18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (2956)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég var búinn að ákveða að taka til máls, þegar þessi þáltill. var til fyrri umr., en þar sem hæstv. viðskmrh. var mjög ókyrr í þingsalnum, þegar umr. fór fram í síðara skipti, þá hætti ég við það þá, en það gleður mig, að hann skuli vera nú viðstaddur þessa umr.

Þáltill. sú, sem hér er til umr., er aðeins tvær línur. En þó gæti þessi ályktun reynzt það stór og áhrifamikil fyrir þjóðina, að Alþingi Íslendinga hafi ekki fjallað um eins veigamikið og áhrifaríkt mál um árabil. Fer þetta alveg eftir því, hvernig þróun mála verður í Evrópu í náinni framtíð og hvernig við bregðumst við þeim breytingum, sem kunna að verða þar, og líklegt er að verði eins og nú horfir. Á hinn bóginn fer það eftir því, hvaða ráðstafanir verða gerðar hér innanlands til að gera það mögulegt, að útflutningsatvinnuvegirnir verði a.m.k. á einhverjum veigamiklum sviðum samkeppnishæfir á næstu 4–7 árum á mörkuðum EFTA-ríkjanna, en ekki á 10 ára tímabili, eins og áróðursmeistarar ríkisstj. vilja vera láta, því að þá eiga allir tollar að vera niður felldir.

Það liggur því í hlutarins eðli, að aðlögunartíminn er mikið skemmri en þessi 10 ár. Um hitt má deila, hve langur hann er. Ég geri ekki ráð fyrir því, að við getum staðið utan við hvers konar samvinnu eða samtök á þessum sviðum til lengdar, en það þýðir ekki það, að við eigum að fara út í slíkt blindandi án raunhæfs mats á stöðu okkar atvinnuvega og þá fyrst og fremst iðnaðarins, eins og mér virðist, að eigi að gera nú, og eins og VI. fskj., sem þessari þál, fylgir, ber með sér, þ.e. skýrsla Guðmundar Magnússonar prófessors um iðnaðinn og EFTA. Þessi skýrsla er, þegar hún er athuguð, ekkert nema áróðursplagg fyrir inngöngu okkar í EFTA og hefur því mjög lítið gildi fyrir hv. alþm., er þeir ætla að taka afstöðu til málsins. Þó að hann segi, að það sé auðsærra, hverju við sleppum, en hvað við hreppum, þá gengur hann að mestu fram hjá því, sem auðsærra er, en reynir að skýra þær hillingar og færa þær nær okkur, sem hæstv. viðskmrh. hefur nótt og dag fyrir augum sér, svo að allt annað virðist horfið sjónum hans.

Dagblaðið Vísir sagði hér á dögunum eitthvað á þá leið, að niðurstaða í EFTA-málinu væri fundin, prófessorinn hefði talað. Ef afstaða hæstv. ríkisstj. hefur alltaf verið byggð á jafntraustum grunni og niðurstaða prófessors Guðmundar, sem byggð er á hans eigin skýrslu, þá þarf engan að undra lengur, þó að mörgu hafi skolað fyrir borð af viðreisnarskútunni á liðnum árum. Hvers vegna vantar það í skýrsluna, sem auðsærra er? Var prófessor Guðmundi sagt að líta fram hjá því eða a.m.k. draga það ekki fram í dagsbirtuna, sem neikvætt væri í málinu, eða gera lítið úr því og breiða yfir það, eftir því sem föng eru á? Eða þorði hæstv. ríkisstj. ekki að sjá framan í þetta mál í réttu ljósi?

Hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan, að það væri ekki hægt að gera iðnþróunaráætlun, fyrr en við værum búnir að ganga í EFTA, það yrði að miða hana við þetta sérstaka markaðssvæði, annars væri allt verkið til einskis unnið. Hvers konar málflutningur er þetta? Ef stjórnarliðið er sammála um að ganga inn í EFTA að athuguðu máli og það sýnir fram á, að það sé hagkvæmt, felst engin áhætta í því að gera iðnþróunaráætlun, nema hæstv. ríkisstj. óttist það, að sú athugun og áætlun muni leiða í ljós, að innganga í Fríverzlunarbandalagið sé ekki tímabær, ekki hagkvæm fyrir okkur. Áhættan við slíka áætlunargerð getur ekki falizt í öðru. En ef Fríverzlunarbandalagið skyldi nú blátt áfram leysast upp á næstunni eins og hugsanlegt er, en við værum þá búnir að ganga í EFTA, gera iðnþróunaráætlun og framkvæma hana að einhverju leyti, er þá ekki enn meiri áhætta í slíku en að huga að okkar innri málum í bili og sjá síðan til, hver þróunin verður?

