18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2953)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr. fyrr um aðild okkar að Fríverzlunarsamtökunum. Hv. þm. er þó ljós afstaða mín til málsins, og hef ég reynt að gera nokkra grein fyrir henni í sjónvarpsumr., sem nýlega fóru fram. Að öðru leyti get ég að mestu vísað til þeirra raka, sem fram hafa komið um EFTA-aðildina í ræðum hæstv. viðskmrh. og hæstv. forsrh., sem talað hafa fram til þessa fyrir hönd stjórnarinnar. En það eru ýmis atriði, sem fram hafa komið í sambandi við EFTA-aðildina eða í umr. og snerta kannske ekki í sjálfu sér beint stofnsamninginn a.m.k. og eðli hans, heldur aðstöðu okkar að öðru leyti, ef við tengdumst EFTA-löndunum, og gefa ástæðu til þess að gera nokkrar aths.

Í ræðu hv. 6. þm. Reykv. var mjög klifað á því nú sem endranær, að við legðum mikla áherzlu á að fá hingað til lands erlend fyrirtæki til atvinnurekstrar og erlent áhættufé. Ég skal ekkert út í það fára núna. Ég tel, að það sé eitt af þeim meiri háttar betri verkum, sem mér hefur auðnazt að taka þátt í, að semja um stóriðju hér á landi, semja um, að erlendir aðilar byggðu hér álbræðslu, sem var forsenda fyrir því, að hægt var af okkar hálfu að framkvæma þá stórvirkjun, sem nú hefur verið gerð við Búrfell og haldið var áfram að vinna að. Hann telur, hv. 6. þm. Reykv., að með EFTA-aðildinni séu opnaðar að hans dómi einhverjar nýjar lokur, óæskilegar, fyrir erlendan atvinnurekstur, og segir í því sambandi, að breytingar á lögum um iðju og iðnað og verzlunaratvinnu hafi ekkert að segja í þessu sambandi, vegna þess að þeir aðilar, sem með stjórnvöldin fara, leggi svo ríka áherzlu á að fá hingað erlend fyrirtæki til atvinnurekstrar. Það er alveg eins og hv. þm. geri ráð fyrir því, að við verðum eilífir augnakarlar hér í ríkisstj., sem erum þar nú, og harma ég það í sjálfu sér ekki.

En ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að í gildandi lögum — og nú er ég ekki að tala um það frv., sem lagt er fram til breytinga á lögum um iðju og iðnað — geta útlendingar fengið hér atvinnurekstrarleyfi, iðjuleyfi, hjá hvaða lögreglustjóra, sem er á landinu, ef þeir eru bara búsettir hér. Það eru engin skilyrði fyrir því að hafa íslenzkan ríkisborgararétt til að setja hér á stofn iðjufyrirtæki. Það er tekið fram í lögum, að það geti hver, sem er, fengið iðjuleyfi, karl eða kona, ef hann er heimilisfastur á Íslandi, þegar leyfið er veitt, og hefur verið það síðasta árið. Þetta er skilyrðið. Hver útlendingur, sem væri búsettur hér, gæti vegna þessara laga, sem nú eru í gildi, sótt til viðkomandi lögreglustjóra — en í 7: gr. eru það lögreglustjórarnir, sem veita iðjuleyfið — og fengið iðjuleyfi. Þetta er nauðsynlegt, að hv. þm. viti, og það er nauðsynlegt, að hv. þm. viti það líka, að nú geta útlendingar átt hér hlutabréf í hlutafélögum allt að 50% og allt að 100% með leyfi stjórnvalda samkv. gildandi lögum. Það er bara engin ásókn í þetta. Ég kannast ekki við eitt einasta tilfelli, þar sem erlent fyrirtæki hefur óskað eftir slíkri aðild að atvinnurekstri hér á landi ekki meðan ég hef verið ráðh., og ég þekki ekkert dæmi frá öðrum tíma um, að nein ásókn hafi verið í þetta. En ef erlendum fyrirtækjum væri svona mikið í mun að hefja hér atvinnurekstur, þá hafa þau haft þessa aðstöðu.

