12.12.1969
Sameinað þing: 23. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2946)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér er til umr. um heimild til inngöngu í Fríverzlunarbandalag Evrópu, stíga Íslendingar eitt stærsta spor fram á veg, ef samþykkt verður. Eins og fram hefur komið, nær EFTA-aðild að langmestu leyti til iðnaðar og iðnaðarvöru. Ég tel mig geta talað af nokkurri reynslu í þeim efnum, hvað íslenzkan iðnað snertir. Eitt af stærstu vandamálum íslenzks iðnaðar hefur alltaf verið smæð hins íslenzka markaðar, og svo mun verða að óbreyttu enn um langa framtíð. Smíði einstakra hluta á í flestum tilvikum lítið skylt við vel skipulagða verksmiðjuframleiðslu. Verðlag hverrar framleiðslueiningar verður brot kostnaðar. Það er því fyrst og fremst íslenzki neytandinn, sem hér á hagsmuna að gæta, en það er að sjálfsögðu þjóðin öll, og verður að sæta hærra verðlagi meðan svo er, að Íslendingar geta ekki framleitt á hagkvæmastan máta, eins og nú er í mörgum tilvikum.

Fríverzlunarbandalag Evrópu hefur nú starfað um áratug. Allvel tel ég, að hafi verið fylgzt með þeim málum af Íslands hálfu þennan tíma. Segja má, að hækkandi verðlag sjávarafurða, hagstæður útflutningur áranna fram til 1966 og miklir atvinnumöguleikar hafi ekki knúið okkur svo mjög til þess að takast á við þetta stóra vandamál af fullri alvöru á fyrstu árum bandalagsins. Reyndar hefur komið fram, að slíkt hefði ekki borið árangur þá, því að við áttum í erjum við Breta, stærstu þjóð EFTA. Eftir að skriður komst svo á málið og til EFTA-þmn. stofnað í árslok 1967, komst málið einnig í brennipunkt hjá samtökum iðnaðarins, sérstaklega þó hjá Félagi ísl. iðnrekenda, sem málið varðar hvað mest. Á þessu tímabili, og reyndar öll árin, sem EFTA hefur starfað, hafa verið náin tengsl milli norrænna iðnrekendasambanda, en þar eru íslenzkir iðnrekendur aðilar að. Ég vil því fullyrða vegna eigin reynslu, að með hverju fótmáli, sem Norðurlönd hafa stigið í þessu máli frá byrjun, hefur verið fylgzt af samtökum iðnaðarins hér. M.a. fékk Félag ísl. iðnrekenda hingað til lands á s.l. ári einn af framkvæmdastjórum norska iðnrekendasambandsins, sem mest hefur fylgzt með EFTA-málum Noregs. Var hann hér í nokkra daga, átti viðræður við frammámenn í iðnaði og kynnti sér íslenzkar aðstæður, en gaf svo stjórn Félags ísl. iðnrekenda umsögn um reynslu sína, heima og hér. Á s.l. vori stofnaði svo Félag ísl. iðnrekenda til 18 samstarfsnefnda, en í þeim n. hafa setið 65 forustumenn íslenzks iðnaðar í flestum starfsgreinum. Fulltrúi iðnmrn., Guðmundur Magnússon prófessor, hefur einnig átt fundi með þessum starfsnefndum til þess að kynna sér viðhorf iðnaðarins. Einnig hafa farið fram umr. milli stjórnar iðnrekenda og hæstv. ríkisstj. um einstök mál, sem iðnrekendur telja mikilsverð, ef af EFTA- aðild verður. Sum þeirra mála, sem iðnrekendur hafa lagt kapp á, hafa þegar séð dagsins ljós. Annað mun þróast á lengri tíma. Ég nefni hér nokkur mál, sem mér er kunnugt um, að samtök iðnaðarins hafa lagt mikla áherzlu á, ef af EFTA- aðild yrði. Það er þá að sjálfsögðu, að tollskráin verði endurskoðuð, en hún hefur verið lögð fram með nokkrum breytingum. M.a. er vélatollur þar færður niður úr 25%, hinn almenni vélatollur, niður í 7%. Hráefnatollur er færður niður um 50% í mörgum tilvikum. Ýmsar fleiri breytingar þarf þó að gera á tollskránni eða í sambandi við hana, en það verður þó ekki rætt hér að þessu sinni.