Þótt hæstv. viðskmrh. gengi fram hjá þessu atriði í ræðu sinni áðan, þá var allur málflutningur hans þannig, þegar hann ræddi um iðnþróunaráætlunina, að af honum er ekki hægt að draga aðra ályktun en hæstv. ráðh. telji, að slíkt ástand yrði okkur hættulegt og þá verr farið en heima setið. En verður ekki sagt þá, að þar sem við verðum á annað borð búnir að byggja upp útflutningsiðnað okkar fyrir þennan markað, þegar þar að kemur, þá verði ekki aftur snúið, og því séum við neyddir til að ganga inn í Fríverzlunarbandalagið? Í raun og veru færði hæstv. viðskmrh, fullgild rök fyrir þessu í ræðu sinni hér áðan. Og hvers virði yrði þá 12 mánaða úrsagnarákvæðið fyrir okkur? Ég held, að enginn hafi í raun og veru komið fram með fyllri rök fyrir því, að það sé hreint glapræði að ganga í EFTA nú og byggja upp okkar framleiðslu fyrir EFTA-markaði, á meðan allt er í óvissu um framtíð bandalagsins, en einmitt hæstv. viðskmrh. sjálfur í ræðu sinni.

Nú ætti hvert barn að geta séð það, að það, sem skiptir mestu máli fyrir þjóðina, er að hafa aðgang að hlutlausri greinargerð um alla atvinnuvegina, hvernig þeir standa miðað við það ástand, sem verður eftir 5–7 ár, eftir að EFTA-aðild verður samþ. Það er gott út af fyrir sig að benda á, hverjir séu eða verði möguleikar á framleiðslu fyrir útflutning, en þarf ekki líka að reyna að gera sér grein fyrir því, hve langan tíma það taki að byggja slíka framleiðslu upp og koma henni í það form, að hún sé samkeppnishæf á jafnréttisgrundvelli? Og verður ekki aðlögunartíminn að miðast við það? Og er ekki eins nauðsynlegt, að þjóðinni sé gerð grein fyrir því, hvað tapast, hvað sé vonlítið að starfrækja áfram, hvaða greinum þurfi að umbylta og hvað það taki langan tíma? Er ekki líklegra, að stjórnarvöld og þá ekki. síður atvinnurekendur mundu reyna að berja í brestina í tíma, eftir því sem skynsamlegt þætti, ef það lægi fyrir, áður en málið er afgreitt hér á hv. Alþ., hvernig staðan er í hverri grein? Og þá mundi þessi stutti aðlögunartími miklu frekar nægja.

Við lestur þeirra fskj., sem þál. fylgir, verður ljóst, hvað málið er í raun og veru lítið undirbúið, hvað þetta snertir, og þegar farið er ofan í hverja einstaka iðngrein í skýrslu prófessors Guðmundar og athuguð er umsögn hans og svo niðurstaða í hverju tilfelli, hlýtur þessi spurning að vakna: Er iðnaður okkar virkilega svona vel á vegi staddur, að líklegt sé, að hann standist samkeppni þróuðustu iðnaðarþjóða veraldarinnar í sem næst hverri grein? Hvaða heilvita maður trúir því? Er þessi niðurstaða prófessors Guðmundar í samræmi við það, sem áður er vitnað til í skýrslu hans, að auðsærra sé, hverju við töpum, en hvað vinnst við EFTAaðild? Er ekki hætt við, að miklir fjármunir fari að óþörfu í súginn, ef þetta atriði liggur ekki fyrir, áður en ákvörðun er tekin — ef til vill ekki óverulegur hluti af Iðnþróunarsjóðnum? Hvaða tilgangi þjónar það að setja fjármuni í það að breyta þeim fyrirtækjum og endurbyggja þau, sem komast í vonlitla eða vonlausa aðstöðu, þegar tollverndin hverfur og verði það gert, hver ber þá ábyrgðina á slíku? Er það ekki fyrst og fremst hæstv. ríkisstj.? Hún hefur vanrækt að láta gera viðhlítandi hlutlaust mat á hverri grein og ekki gert sér eða öðrum neina grein fyrir því, hvaða tíma það taki að gera hvert fyrirtæki samkeppnishæft við hina erlendu framleiðslu. Í stað þess ber hún á borð fyrir þjóðina fullyrðingar byggðar á óskhyggju, og í mörgum tilfellum er um hreinar og ómengaðar blekkingar að ræða.