Hv. 6. þm. Reykv. spurði einnig um það, hver hefðu orðið málalok í ferðalagi, sem ég hefði farið á s.l. vori til Norðurlanda gagngert til þess að kanna, hversu mörg norræn fyrirtæki vildu stofna dótturfyrirtæki á Íslandi. Ég kannast bara ekki við neina slíka för af minni hálfu. Mér barst á s.l. vetri heimboð frá dönskum starfsbróður mínum í dönsku ríkisstj., sem fer með iðnaðarmál þar, viðskmrh. og iðnmrh. Dana, fyrir milligöngu danska sendiherrans hér, sem mun hafa haft áhuga á þessu. Hann hafði orðað þetta við mig áður og taldi eðlilegt að koma á sambandi og tengslum milli starfsbræðra í dönsku og íslenzku ríkisstj., eins og honum var kunnugt um, að hafði komizt á í norsku ríkisstj., þegar ég heimsótti starfsbróður minn þar fyrir tveimur árum. Sá hinn sami kom hingað til Íslands í boði ríkisstj., og þess vegna mun þessu boði hafa verið komið á framfæri við mig. Þetta hefur svo einnig leitt til þess, að ég hef fyrir hönd ríkisstj. boðið þessum starfsbróður mínum að koma til Íslands á næsta vori. Þetta var sem sé heimboð til Kaupmannahafnar, sem stóð í 3 daga. Ég fór á mánudegi og kom heim á föstudegi.

Ég ræddi að sjálfsögðu iðnaðarmál bæði við ráðh. og embættismenn í rn. Einnig ræddi ég við iðnrekendur og iðnþróunarráð, sat á fundi með því, „Industrirådet“, þar sem mér var gerð grein fyrir því, hvernig um hnútana er búið skipulagslega hjá Dönum. Við ræddum líka mismunandi aðstöðu landanna, einmitt um EFTA-aðstöðuna, og ég hef sagt frá því áður, sem kom fram í þeim umr., að Danir hefðu byggt á þessu og reynt að gera ýmsar áætlanir um nýjan útflutning eftir aðildina að EFTA, og þá var mér tjáð í þessum umræðum, að allar þær áætlanir, sem þar hefðu verið gerðar, hefðu reynzt meira og minna rangar. Það hefði m.ö.o. engin þeirra staðizt, en það hefði ekki verið svo mikill skaði skeður vegna þess, að reyndin hefði verið miklu betri en áætlanir þeirra, sem hjartsýnastir hefðu verið. Iðnþróunin hefði aldrei verið örari í landinu á jafnskömmum tíma og eftir að þeir gengu í EFTA. Þeir sögðu auðvitað frá því, að það hefðu verið efasemdir hjá ýmsum og nokkur andstaða í upphafi gegn EFTA, sem nú bæri ekki lengur neitt á, eins og verið hefur hér á landi, og út af fyrir sig hef ég ekki talið það neitt undarlegt, þó að menn hafi mismunandi skoðanir á því, hvað slík aðild kunni að fela í sér til gagns eða ógagns.

Þá spurði hv. 6. þm. Reykv. að því, hvað liði olíuhreinsunarstöðvarmálinu. Hvernig stendur það mál? spurði hv. þm. En þetta var hann að ræða í sambandi við það, að það væru okkar óskir að fá útlendinga til þess að vera með í eða til þess að reisa hér olíuhreinsunarstöð. Nú er það svo, að ég gerði hv. þm. grein fyrir stöðu þess máls í maímánuði s.l. og lagði þá fram í þinginu skýrslu um stöðu málsins eins og hún var þá. Síðan hefur allmikið verið unnið að málinu, og ég geri ráð fyrir því að gera þinginu síðar eftir áramótin nánari grein fyrir því, sem gerzt hefur frá þeim tíma og þar til núna eða hvenær sem að þeirri skýrslugerð kemur. Ég hef lagt áherzlu á það — m.a. vegna þess að hv. þm. hafa óskað eftir því — að gera þeim á hverjum tíma grein fyrir þeim aðgerðum, sem af hálfu stjórnvalda hafa átt sér stað í því máli, en það átti nú að vera einn vankanturinn á okkur, þessum stjórnarherrum nú, að við vildum reisa slíkt fyrirtæki í samvinnu við útlendinga. Nú verð ég að segja það, að í mínum augum er það síður en svo nokkuð verra að kaupa hreinsaða olíu af útlendingum eða útlenzkri — alútlenzkri — olíuhreinsunarstöð hér í Geldinganesi en kaupa hana af olíuhreinsunarstöð við Svartahaf eða annars staðar í Sovétríkjunum. Ég vildi miklu heldur, þó að útlendingar ættu stöðina alla, hafa hana hérna. Þannig hafa Danir t.d. farið að. Hið danska ESSO hefur reist olíuhreinsunarstöð í Kalundborg, 2–3 millj. tonna olíuhreinsunarstöð. Það stendur fallegum stórum stöfum utan á henni Danska ESSO, þegar maður kemur og skoðar stöðina, en það er ekki danskur eyrir í stöðinni. Erlendir aðilar hafa reist hana, og Dönum hefur þótt fengur í því. En hitt er svo rétt, að í sambandi við olíuhreinsunarstöð hér á landi höfum við lagt áherzlu á það eins og kom fram í grg, sem ég lagði fram í þinginu í maí, að við Íslendingar ættum meirihlutann í olíuhreinsunarstöð, sem reist yrði hérna, og hefðum jafnvel einnig aðstöðu til þess að eignast á vissu árabili stöðina alla, ef svo bæri undir. Um þetta mál skal ég ekki fara fleiri orðum nú.