Þá koma breytingar á skattamálum, afskriftir, skattar og arðgreiðsla af hlutafé, sameining félaga eða samruni, aukin rannsóknarstarfsemi, samræming skatta við EFTA- lönd, endurgreiðsla á tollum, vélum og efni, sem flutt hefur verið inn með hærri tolli en undanfarna mánuði. Að sjálfsögðu ber einnig að nefna lánamál iðnaðarins í mörgum málaflokkum og útflutningsábyrgðir, ef iðnaðurinn á að standa sig á hinum erlenda markaði, og Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóðinn nýja og stjórn hans. Þá má nefna framlag ríkissjóðs til tækninýjunga, sem verður þýðingarmikið, rekstrarleiðbeiningar fyrir iðnfyrirtæki og aukna þjálfun starfsfólks í iðnaði. Einnig þarf að samræma rekstraraðstöðu íslenzkra fyrirtækja öðrum EFTA- löndum, og má m.a. í því sambandi nefna orku til iðnrekstrar.

Þá hefur verið rætt um innlend hráefni, að verðlag á innlendri framleiðslu verði það sama til iðnaðar hér á landi. Það á aðallega við um landbúnaðarvörurnar, verðlagið á þeim verði það sama til iðnrekstrar og aðrir EFTA-framleiðendur sitja það. Þá hefur verið rætt um að koma á hönnunarmiðstöð og markaðsleit á erlendum mörkuðum. Sjónvarpsauglýsingar verði takmarkaðar eða þau mál gagngert endurskoðuð; og allt eftirlit með íslenzkri iðnþróun verði hert og opinber aðstoð við undirmálsiðngreinar, sem ekki standast aukna samkeppni í byrjun.

Eins og ég sagði áðan, hefur sumt af þessum málum þegar séð dagsins ljós. Annað er væntanlega í farvatninu. Eitt af vandamálum við inngöngu í EFTA er að sjálfsögðu fjármagnsskortur iðnfyrirtækja hér á landi. Með verðlagsþróun þeirri, sem verið hefur, og ströngum verðlagsákvæðum um áratugi má segja, að atvinnurekstur allur og ekki sízt iðnaðurinn hafi verið fjárvana og ekki haft undan í kapphlaupi við dýrtíðina. Undanfarið hefur nokkuð verið bætt úr þessum fjármagnsskorti. Ég minni á aukningu Iðnlánasjóðs, lausaskuldir iðnaðarins, sem hefur verið breytt í föst lán, iðnlán Seðlabankans og samkeppnislán vegna iðnaðarframleiðslu. Útlán viðskiptabankanna til iðnaðar hafa og verið aukin nokkuð að undanförnu. Það, sem gert hefur verið, er þó hvergi nægilegt, og þá fyrst og fremst vegna gengisfellinganna, er rýrt hafa íslenzka gjaldmiðilinn aftur og aftur. Með inngöngu í EFTA reynir fyrst á með fjármagn. Norðurlönd, sem eru áreiðanlega vinveitt okkur, hafa því fallizt á að stofna til svokallaðs Iðnþróunarsjóðs, ef til aðildar Íslands að Fríverzlunarbandalaginu kemur. Iðnþróunarsjóður fær lánsfé mest allt frá hinum Norðurlöndunum, rúmar 1200 millj. kr. vaxtalaust til 25 ára, og afborgunarlaust fyrstu 10 árin. Þetta er mikill vinsemdarvottur, en hefur að sjálfsögðu engin áhrif á afstöðu iðnrekenda í þessu máli, eins og þó hefur verið haldið fram.

Að fjármagninu slepptu er annað vandamál alls atvinnurekstrar, hversu verðlag allt hefur verið óstöðugt í landinu. Verðlag innanlands verður að haldast stöðugt og án óeðlilegra hækkana, a.m.k. hækka ekki meira en í öðrum EFTA-ríkjum eftir inngöngu í Fríverzlunarbandalagið. Ef við ætlum okkur að ganga í markaðsbandalag, þar sem búa hundrað millj. manna, getum við ekki ráðið þar ferðinni, og því síður hagað okkur eins og að undanförnu í dýrtíðarkapphlaupinu. Þetta fannst hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, afleitt. Þetta finnst mér afbragðs gott.