Sú spurning hlýtur að vakna í hugum flestra, hvort þetta mál sé svo hæpið að dómi hæstv. ríkisstj., að vonlítið sé að koma því í gegnum Alþ, nema þyrla í kringum það hjúp blekkinga. Sé það ekki, hvers vegna er þetta gert? Því eru fskj, með ályktuninni með þessu yfirbragði? Og hvers vegna flytur hæstv. viðskmrh. framsöguræðu sína fyrir málinu með sama yfirbragði? Er hægt að búast við öðru, en almenningur í landinu fyllist tortryggni, þegar svona málflutningur er við hafður? Er hægt að vænta annars? Hæstv. viðskmrh. sagði hér um daginn, með leyfi forseta:

„Í ritgerð sérfræðinganna er það nefnt sem dæmi í þessu sambandi, að ef fluttar væru út árlega 900 þús. loðsútaðar gærur í stað 900 þús. saltaðra gæra, yki þetta útflutningstekjur um því sem næst 300 millj. kr. á ári.“

Hvaða tölur eru þetta? Hvernig eru þær fengnar? Heildarframleiðslan nú er um 800 þús. gærur á ári. Um 50 þús. munu vera að meðaltali það gallaðar, að þær eru strax teknar út úr heildarmagninu, og reynslan hefur sýnt, að um 40% af þeim, sem eftir eru, eru ekki hæfar til slíkrar vinnslu. Það eru því um 450 þús. gærur miðað við óbreytta framleiðslu, sem hæfar eru til loðsútunar. Hafi þetta reikningsdæmi sérfræðinganna raunverulegt gildi, sem byggja mætti á, liggur í augum uppi, að ákvarðanir hljóta að hafa verið teknar um að tvöfalda sauðfjárframleiðsluna í landinu. Þar sem hæstv. viðskmrh. notar svo umrætt dæmi sem rökstuðning fyrir aðild að Fríverzlunarbandalaginu og það er einmitt sá ráðh., sem valdamestur virðist vera innan ríkisstj., er tæpast hægt að ætla annað en þessi skilningur sé réttur, því að annars væri þessi málflutningur hreinar blekkingar, gerður í þeim tilgangi að villa um fyrir þjóðinni — eða er það líklegra? Ekki nema þessi hæstv. ráðh. hafi gert nýja uppgötvun, þ.e. að hægt sé að auka framleiðslu á ull og gærum, en minnka kjötframleiðsluna, eins og Alþýðublaðið virðist halda fram annað slagið.

Hæstv. viðskmrh. sagði fleira í sinni ræðu s.l. mánudag til þess að gleðja þjóðina og þá ekki sízt bændastéttina með t.d. þessu, með leyfi forseta: „Áhrif aðildar að Fríverzlunarsamtökunum á íslenzkan landbúnað yrðu eingöngu jákvæð. Reglur Fríverzlunarsamtakanna taka yfirleitt ekki til viðskipta um landbúnaðarvörur. En af aðild Íslands mundi það leiða, að markaður fengist á Norðurlöndum fyrir 1700 tonn af dilkakjöti á talsvert hærra verði yfirleitt en nú fæst í aðalmarkaðslandinu, Bretlandi.“