Hv. 6. þm. Reykv. vék nokkuð að skýrslu dr. Guðmundar Magnússonar prófessors, og það hefur hent bæði hann og reyndar fleiri þm. að vitna í ýmis ummæli í þessari skýrslu og taka þau nokkuð út úr samhengi, að því er mér hefur fundizt, en sérstaklega er það þó verra, að menn hafa rætt um þessa skýrslu eins og hún ætti að vera um eitthvað allt annað en hún átti að vera um. Og hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þetta væri 120 síðna lýsing á iðnaði eins og hann nú er, en ekkert væri í skýrslunni um það, sem spurt væri að. En sjálf hefst skýrslan á 1. síðu með þessum orðum, með leyfi hæstv: forseta:

„Í þessari skýrslu er í grófum dráttum hafður sá háttur á, a) að huga að þróun íslenzks iðnaðar á undanförnum árum, b) að athuga áhrif fríverzlunar og tolla almennt, og að síðust, c) að ræða sérstaklega ástand og horfur í einstökum iðngreinum með tilliti til hugsanlegrar EFTA-aðildar.“

Um þetta er skýrslan, og það er þetta, sem þessum ágæta prófessor var falið að gera skýrsluna um. Og þetta kemur reyndar víðar fram í skýrslunni, þannig að menn ættu ekki að þurfa að villast neitt á því. Prófessorinn segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 20:

„Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna, hvaða áhrif hugsanleg EFTA-aðild kunni að hafa á íslenzkan iðnað, einkum þann, sem nú er stundaður.“

Það var tilgangurinn að biðja þennan prófessor að kanna iðnaðinn, að reyna það með slíkri könnun, sem ekki hafði áður verið gerð og hvergi var greiður aðgangur að, því að okkar efnahagsskýrslur varðandi iðnað, svo sem marga aðra atvinnuvegi, eru ekki svo fjölskrúðugar. Tilgangurinn var að fá hann til að gera slíka skýrslu til þess, að af því mætti leiða líkur að því, hvernig EFTA-aðildin mundi verka hér á landi eða hvaða áhrif EFTA-aðildin mundi hafa á íslenzkan iðnað einkum vegna hinnar margumtöluðu tollverndar, sem íslenzkur iðnaður hefur notið og sem smátt og smátt á 10 ára aðlögunartímabili átti að hverfa. Ég hygg, að dr. Guðmundur Magnússon hafi unnið mjög athyglisvert verk með þessari skýrslugerð, enda hef ég ekki heyrt neina gagnrýni á hana, en hins vegar hefur töluvert úr henni verið rangtúlkað bæði hér í þingsölunum og í blöðum. En það er auðvitað rétt, sem bent hefur verið hér á, að skýrslan er samin af hlutlausum aðila, og það er varfærnislega til orða tekið og það er auðvitað alveg rétt, að það er ekki allt lof eða jákvætt, sem fram kemur í skýrslunni. Prófessorinn hikar ekki við að benda einnig á þau atriði, sem eru neikvæð, en heildarniðurstaða hans er jákvæð? Hann álítur, að iðnaðurinn standi þannig nú, að EFTA-aðild með þeim samningi, sem liggur fyrir og gerir kleift að öðlast hana, muni leiða til öflugri og meiri iðnþróunar í landinu en ella. Það er meginefni málsins, að eftir að hafa kannað á hlutlausan hátt aðstöðu iðnaðarins nú varð niðurstaða prófessorsins sú, að EFTA-aðild muni vera jákvæð fyrir okkur, að við eigum að gerast aðilar að Fríverzlunarbandalaginu og það muni leiða til öflugri iðnþróunar í landinu eins og reyndar tilgangur EFTA-aðildarinnar að sjálfsögðu er og tekið er fram sem markmið í sjálfum stofnsamningnum, þ.e. að EFTA-samstarfið eða Fríverzlunarsamtökin eigi að stuðla að frjálsari verzlun í þeim tilgangi að auka hagsæld og atvinnu í þeim löndum, sem hlut eiga að máli, ekki einstökum þeirra, heldur öllum aðildarríkjunum.

Þá vildi ég aðeins mega víkja að því, sem fram kemur í nál. 2. minni hl. utanrmn. á þskj. 209. Það er næsta furðulegt plagg. Á 1. bls. í því nál. eru öfugmæli við öfugmæli um aðstöðu iðnaðarins og iðnþróun í landinu. Það er hreint eins og þeir aðilar, sem hafa hugsað þetta, hafi aldrei dvalið á Íslandi og komi úr einhverjum allt öðrum heimi.

