna ástandi, sem ég var að tala um og blasir við hvarvetna á landinu vegna siglinga togara og báta, verður að sjálfsögðu ekki bætt eingöngu með aðgerðum eins og þeim, sem felast í frv. okkar hv. þm., Eðvarðs Sigurðssonar. Þessu frv. er hins vegar ætlað að koma á kerfi til þess að bæta úr öðrum vandkvæðum, sem allir kannast við. Jafnvel þótt ekki sé lagður upp afli erlendis, sem neinu nemur, þá hefur það verið algengt á undanförnum árum, að atvinnuleysi verði á vissum stöðum, vegna þess að hráefni hefur skort. Þar getur verið um að ræða staðbundinn aflaskort á miðum í námunda við þessa staði eða of lítinn bátakost um tiltekinn tíma. Til þess að tryggja sem samfelldasta hráefnisvinnslu alls staðar, þar sem hægt er að koma henni við, þá verður að vera hreyfanleiki í hráefnisöflun. Þess vegna er óhjákvæmileg nauðsyn, að hér á landi sé starfrækt sérstakt fyrirtæki, sem stundi útgerð í samræmi við heildarsjónarmið, einmitt í þágu staða, sem skortir hráefni og þar sem fólk gengur um atvinnulaust af þeim sökum. Dæmi um þetta ástand, sem margir kannast við, hygg ég, eru verstöðvarnar við Breiðafjörð, ekki sízt verstöðvarnar á norðanverðu Snæfellsnesi. Þar má segja, að þrjár vertíðir hafi brugðizt ein af annarri. Og ég vil spyrja: Hvað halda menn að gerist, ef þarna bregzt ein vertíð í viðbót? Ég óttast það mjög, að af því muni það hljótast, að fólk haldist ekki lengur við á þessum stöðum. Ef fólk getur ekki haft sómasamlegt viðurværi, þá hlýtur að líða að því, að það flyzt í brott, og það er einmitt vandamál af þessu tagi, sem við verðum að finna leiðir til þess að leysa. Og þetta frv. er fram borið sem hugmynd í því sambandi.

Við vitum allir, að hér á landi er mikið af frystihúsum og þau eru mörg vel búin að vélum. En oft er ekki að því gáð, hversu mikilvægt þjóðhagslegt atriði það er, að þessi frystihús og þessar vélar séu nýtt eins og vera þarf. Nýting sumra þessara framleiðslutækja er ákaflega léleg. Hún getur komizt niður fyrir 10% á sumum stöðum. Og það er algerlega fráleitt, að hægt sé að reka fyrirtæki á skynsamlegan hátt með þessu móti. Það verður að tryggja það, að samhengi sé á milli fiskvinnslustöðvanna og hráefnisöflunarinnar, og það verður ekki gert með neinu öðru móti en því, að til sé í landinu einhver hráefnisaflandi, sem ekki hugsar eingöngu um tiltekinn stað, heldur leysir þau vandamál, sem upp koma hverju sinni. Ég geri mér fyllilega ljóst, að í þessu sambandi munu koma upp mörg vandamál. Það er t. d. augljóst, að það getur hlotizt af því verulegur aukakostnaður að flytja afla lengra en á næstu verstöð. En þetta höfum við Íslendingar gert á ýmsum sviðum. Við höfum t. d. flutt síldina á þennan hátt. Og þetta verður að leysa með einhverjum sameiginlegum sjóði, sem bætir upp þennan kostnað. En ef menn athuga þetta mál á félagslegan hátt út frá hinni sameiginlegu nauðsyn, þá á að vera bægt að leysa þetta mál.

Ég vil sérstaklega benda á það í sambandi við þetta frv., að í því er ekki fólgin deila um rekstrarform togaraútgerðar á Íslandi. Þetta er ekki frv. um það, að ríkisútgerð eigi að koma í stað einkaútgerðar hér á landi. Mér þykir rétt að benda á þetta vegna þess, að einn af hv. alþm., Matthías Bjarnason, virtist ímynda sér það í útvarpsþætti á dögunum, að þessi frv. okkar og hv. framsóknarmanna væru frv. um allsherjarþjóðnýtingu á togaraútgerð á Íslandi. Þetta er alger misskilningur. Þetta frv. er ekki um neitt slíkt. Það er atriði, sem hægt er að ræða út af fyrir sig, en þetta frv. fjallar um annað. Þetta frv. hefur þann tilgang, eins og ég sagði áðan, að tryggja afla til þeirra staða, sem ekki fá hann vegna aflabrests á heimamiðum eða vegna þess, að báta skortir. Ég hygg, að þetta verkefni verði ekki leyst af neinum einkaaðila. Verkefni af þessu tagi verða einvörðungu leyst fyrir tilstilli ríkisvaldsins. Ef við komum ekki upp svona stofnun á vegum ríkisins, þá gerir enginn það. Og ef menn viðurkenna, að þarna sé um að ræða vandamál, þá hljóta þeir einnig við umhugsun að viðurkenna, að þetta vandamál getur enginn leyst nema hin samfélagslega heild. Um það fjallar þetta frv.

Ég vil vekja athygli á því, að í frv. er m. a. eitt dálítið fróðlegt nýmæli, sem hv. framsóknarmenn hafa raunar tekið upp einnig í sínu frv., um það, að í útgerðarstjórn skuli tveir menn tilnefndir af áhöfnum skipanna og öðru starfsliði stofnunarinnar. Ég tel þetta vera mjög mikilvægt atriði, ekki einvörðungu í sambandi við þessa stofnun, sem þarna er gerð tillaga um, heldur einnig í sambandi við ýmsar aðrar ríkisstofnanir á Íslandi. Það er vissulega rétt, að í því er fólgin áhætta, þegar stofnuð eru ríkisfyrirtæki, sem fá mikil völd. Þess vegna verður að gera ráðstafanir til þess að auka raunverulegt lýðræði innan slíkra stofnana og lifandi þátttöku þeirra manna, sem að fyrirtækinu starfa, í stjórn þess. Þess vegna tel ég þessa hugmynd vera mjög veigamikla í sambandi við þetta mál og í sambandi við önnur ríkisfyrirtæki, eins og ég gat um áðan.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.