Herra forseti, hv. þm. Er hægt að skilja þessi ummæli á annan veg en þann, að ef af aðildinni verður nú, getum við selt 1700 tonnum meira en nú er selt til Norðurlanda. Hæstv. ráðh. er að tala um ávinninginn, sem leiðir af aðildinni. Ávinningurinn getur þó varla verið annað en sú aukning, sem kann að verða á sölunni frá því, sem hún er. Er þessi tala raunveruleg — þessi 1700 tonn? Sé hún það ekki, hver er þá tilgangurinn með að nota þessa tölu? Við skulum athuga þetta ögn nánar. Kjötútflutningurinn til þessara landa hefur verið sem hér segir s.l. þrjú ár: til Noregs 1967 283.7 tonn, 1968 103.7 tonn, 1969 321.9 tonn; til Danmerkur 80.3 tonn 1967, 1968 64.8 tonn og 1969 52.9 tonn; til Finnlands 1967 29 tonn, 1968 39.7 tonn, 1969 42.1 tonn; til Svíþjóðar 1969 329 tonn. Til Danmerkur hefur verið frjáls kjötinnflutningur á dilkakjöti héðan, en markaður ekki þolað meira magn en að framan segir. Það er ekki nóg að fá innflutningsleyfi fyrir einhverju ákveðnu magni af kjöti. Það þarf að vera möguleiki til að selja þetta magn í viðkomandi löndum. Ekki skil ég það, að þó að við göngum í Fríverzlunarbandalagið, aukist áhugi Dana á íslenzku dilkakjöti. Sé málið athugað af raunsæi, er það mikil bjartsýni að gera ráð fyrir því, að söluaukning til þessara landa nái 1000 tonnum hvað þá meira á ári næstu árin. Líklegt er, að þetta magn yrði töluvert minna — ekki sízt, ef Svíar stórauka sauðfjárframleiðslu sína, eins og þeir gera nú ráð fyrir.

Hv. 9. þm. Reykv., bóndinn í Selárdal, virtist hafa illa villzt í viðreisnarþokunni eftir málflutningi hans að dæma í sjónvarpinu á mánudaginn og hér í Alþ. á þriðjudag. Hv. þm. sagði, að ávinningur landbúnaðarins af EFTA-aðild væri m.a. sá, að búið væri að selja dilkakjöt til Norðurlanda — samtals 1700 tonn — og við losnuðum við að borga toll af þessu magni í viðkomandi löndum. Þetta er mikill misskilningur og sýnir í raun og veru, að m.a.s. hv. þm. hafa ekki kynnt sér þetta mál betur en þetta. Það er aðeins í Svíþjóð, sem greiðsla tolla félli niður við EFTA-aðild. Hún mundi haldast áfram í Noregi og Finnlandi, en í Danmörku höfum við ekki þurft að borga innflutningstoll fram að þessu. Fleira mætti tína til, sem sýnir, hvað haldgóður þessi málflutningur er og ekki til þess fallinn að eyða þeirri tortryggni, sem meiri hl. þjóðarinnar bar þegar til núv. valdhafa, áður en EFTA-málið kom til.