Í fyrsta lagi segir hv. 2. minni hl. utanrmn., að Framsfl. hafi flutt till. um það á Alþ. 1960: „að mörkuð yrði sérstök iðnþróunarstefna og iðnaðurinn efldur og styrktur á þeim grundvelli.“ Ég mundi nú ekki eftir því, að Framsfl. hefði flutt neina till. 1960 um, að mörkuð yrði hér sérstök iðnþróunarstefna, þannig að ég fór í þingtíðindin til þess að sjá þessa merku till. um að marka iðnþróunarstefnu á Íslandi. Till. er í þremur liðum. Iðnþróun er hvergi nefnd í till., hvað þá að mörkuð sé iðnþróunarstefna. En liðirnir eru þrír, efnisliðir þessarar till., og það er í fyrsta lagi að leggja fyrir Rannsóknaráð ríkisins að taka til rækilegrar athugunar og rannsóknar í samráði við Iðnaðarmálastofnun Íslands, hvaða iðngreinar geti hérlendis haft jafngóðan eða betri starfsgrundvöll en hliðstæðar iðngreinar hafa í nágrannalöndum Íslands. Þetta út af fyrir sig mundi sjálfsagt hafa getað leitt til iðnþróunar; við getum sagt það. En sannast að segja hefur sitthvað verið gert af þessu tagi hér á landi, þó að ekki hafi verið skrifuð nein skýrslugerð um það. Félag ísl. iðnrekenda hefur sett á laggirnar hjá sér og með tilstuðlan stjórnvalda útflutningsskrifstofu til þess að efla íslenzkan útflutningsiðnað og nú þegar tekið þátt í allmörgum vörusýningum til þess að auglýsa íslenzkan iðnvarning. Á laggirnar hafði verið sett fyrir þremur árum iðnþróunarráð, sem á fjölmargan hátt hefur fjallað um iðnþróunarmöguleika í einstökum atriðum hér á landi og stuðlað að framgangi ýmissa mála á því sviði, en það hefði orðið of langt mál að fara að rekja þau mál nú í þessum umr., sem þar hafa borið á góma. En m.a. setti iðnþróunarráð á laggirnar útflutningsnefnd, sem átti að hafa það markmið að kanna og athuga möguleika til útflutningsiðnaðar. Og þessi nefnd skilaði áliti á s.l. ári — seinni hluta ársins 1968. Lögð var áherzla á, að tvær af till. nefndarinnar eða ein till. — getum við sagt — kæmi þegar til framkvæmda. Þar var lagt til, að settar yrðu á laggirnar tvær útflutningsnefndir eða tvær samstarfsnefndir til þess að vinna að eflingu útflutningsiðnaðar, önnur til að vinna að útflutningi iðnaðar úr íslenzkum hráefnum og hin til að vinna að möguleikum á útflutningi tækja og véla og búnaðar í tengslum við íslenzkan sjávarútveg, þar sem við höfum vissulega mikla sérstöðu og höfum framleitt ýmis tæki í tengslum við sjávarútveginn, bæði vélar og annað. Þessar nefndir eru báðar starfandi og hafa þegar unnið töluvert að því að undirbúa og gera till. um aðgerðir til þess að efla aðstöðu okkar til útflutningsiðnaðar, og verður nánar gerð grein fyrir því máli seinna. Varðandi iðnþróunartill. Framsóknar vil ég aðeins bæta því við, að á fjárl., sem við erum nýbúnir að afgreiða, voru veittar 3 millj. kr. til útflutningsskrifstofu Félags ísl. iðnrekenda, en hún hefur frá upphafi verið í nánu samstarfi og tengslum við rn., og það hefur verið — það er rétt, að það komi fram — sameiginleg skoðun iðnrekenda, sem að þessari skrifstofu standa, og stjórnvalda, að það væri eðlilegt að veita henni brautargengi með opinberum styrk í upphafi, en í framtíðinni yrði stefnt að því eftir því, sem útflutningur iðnvarnings þróaðist, að iðnaðurinn sjálfur tæki á sig kostnaðinn af rekstri þessarar skrifstofu og af öðrum störfum í sambandi við aukinn útflutning.