Eðlilegt er, að spurt sé: geta íslenzk fyrirtæki, svo smá sem þau eru, komizt inn á EFTA-markaðinn? Hér ræðum við aðallega ýmiss konar iðnaðarvöru og þá vöruflokka, sem falla undir EFTA. Ef dæmi er tekið frá Noregi, ætti að vera óhætt að svara þessari spurningu játandi. En þó verður að hafa þar ýmsa fyrirvara. Eftir síðustu heimsstyrjöld var iðnaðarframleiðsla Norðmanna í molum. Með þátttöku í stærra markaði og með því að leggja jafnframt rækt við heimamarkaðinn hefur Norðmönnum nú tekizt á mörgum sviðum að ná undraverðum árangri í útflutningi iðnaðarvarnings. Heimamarkaðurinn hefur reynzt þeim bezta stökkbrettið, og svo hversu þeim hefur tekizt að halda kaupgjaldi í skefjum. Nefna má eitt atriði til viðbótar, sem er ekki þýðingarminnst, en það er hversu þjóðin hugsar norskt. Okkur Íslendingum aftur á móti virðist ætla að lærast seint að hætta að ganga á dönskum skóm, ef svo mætti segja.

Ein forsendan fyrir því, að þátttaka okkar í EFTA geti heppnazt og lífskjör okkar haldið áfram að batna, er sú, að við Íslendingar getum laðað að okkur erlent fjármagn, t.d. frá hinum EFTA- löndunum. Íslendingar eru í dag fátæk þjóð að fjármagni. Við eigum síldarbáta og síldarverksmiðjur og mikið af nýjum og góðum byggingum, mörg góð iðjuver og mikið af vélum er til í landinu. Við höfum yfirbyggt okkur á mörgum sviðum miðað við innanlandsþarfirnar. Síldin hefur brugðizt og við sitjum eftir með síldarbátana, verksmiðjurnar og of mikla yfirbyggingu, en of litla framleiðslu. Fyrir liggur yfirlýsing frá fjársterkustu löndum innan EFTA, a.m.k. Svíþjóð og Sviss, um, að ríkisstj. þessara landa vilji stuðla að útflutningi fjármagns til hinna EFTA- landanna. Yrði slíkt fjármagn flutt til Íslands, t.d. sem lánsfé eða hlutdeild í íslenzkum útflutningsfyrirtækjum, mundi það hafa í för með sér aukna atvinnu og bætt lífskjör. Einnig mundi erlend fjármögnun geta haft í för með sér frekari uppbyggingu stóriðnaðar á vissum sviðum. Reynslan af áliðjuverinu í Straumsvík er slík, að á þeirri braut geta Íslendingar óhikað haldið áfram — að sjálfsögðu með allri varfærni og forsjá okkar beztu manna. Það mundi að sjálfsögðu ekki vera hægt að hugsa sér annað, eftir að við erum orðnir aðilar að EFTA, en að öll fyrirtæki hér á landi lytu sömu lögum og reglum og gerist í hinum EFTA-löndunum, — skattar og skyldur þær sömu. Í dag getum við bent á ríkisfyrirtæki, bæjar- og borgarfyrirtæki, sement, áburð, Landssmiðju og að sjálfsögðu álbræðsluna í Straumsvík. Öll þessi fyrirtæki hafa aðra starfsaðstöðu en gerist hjá íslenzkum fyrirtækjum yfirleitt. Ég skal ekki öfundast yfir þessari aðstöðu, sem þessum fyrirtækjum hefur verið sköpuð, en allir þurfa að sitja við sama borð og njóta beztu kjarasamninga frá hendi íslenzkra stjórnvalda. í skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors er bent á það, hversu íslenzkum fyrirtækjum hefur verið mismunað átakanlega með fjármagn frá lánastofnunum hér á landi. Í skýrslunni, þar sem fjallað er um löng lán, segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Verndaðar iðngreinar eru að 28.9% fjármagnaðar með löngum lánum, en óverndaður eða lítt verndaður iðnaður að 22.3%, og sé sleppt samvinnu- og ríkisrekstri, er talan 17.8%.“ — Hér kemur afdráttarlaust fram hjá prófessornum það, sem reyndar eru mér ekki ný sannindi, að samvinnurekstri og ríkisrekstri hefur verið stórlega ívilnað með löngum lánum, og annað, sem mér var ekki jafn vel ljóst fyrr en nú, að verndaður iðnaður hefur verið betur meðhöndlaður af lánastofnunum en óverndaður. Ég lýsi ánægju minni yfir því að fá þetta svo berlega fram, og má segja, að það skýri margt af því, sem ég hef áður haft hugmynd um og hef áður látið uppi hér á hæstv. Alþ. Mörg önnur sannindi koma fram í þessari merkilegu skýrslu. Ég met mikils, hversu hreinskilnislega er tekið þar á vandamálum, og það er ekkert undan dregið, sem hlýtur þó að hafa verið freistandi.

