28.04.1970
Efri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

233. mál, lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við ummæli hv. 1. þm. Norðurl. v. um n., er starfað hefur að samningu löggjafar um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, vil ég aðeins segja það, að sú n. hefur starfað mikið, — það er rétt hjá honum, — og ég hygg, að hún hafi að mestu leyti lokið störfum sínum, en það starf var byggt á nokkuð öðru viðhorfi, eins og hann líka kom inn á í ræðu sinni, að þá var ekki gert ráð fyrir því, að svo stór hluti þjóðarinnar hefði fengið lífeyrissjóð með öðrum hætti, þannig að það mál er allt flóknara í framkvæmd. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin, að það starfi áfram tvær n. að athugun þess máls, sem ég gat um, þannig að hin eldri n. mundi þá að sinni, a.m.k. þar til að það mál kann að vakna upp aftur, — spurningin um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, — ekki starfa frekar heldur þeir aðilar, sem falið hefur verið sérstaklega að athuga það viðfangsefni, sem ég gat um. Nú er það auðvitað fyrirkomulagsatriði, hvernig að þessu er unnið, en ég held, að úr þessu verði ekki og að því unnið með öðrum hætti en þeim að reyna að kanna það, hverjir hafa orðið útundan og reyna að leysa það með sérsjóðum, svo sem lagt er hér til með lífeyrissjóði fyrir bændur.

En meginástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var sú fsp., sem kom frá 1. þm. Vesturl., hvað hugsað væri með Stofnlánadeildargjaldið. Eins og hv. þdm. er kunnugt og honum áreiðanlega líka mjög vel, þá er ákvæði um Stofnlánadeild landbúnaðarins og gjaldið til hennar í öðrum l., þannig að það hefur ekki þótt ástæða til þess að taka það mál til meðferðar í sambandi við það lagafrv., sem hér liggur fyrir. Það er rétt, að umr. hafa farið fram um það, hvað yrði um þetta gjald, og það hafa komið fram hugmyndir um það að draga úr því eða jafnvel fella það niður á alllöngu tímabili í áföngum. Það er hins vegar í þessum hugmyndum ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á því gjaldi á fyrstu árunum, sem m.a. stafar af því, að það eru lagðar allþungar kvaðir á Stofnlánadeild landbúnaðarins með þessu frv. í visst árabil, þannig að varasamt er að kippa grundvellinum undan henni. En það er ekki ætlunin, að það mál komi fyrir þetta þing, það er, eins og ég segi, á umræðustigi, og hafa farið fram umr. um það. Það mál hefur lent undir fjmrn. og fulltrúa bændasamtakanna, og þeim viðræðum verður haldið áfram til hausts.

Mér er kunnugt um það, sem fólst í þeirri ályktun, sem hann gat hér um, og forráðamenn bændasamtakanna hafa bent okkur á, að ef ekki náist samkomulag um það að gera einhverjar breytingar á því gjaldi, þá þurfi að taka þetta mál upp aftur við bændasamtökin eða jafnvel á Búnaðarþingi, og þess vegna er það rétt, sem hann sagði, að það eru auðvitað hin eðlilegustu vinnubrögð í þessu að leggja frv. einmitt nú fyrir Alþ. og að það verði notaður tíminn í sumar til að kynna sér viðhorf bændastéttarinnar. Það er vafalaust alveg hárrétt, sem hann sagði í sinni ræðu, að það er ekki alveg víst, að bændur allir geri sér til hlítar grein fyrir því, hve mikilvægt mál er hér um að ræða og hvaða hlunnindi í því felast. Reyndin hefur orðið svo með lífeyrissjóði, að það eru blendnar tilfinningar í því sambandi, og bændur greiða nú þegar bæði þetta gjald til Stofnlánadeildar, vegna hennar sjálfrar og auk þess sérstök félagsmálagjöld til sinna samtaka, þannig að það er auðvitað ekki að undra, þótt raddir komi upp um það, hvort hægt sé með einhverjum hætti að draga úr þeim gjöldum. Og það er auðvitað að sjálfsögðu full ástæða til þess, að það verði athugað áfram, og það verður gert á réttum vettvangi. En ég er honum algjörlega sammála um það, að unnið verði að framhaldsathugun þessa frv. með þeim hætti, sem hann gat um, og mundi ekki telja tímabært, að frv. yrði samþ. á þessu þingi, jafnvel þó að hægt væri nú að koma því í gegn, en þá auðvitað ekki nema með mjög lítilli athugun, einmitt vegna þess, sem hann gat réttilega um, að bændasamtökin hafa óskað eftir því að fylgjast betur með framgangi málsins.