Í öðrum liðnum í till. Framsóknar um iðnþróunina er hlutazt til um, að stofnlán til iðnfyrirtækja verði aukin einkum til þeirra fyrirtækja, sem vilja hefja eða auka iðnrekstur til framleiðslu á útflutningsvörum. Það er m.a. sagt í þessu furðulega nál. 2. minni hl., að það hafi ekkert raunhæft gerzt, síðan þessi till. var flutt, og þess vegna sé ekki tímabært að fara í EFTA, því að þó að framsóknarmenn hafi verið duglegir að flytja till., þá hafi þær alltaf verið felldar og ekkert verið gert. Um stofnlánin til iðnaðarins er það að segja, að árið 1960, þegar þessi till. var flutt, voru útlán Iðnlánasjóðs 4.4 millj. kr. það árið, og sjóðurinn í heild var í árslok 1959 10 millj. kr. Síðan hefur þessi sjóður vaxið ár frá ári. Það hefur verið þannig, að 1961 eru útlán sjóðsins 9.7 millj. kr., 1962 13.9 millj. kr., 1963 38.8 millj. kr., 1964 50.6 millj. kr., 1965 58.3 millj. kr., 1966 76.5 millj. kr. og 1967 136.1 millj. kr. 1968 verður svo sjóðurinn fyrir afleiðingum af þeim áföllum, sem þjóðarbúskapurinn þá varð fyrir, og árleg útlán lækkuðu niður í 74.2 millj. kr., en hækka svo aftur á þessu ári og er áætlað, að þau verði um 112 millj. kr. Nú eru útlán Iðnlánasjóðs 395.2 millj. kr. M.ö.o., það hefur orðið til á þessu 10 ára tímabili, þegar ekkert á að hafa gerzt, af því að það var ekki samþ. þessi merkilega iðnþróunartill., öflugur stofnlánasjóður hjá íslenzkum iðnaði, sem hefur nú ráðstöfunarfé á hverju ári um og yfir 100 millj. kr. og fer vaxandi.

Árið 1963 voru sett ný lög um Iðnlánasjóðinn og honum þá tryggð fjáröflun, og það eru fá lög, sem jafnoft hafa verið gerðar breytingar á á þessu 10 ára tímabili og á iðnlánasjóðslögunum, og þær hafa allar miðað að því að efla sjóðinn. Þá var 1963 tekin upp ný fjáröflun til sjóðsins. Það var iðnlánasjóðsgjaldið, og síðan var framlag ríkissjóðs, sem var þá 2 millj. kr., hækkað — fimmfaldað — í 10 millj. kr., og hefur verið það síðari árin. Heimildir sjóðsins til lántöku hafa verið auknar stórkostlega, ef hann þyrfti á þeim að halda. Það hafa verið sett lög um sérstaka hagræðingardeild í Iðnlánasjóði, og boðið var út fé til hagræðingarlána, en það gekk því miður verr en skyldi. Fyrsti áfanginn var útboð á 25 millj. kr. og seldist á 15. millj. af því útboði. En það kom einmitt á þeim óheppilega tíma, þegar áföllin dundu yfir okkur á árunum 1967 og 1968. Það er auðvitað brýn nauðsyn og ríkisstj. er það ljóst, að efla þarf þessa hagræðingarlánadeild, og ég hygg, að það mundu skapast einmitt nú nýir möguleikar til þess. Sparifjármyndun hefur farið mjög mikið vaxandi í landinu. Hún hefur á þessu ári — það, sem af er — verið miklu meiri en á s.l. ári og hefur nærri því tvöfaldazt. En við aukna sparifjármyndun, eins og nú á sér stað, skapast af sjálfu sér nýir möguleikar til þess að afla slíkum sjóðum nýs fjár eða slíkum deildum, eins og hér er um að ræða í Iðnlánasjóði.

Nokkru síðar var svo stofnuð ný deild við Iðnlánasjóð með lagabreytingum, þ.e. lánadeild veiðarfæraiðnaðar á Íslandi, og þeirri deild var lagt til stofnfé, 11.6 millj. kr., og tryggðar tekjur — 1% af tollverði innfluttra veiðarfæra. Þessi deild hefur átt sinn þátt í því, að eina íslenzka veiðarfæragerðin, sem hefur verið uppistandandi, gat haldið áfram rekstri sínum og er nú í verulegum og örum vexti. Síðan var iðnlánasjóðslögunum einnig breytt síðast í október 1967. Þá var ákveðið, að 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi skyldi fara til að greiða fyrir hagrannsóknum í þágu iðnaðarins og aðgerðum, sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu. Stjórn sjóðsins ráðstafar þessu fé í samráði við Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, og þau hafa fengið þessar tekjur. Nú verða árlegar tekjur Iðnlánasjóðs eða iðnlánasjóðsgjaldið, eins og þarna er talað um, á þessu ári eitthvað nálægt 33 millj. kr., svo að þetta fé, sem þessi landssamtök hafa þarna til hagræðingar og aðgerða, sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu, mundi nema á 4. millj. kr. Ég hygg, að þetta hafi verið framkvæmt þannig, að það skiptist nokkuð jafnt á milli þessara aðila. Í þessum sömu lögum um breytingu á iðnlánasjóðslögunum var ríkisstj. heimilað að greiða til lánadeildar veiðarfæraiðnaðar allt að 1.5 millj. kr. til að bæta innlendum veiðarfæraiðnaði það tjón, sem hann hefur, að mati stjórnar Iðnlánasjóðs, beðið vegna ákvarðana stjórnarvalda um breytingu á reglum um möskvastærðir fiskineta 1963 og 1964, en veiðarfæragerðin, sem átti hér hlut að máli, hafði legið með gamlar birgðir, og það hafði gert reksturinn mjög örðugan. Sumt af þessum birgðum var óseljanlegt eftir þessar aðgerðir stjórnvalda, sem ég gat um.

