06.04.1970
Neðri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

155. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil benda á það, að í þessum svörum Fiskveiðasjóðs er ekki eitt einasta atriði vefengt af því, sem ég hef sagt, og engin afsökun. Það er bara sagt alveg réttilega: Það var lánað til Sigurbjargar á tímabilinu, þegar lánin voru veitt með gengisákvæðum, en það var lánað til Eldborgarinnar einmitt á þeim tíma, sem ég hef sagt, að það hafi verið lánað án gengisákvæða, þannig að það er ekkert nema staðfesting á því, sem ég sagði, sem hæstv. ráðh. las hérna upp.