Það má fullyrða, að sú atvinnustétt, sem innganga í EFTA hefur hvað róttækust áhrif á, sé íslenzkir iðnrekendur og fólk, sem starfar og kemur til með að starfa að iðnaðarstörfum. Ég hef nokkuð lýst, hversu forusta iðnrekenda hefur haft vakandi auga á þessu vandamáli og raunverulega ekki tekið afstöðu fyrr en nú, þar sem 3/4 hlutar þess atkvæðamagns, sem létu sig málið skipta, voru meðmæltir því, að Ísland gengi í EFTA. Hv. 6. þm. Reykv. hefur gert þessa atkvgr. að umræðuefni yfir þvera síðu í blaði sínu, Þjóðviljanum. Fullyrti hann, að 18 fyrirtæki gætu ráðið þar meiri hl. Sannleikurinn er sá, að það hefði þurft 36 félög, eins og ég þekki bezt til til að ráða þessu með naumum meiri hl. þó. Ég kann ekki þann Finnagaldur, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur æfingu í, en það má þó benda honum á þetta og líka það, að í stærstu alþýðusamtökum hér á landi, Alþýðusambandi Íslands, er vitað, að tvö stærstu verkalýðsfélögin hér í Reykjavík hafa fjórða hluta fulltrúa á Alþýðusambandsþingum, og líklegt að innan við 10 af þeim stærstu, sem eru innan sambandsins, hafi hreinan meiri hl. Með þetta í huga tel ég ekki réttmætt hjá hv. 6. þm. Reykv. að bendla Félag ísl. iðnrekenda við ólýðræði.

Það er fullkomlega eðlilegt, að nokkurs kvíða hafi gætt hjá sumum iðnrekendum vegna inngöngu í EFTA, en allir vita, að með inngöngu í EFTA erum við Íslendingar ekki að bindast þeim samtökum okkur vísvitandi í óhag. Ef það sýndi sig, að slíkt hefði meiri ókosti en kosti, get ég ekki séð annað en 12 mánaða uppsagnartími sé aðgengilegur fyrir Íslendinga, auk þess sem við eigum að hafa fjögurra ára aðlögunartíma með raunverulega óbreyttri tollvernd fyrir íslenzkan iðnað, eins og marglýst hefur verið yfir af hæstv. ríkisstj., og svo þar á eftir 6 ára tímabil, þar sem tollverndin minnkar hlutfallslega á hverju ári.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég víkja nokkrum orðum að ummælum forustumanna tveggja stjórnarandstöðuflokkanna, sem hér hafa talað í þessum umr., fyrri dag umr. Hv. 1. þm. Norðurl. v, hefur lýst sig andsnúinn aðild að Fríverzlunarbandalaginu. Afstaða þessa talsmanns Framsfl. er mér undraverð eftir að hafa hlustað á ritara flokksins, Helga Bergs, á almennum fundi hjá Framsfl., sem haldinn var hér í borg fyrir skömmu. Þangað var boðið mörgum frammámönnum íslenzks iðnaðar til þess að sitja fyrir svörum um EFTA. Á þeim fundi lýsti ritari Framsóknar eindregnum stuðningi við málið, tók jafnvel dýpra í árinni en sumir iðnrekendur, sem annars voru meðmæltir aðild. Í sama streng tók einnig framkvæmdastjóri iðnaðardeildar SÍS, Harry Frederiksen. Sýnilegt er, að ábyrgir menn innan Sambands ísl. samvinnufélaga, sem Framsfl. hefur alltaf verið tengdur við, menn, sem hugsa um velferð fyrirtækja þeirra, sem þeim hefur verið trúað fyrir, hafa tekið eindregna afstöðu með EFTA aðild. Afstaða hv. 1. þm. Norðurl. v. er því algerlega óábyrg. Eflaust tekst honum að kúga flokksbræður sína til fylgis við sig, þegar lokaafgreiðsla málsins fer fram hér á hæstv. Alþ.