Ég minni á þetta til þess að vekja athygli á því, að hér hafa í löggjöfinni á undanförnum árum átt sér stað verulegar lagabreytingar, sem stuðlað hafa á einn eða annan hátt að iðnþróun í landinu, eins og ég nú hef lýst. Ég geri ráð fyrir því, að með aðildinni að EFTA og þeirri aðstöðu, sem er í þjóðfélaginu að öðru leyti nú, þá megi iðnaðurinn búast við því, að til útlána verði á árinu 1970 um fimm sinnum meira ráðstöfunarfé en Iðnlánasjóðurinn íslenzki hefur haft yfir að ráða fram til þessa — eða nálægt 500 millj. kr. Þá er ég að tala um á 4. hundrað millj. kr., sem munu koma inn á árinu frá Norræna iðnþróunarsjóðnum og fé Iðnlánasjóðs, eins og verið hefur. að viðbættri tekjuöflun, sem ríkisstj. mun vinna að íslenzka Iðnlánasjóðnum til handa. Það er auðvitað ekki lítill aflgjafi fyrir íslenzkan iðnað að fá nýja fjárfestingarmöguleika, sem felast í því, að hægt er að veita úr honum um það bil fimm sinnum meira en verið hefur til nýrrar fjárfestingar í vélum og búnaði.

Hv. 2. minni hl. utanrmn. gerir grein fyrir því, að Framsfl. hafi nú setið hjá í fyrra, þegar till. var hér um það að leita samninga um EFTA-aðild. Þeir bregða ekki vana sínum nú, eins og niðurlag nál. ber með sér. Þar segir, að þessi mál séu því enn í sömu sporunum og fyrir ári, þ.e. EFTA-málið.

Nú hefur á þessu ári verið unnið ótrúlega mikið starf við að ná þeim samningum við EFTA, sem liggja hér fyrir þinginu og eru að allra dómi taldir vera mjög hagstæðir fyrir okkur, en gífurlega mikið verk fór í að koma heim og saman, og svo á ekkert að hafa gerzt. Við vitum núna, með hvaða kjörum við eigum kost á aðild að EFTA, sem við ekki vissum áður. Nú á þessu ári hefur verið haft náið samband við aðila atvinnurekstrarins, bæði í sjávarútvegi og iðnaði sérstaklega. Samin hefur verið þessi skýrsla um iðnþróunina, „Íslenzkur iðnaður og EFTA“, sem dr. Guðmundur Magnússon tók saman, og það hafa verið haldnir óteljandi fundir með þessum aðilum, bæði af hálfu ráðh. og embættismanna, með iðnrekendum í einstökum greinum og sameiginlega. Það hefur komið fram, að á s.l. vori voru skipaðar 18 nefndir í hinum ýmsu iðngreinum hér, og stöðugir fundir voru þá með þessum nefndum, þar sem afstaðan til EFTA-aðildar var skýrð fyrir mönnum og af hálfu iðnrekenda var gerð grein fyrir aðstöðu iðnaðarins til þess að taka á sig skuldbindingar, sem í EFTA-samningnum kynnu að felast. Síðan voru þessi fundahöld tekin upp aftur í haust jafnhliða því, sem margir fundir voru haldnir af hálfu ráðherra iðnaðarmála, viðskiptamála og fjármála með stjórnendum Félags ísl. iðnrekenda, og leiddu fundirnir til þess, að ríkisstj. skýrði fyrir þeim ráðagerðir, sem hún hefði í huga í sambandi við EFTA- aðildina, og gerði grein fyrir ýmsum málum, sem unnið hefur verið að í sambandi við hugsanlega EFTA-aðild. Allt bendir til þess, að iðnrekendur telji sér hag í því að vera meðmæltir því, að Ísland gerist aðili að EFTA, en fram kom í almennri atkvgr., að mikill meirihluti þeirra var fylgjandi þessu.

Ég er að nefna þetta m.a. til að sýna, hversu kynlegir þessi samsetningur er í nál., að ekkert hafi gerzt og við stöndum algjörlega í sömu sporum. Það, sem hefur gerzt m.a., svo að ég nefni eitthvað af þessum hlutum, er þeim mönnum kunnugt um, sem skrifa þessi nál. Fjmrh. skipaði fyrri hluta ársins eftir ákvörðun ríkisstj. sérstaka nefnd til endurskoðunar skattalaga, og hafði nefndin það verkefni að kanna áhrif væntanlegrar EFTA aðildar á skattalega aðstöðu fyrirtækja. Nefndin hefur bein fyrirmæli frá fjmrh. um að miða till. sínar við, að skattaleg aðstaða fyrirtækja hér verði ekki lakari en gerist í EFTA-Iöndunum. Það hefur verið skýrt frá því, að þessi nefnd sé komin langt í störfum sínum. Hún hefur skipt þeim í tvennt. Er þar um að ræða till., sem við gerum ráð fyrir, að komi til framkvæmda við næstu álagningu skatta, og þar í eru ákvæði, er auðvelda eiga slit og samruna fyrirtækja skattalega séð, einnig ákvæði, sem draga úr eða koma í veg fyrir tvísköttun arðs af rekstri fyrirtækja og gera eiga hlutabréf þeirra fýsilegri að eiga, kaupa og selja en verið hefur, og í þriðja lagi breyting á afskriftareglum, er miðar að því að breyta þeirri þróun, er rýrt hefur stórlega raunvirði afskrifta undanfarið. Það hefur ekki verið nein launung á starfsemi þessarar nefndar, eins og ég sagði áðan. Höfundi þessarar nefndar á að vera eins kunnugt um þetta og ég geri ráð fyrir að öðrum þm. sé.

Meðal atriða, sem hefur verið lýst yfir, að verið væri að vinna að, er það að skapa iðnaðinum aðstöðu og semja reglur um, að við útflutning geti íslenzkir framleiðendur iðnaðarvara boðið erlendum kaupendum útflutningslán eða greiðslufrest, sem er sambærilegt við það, sem býðst erlendis. Jafnframt er verið að kanna það, og hefur Seðlabankinn eftir ósk ríkisstj. forgöngu um það í samráði við fjmrn., viðskmrn. og iðnmrn., hvaða reglur gildi hjá nágrannaþjóðum okkar og öðrum, sem eiga að stuðla að eflingu útflutningsiðnaðar með útflutningsábyrgðum. Þar er um að ræða alveg nýtt kerfi, ef því yrði komið á, í okkar efnahagsmálum, sem ekki hefur verið til hér áður, en sem hefur auðvitað greitt stórkostlega fyrir útflutningsmöguleikum Dana og Norðmanna og þeirra þjóða, sem njóta slíkra útflutningslánaábyrgða. Með tilkomu Norræna iðnþróunarsjóðsins skapast aðstaða til þess annaðhvort að stofna sérstakan aðlögunarsjóð eða veita fé úr einhverri deild norræna sjóðsins eða íslenzka Iðnlánasjóðsins á aðlögunartímabilinu til þess að greiða fyrir því, að iðnaðurinn aðlagist þeim breyttu viðhorfum, sem verða við EFTA-aðildina, og enn fremur til þess að veita mikið fé til tækninýjunga. Gert er ráð fyrir því, að veita sérstök hagstæð lán eða beinlínis framlög til rannsókna og til tækninýjunga til markaðskannana. Það hefur líka verið unnið að því að reyna að afla iðnaðinum tækniaðstoðar í samvinnu við Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, og mér er nokkuð kunnugt um það bæði í sambandi við málmleit og aðrar greinar, sem ég skal ekki tefja tímann á að fara út í.

Það er eitt atriði, sem ríkisstj. hefur tekið fram í viðræðum sínum við iðnrekendur og er mjög þýðingarmikið, þegar við göngum í EFTA, að fylgzt verði gaumgæfilega með áhrifum væntanlegrar aðildar að EFTA á iðnaðinn — ekki aðeins á einstakar greinar iðnaðarins, heldur á iðnaðinn í heild. Þetta mundi leiða til þess, að ef þróunin verður óhagstæðari í einstökum greinum, alveg sérstaklega óhagstæð eða eitthvað því um líkt, þá þarf að gera ráðstafanir til þess að koma þeim til sérstakrar hjálpar og einnig hitt, að fari heildarþróunin á annan veg en markmiðið er með EFTA-aðildinni, þá verður að endurskoða okkar afstöðu og e.t.v. slíta tengslum okkar við EFTA, ef svo ber undir.