Varðandi afstöðu hv. 4. þm. Austf. til EFTA aðildar er að sjálfsögðu ekki að vænta neinnar hálfvelgju. Hann kom fram hér fullkomlega í gervi úrtölumannsins og stóð þar í báða fætur, að svo miklu leyti sem hann kom inn á iðnaðinn í fyrri ræðu sinni, sem hann tileinkaði að sjálfsögðu mest íslenzkum sjávarútvegi nú eins og endranær. Þessi hv. alþm., formaður þingflokks Alþh., sem fram að þessu telur eflaust innan sinna vébanda álitlegan hóp þeirra, er að iðju og iðnaði starfa, og annað vinnandi fólk, hefur ekki enn skilið þörf fyrir aukinn iðnað í landinu. Þetta er hörmuleg staðreynd. Mér fannst afstaða þessa hv. þm. sorglegt dæmi um einstrengingshátt og skilningsleysi, — en þó meiri leikaraskap að yfirlögðu ráði heldur en þetta væri sannfæring hv. þm. Ég er þó innilega sammála þessum hv. þm. um það, að íslenzkan sjávarútveg þarf að efla. Við þurfum nýja togara, þótt hann hafi hins vegar staðið að því á sínum tíma að selja nýja togara frá Norðfirði, sínum heimabæ — en nú væri þó mikil atvinnubót að slíkum atvinnutækjum á Norðfirði. Við megum vera minnug þess, hversu valt er að treysta sjónum. Þessi gullkista okkar hefur lokazt að nokkru, og við vitum ekki, hvenær henni verður lokið upp á ný. Á sama tíma fjölgar fólkinu í landinu, starfsglöðu, vinnandi fólki, sem verður að sjá fyrir atvinnu.

Hv. 4. þm. Austf, fór mörgum orðum um það, að við ættum að fullvinna sjávaraflann í landinu sjálfir. Ég er honum sammála, en við verðum líka að láta reynsluna tala, og hv. þm. veit betur en hann vill vera láta, hvernig þessum málum er fyrir komið. Eða veit hann ekki, að Íslendingar flytja hraðfrysta fiskinn til Ameriku og fullvinna hann þar? Veit hann ekki, að ný síld hefur verið flutt úr landi til Þýzkalands, skipsfarmur eftir skipsfarm, og fullunnin þar? Sannleikurinn er sá, að hv. þm. veit þetta mætavel. Hann veit, að fullvinnsla sjávarafurða verður í mörgum tilvikum að fara fram, þar sem markaðurinn er. Þetta veróur þannig að vera, þangað til hægt er að flytja afurðirnar flugleiðis eða á annan hátt á neytendamarkaðinn samdægurs. Að mínum dómi er það algerlega út í hött hjá þessum hv. þm. að beina allri orku sinni nú í þessu máli að íslenzkum sjávarútvegi, eins og hann gerði í fyrri ræðu sinni, einmitt þegar gera á stórhuga tilraun til þess að koma upp útflutningsiðnaði hér á landi, sem verða mætti til þess að tryggja betri lífskjör og forða frá atvinnuleysi, sem allir hræðast vegna sívaxandi fólksfjölda á vinnumarkaðinum. Mér finnst þessi hv. þm. vera allt of vel inni í atvinnumálum þjóðarinnar til þess að tala eins og hann gerði hér fyrr í þessum umr.

Hv. þm. talaði einnig hér fyrr í dag og endurtók nokkuð af sínum fyrri bölsýnisspádómum um íslenzka iðnaðinn. Hann taldi, að smáiðnaður í iðnaðarlöndunum, t.d. Sviss, hefði byggzt upp með höftum og aðstöðu á heimamarkaði. Hann lýsti því, hversu þessi lönd hefðu síðar farið að berjast á stærri mörkuðum. Ég kann ekki þessa sögu svo langt til baka, en er ekki augljóst, að við stöndum í dag einmitt á þessum þröskuldi, sem hv. þm. lýsti? Við höfum haft heimamarkaðinn, og nú er um að gera að reyna að fara að berjast á stærri markaði okkur öllum til hagsbóta.

Sami ræðumaður talaði enn um 16. gr. EFTA samningsins, en hann gleymdi örugglega, óviljaverk hans náttúrlega, — að minnast á tvö þau frv., sem fyrir hv. Alþ. liggja, frv. um iðju og iðnað og frv. um verzlunaratvinnu: Þessi tvö frv. eiga einmitt að koma í veg fyrir, að 16. gr. EFTA-samningsins hafi óheppileg áhrif hér á íslenzkan atvinnurekstur.

Þá minntist ræðumaður á Iðnþróunarsjóðinn: Það væri svo sem einskis virði að fá þennan sjóð. Hann yrði að borga til baka. En hann minntist ekki á, að sjóðurinn er afborgunarlaus fyrstu 10 árin og greiðist svo niður á 15 árum, en er vaxtalaus allan tímann. Íslendingar borga aldrei vexti af þessu fé. En svo minntist hann einnig á, og kvartaði yfir, að sjávarútvegsiðnaður ætti ekki að komast að í þessum bölvaldi, sem hann minntist á, í Iðnþróunarsjóðnum. En sannleikurinn er sá, að allur iðnaður, sem hefur viljað teljast til íslenzks iðnaðar, fær fullan og jafnan aðgang að Iðnþróunarsjóðnum og annar ísl. iðnaður. Allir, sem greiða til Iðnlánasjóðs, fá aðgang að sjóðnum, m.a. allur íslenzkur niðursuðuiðnaður og margs konar annar iðnaður, sem vinnur úr sjávarútvegi, þó ekki frystiiðnaður, sem að eigin ósk er ekki talinn til íslenzks iðnaðar og greiðir ekki iðnlánasjóðsgjald.

Atvinnuástand síðasta vetrar og vaxandi atvinnuleysi er mörgum áhyggjuefni. Allir verða þó að viðurkenna, að Búrfellsvirkjun og mikil atvinna við álbræðsluna í Straumsvík hefur verið bjargvættur. Álbræðslan hefur nú hafið starfsemi sína og á eftir að mala gull úr íslensku fallvatni um ókomin ár, væntanlegum eigendum, þeim sem að fyrirtækjunum starfa, og íslenzka ríkinu til hagsbóta. Ég hef oft rennt huganum til frænda okkar Norðmanna og hvern veg þeir rifu sig upp úr þeirri eymd, sem síðasta heimsstyrjöld skapaði þar í landi.

Einn af þeirra beztu sonum var gerður að „farandsendiherra“ til þess að vekja athygli heimsins á þeirri miklu auðlegð, sem norsk fallvötn byðu upp á. Á örskömmum tíma byggðu Norðmenn, með aðstoð erlends fjármagns, upp slíkan stóriðnað í landi sínu, að slíkt er einsdæmi. Væri ekki réttara fyrir okkur Íslendinga að fara sömu leið, þótt seint sé, sameinast allir um það, að hefja stórvirkjanir og uppbyggingu orkufreks iðnaðar, vekja áhuga erlendis á hinum góðu kostum, sem landið er búið og enn eru tæpast úreltir, þannig að við getum einnig á þennan hátt skapað fulla atvinnu? Ég held, að við eigum nú loks að sjá að okkur, hleypa heimdraganum, ekki aðeins með inngöngu í EFTA, heldur einnig með því að stuðla að gífurlegri uppbyggingu hér á sviði stóriðju og virkjana með það að markmiði, að hér skapist velferðarríki til handa öllum landsins börnum. Trú mín er sú, að íslenzkur iðnaður eigi bjarta framtíð fyrir höndum með samstilltu átaki allra og geti lyft grettistökum.

Með því að tengjast EFTA erum við raunverulega að nálgast enn meir þau lönd, sem við höfum haft nánustu menningartengsl við og okkur standa næst. Þar á ég að sjálfsögðu við Norðurlöndin, sem öll eru innan Fríverzlunarbandalagsins. En eftirtektarvert er, að innan EFTA teljast aðeins 3% af fólksfjölda heimsins, eða 100 millj. manna. En þessi 3% hafa innan sinna vébanda 15% af öllum heimsviðskiptum. Verzlun og viðskipti eru nú einu sinni sá þáttur atvinnulífsins, sem ekki verður umflúinn, þótt fáir vilji viðurkenna hann sem sérstakan atvinnuveg. Reynslan er þó sú, að sala er oft meira atriði heldur en sjálf framleiðslan. Og af því að ég tók dæmi af Norðmönnum, má minnast á það, að þeir gera nú ótrúlegustu hluti til þess að eignast sérmenntaða menn einmitt á verzlunarsviðinu og þá, sem taka að sér könnun á markaðsmálum.

Það er augljóst mál, eins og nú er komið, þar sem tveggja klst. ferð er með flugi yfir til nágranna okkar, að það gengur ekki til lengdar, að við einangrum okkur frá þessum nágrönnum með óheilbrigðum tollmúrum. Ég tel, að Íslendingum sé það til góðs að stíga nú þetta spor, að ganga í EFTA, og auk þess hefja stórkostlega uppbyggingu iðnaðar á Íslandi.