Það hefur réttilega verið vikið að því hér, að það þarf margt að breytast hér til þess, að við getum haft það hagræði af EFTA-aðildinni, sem menn óska. Þar hefur sérstaklega verið m.a. vikið að fræðslumálum, sem hér bar á góma áðan. Ríkisstj. ákvað á fundi sínum þ. 16. þ. m. að skipa nefnd, sem ætti að vinna að því að rannsaka og gera till. um verkkennslu iðnverkafólks og stofna til endurhæfingarstarfsemi og þjálfunar þess, þegar umskipti verða í iðngreinum vegna vaxandi iðnþróunar, þannig að nýjar iðngreinar vaxa upp eða eldri iðngreinar eflast með skjótum hætti samhliða samdrætti í öðrum. Einnig telur ríkisstj., eins og segir í bréfi til þeirra aðila, sem eiga að tilnefna menn í þessa nefnd, nauðsynlegt að íhuga sjóðsmyndun í þeim tilgangi að tryggja því iðnverkafólki bætur, sem sagt er upp starfi, án þess að það sé vegna tilverknaðar þess sjálfs í líkingu við það, sem nú gerist á Norðurlöndum og meðal annarra iðnaðarþjóða. Þeir aðilar, sem hafa verið beðnir um að tilnefna menn í nefnd til að kanna þessi atriði, eru: Tryggingastofnun ríkisins, Iðnfræðsluráð, Iðja, félag verksmiðjufólks í Rvík, og Félag ísl. iðnrekenda, en iðnmrh. mun skipa fimmta mann í nefndina, en hann mun verða form. hennar. Það er svo gert ráð fyrir því að leggja áherzlu á það við nefndina, að hún reyni að hraða störfum sínum sem mest, þannig að ef hún gerði till., sem stjórnin teldi nauðsynlegt að koma í framkvæmd, og atbeina löggjafans þyrfti með, þá gæti komið til kasta Alþ. að taka afstöðu til þess á síðari hluta þingsins.

Það er einnig verið an athuga sérstakt námskeiðshald fyrir stjórnendur fyrirtækja, sem ekki er enn búið að ganga endanlega frá. Það er eitt af þeim atriðum, sem lögð hefur verið réttilega áherzla á af mönnum og þarf að

kanna vel. Ég veit, að iðnrekendur og stjórnendur atvinnufyrirtækja hér eru mjög jákvæðir í þessum efnum. Þetta hefur komið fram á námskeiðum, sem Stjórnunarfélag Íslands hefur haldið, en það, sem ég er að tala hér um, eru miklu umfangsmeiri námskeið en áður hafa verið haldin hér á landi.

Ég skal nú verða við beiðni hæstv. forseta um að lengja ekki fundartímann. Ég vil aðeins ljúka máli mínu með því að lýsa því yfir, að því lengri og meiri sem könnun mín á hugsanlegri EFTA-aðild og aðstöðu iðnaðarins hefur orðið og með hliðsjón af þeirri rannsókn, sem þar hefur farið fram, þeim mun líklegra tel ég, að hér verði um að ræða mjög heillaríkt spor fyrir íslenzkan iðnað, ef við tökum þátt í EFTA. Ég skal játa það, að í upphafi var kannske lögð meiri áherzla á EFTA-aðildina vegna sjávarútvegsins og talið fyrst og fremst honum nauðsynlegt og mest hagræði fyrir hann að EFTA-aðildinni, en mín niðurstaða er nú orðin sú við nánari kynni af málinu, að það sé ekki síður iðnaðinum mikils virði, að við gerumst aðilar að EFTA. Ég hygg, að með því móti skapist og hafi þegar skapazt, sem ég reyndar hef gert grein fyrir áður á öðrum vettvangi, nýtt viðhorf til iðnaðarins. Menn líta á hann öðruvísi en fram til þessa, þ.e. að það sé einmitt fyrst og fremst á iðnaðarins herðum, sem það hvílir að veita móttöku vinnuafli á komandi áratugum, og það er af eðlilegum ástæðum, að það er fyrst og fremst þessi atvinnugrein, sem gæti verið þess umkomin og megnug. Að sjálfsögðu felst ekki í því, að það sé ekki brýn nauðsyn að efla aðrar atvinnugreinar okkar, og auðvitað verður sjávarútvegurinn um langa framtíð sá undirstöðuatvinnuvegur, sem afkoma almennings byggist á, en að mínum dómi hygg ég, að EFTA-aðildin verði sú mesta lyftistöng, sem íslenzkum iðnaði hafi boðizt nokkru sinni, en það er auðvitað reynslan ein, sem fær skorið úr um það, en ég hygg, að þetta verði niðurstaðan.