Það er ein stétt í þjóðfélaginu, sem er mjög ánægð með þessa stefnu; það er ekki láglaunafólkið. Það sér, að nú er verið að breyta tekjuöflun ríkisins á þann veg að minnka skattlagninguna á óþarfavarningi og lúxusvörum og flytja hana yfir á nauðþurftir almennings. Það er verið að minnka enn kaupmátt launa þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Þessir herrar, sem nú hafa öll ráð í hendi sér, segja, að barnafjölskyldunum verði bætt þetta upp og tryggingarhöfum verði bætt þetta upp með auknum fjölskyldubótum og tryggingabótum miðað við kaupgjaldsvísitölu. En allir vita það, sem á annað borð vita nokkuð, að eins og kaupgjaldsvísitalan er reiknuð út er hún enginn mælikvarði á kaup þeirra, sem eru í lágum launaflokkum. Þessi kaupgjaldsvísitala var reiknuð út eftir neyzlunni, eins og hún var, þegar kaupmáttur launa var mestur, þegar allir höfðu næga vinnu og gátu unnið eins langan vinnudag og hver vildi. Þessi vísitala er því enginn mælir á kaupmátt launa þeirra, sem hafa aðeins fyrir nauðþurftum, en það eru margir í dag; viðreisninni sé lof fyrir það. Það er heldur ekki bændastéttin. Hún hefur ekki hagnað af EFTA-aðild að áliti bændanna sjálfra. Það kom í ljós á stéttarsambandsfundi bænda s.l. fimmtudag. Þeir vita, að þeir hafa ekki hagnað af vinnslu þeirra gæra, sem verða framleiddar af sérfræðingunum í viðskmrn., eða af sölu kjöts til Norðurlanda fram yfir sölumöguleika þar, en þeir gera sér grein fyrir, að hækkaður söluskattur þýðir hækkaður rekstrarkostnaður og þar af leiðandi hækkað búvöruverð til neytenda. Þeir vita, að tollalækkun á innfluttum iðnvarningi þýðir stórlækkað verð á þessum vörum. Þeir gera sér grein fyrir því, að það muni þýða, að stóraukast mun neyzla á þessum vörum og líklegt er, að samtímis minnki neyzla á innlendri framleiðslu — ekki sízt landbúnaðarvörum. Neyzluvenjur eru oft fljótar að breytast, ekki sízt þegar þær eru knúnar fram með þessum hætti. Ég gæti vel trúað því, að hæstv. viðskmrh. væri ekkert mótfallinn slíkri neyzlubreytingu. En hvað um hæstv. landbrh.? Er allur máttur úr honum, eða er hann hættur að fylgjast með þessari þokkalegu taflmennsku? Og hvað um þá hv. þm., sem eru fulltrúar bændanna? Eru þeir viljalaus verkfæri hér á hv. Alþ.? Það, sem verður að gera til að koma í veg fyrir slíka neyzlubreytingu og til þess, að ekki minnki kaupmáttur lágra launa frá því, sem nú er, er að fella niður allan söluskatt af landbúnaðarvörum og fiski — af allri innlendri matvælaframleiðslu. Annað er ekki verjandi. Það þýðir vitanlega ekki fyrir neinn hv. alþm., sem nú samþykkir EFTA-aðild, að segja, ef hann samþykkir aðildina, að hann hafi samt verið á móti söluskattinum eða tollalækkunarfrv. eins og framkvæmdin er. Ef þessir hv. þm. fá þessu ekki breytt á neinn hátt, en standa þó að aðildarsamþykktinni, eru þeir hinu sömu orðnir meðábyrgir að þessari nýju jafnaðarstefnu, þ.e. að gera þá fátæku fátækari, en þá ríku ríkari.

En það eru kaupmennirnir, sem eru heldur betur kampakátir yfir nýju jafnaðarstefnunni.

Þeim þykir ekkert að því, að tollar séu lækkaðir. Þeim mun minna rekstrarfé þurfa þeir. Þessar ráðstafanir koma líka til með að auka innflutninginn með breyttri neyzlu. Fæstir þessara kaupmanna hafa aðhyllzt, að hollur sé heimafenginn baggi. Í þeirra augum er allt slíkt tóm fávizka. Hækkaður söluskattur eykur líka rekstrarfé kaupmanna og annarra verzlunarfyrirtækja, og þó að blásnauður almenningur sé píndur um söluskatt af öllum lífsnauðsynjum nema mjólk, er ekki þar með sagt, að hann skili sér allur í ríkiskassann. Það mun því ekki vanta neitt á jólagleðina hjá höndlarastéttinni í þetta sinn. Viðreisnin sér sannarlega um sína nánustu.

En ætli bændur og láglaunafólk fari nú ekki að sjá, fyrir hverja er stjórnað í þessu landi, og hugsi sitt ráð betur en hingað til. Það var mjög ánægjulegt að sjá hnjóðsyrði Morgunblaðsins til bændasamtakanna s.l. laugardag — þessa aðalmálgagns ríkisstj. Það leyndi sér ekki óttatónninn og ekki er ólíklegt né ómaklegt, þó að þessi ótti Morgunblaðsins reyndist ekki með öllu ástæðulaus á dómsdegi, enda varla seinna vænna fyrir bændur að hætta að kjósa af vana. Þeirra hlutur hefur ekki verið svo beysinn, og þó sýnist ekki horfa nú til betri áttar, eins og stendur, enda var boðskapur hv. 7. landsk. þm. Sveins Guðmundssonar þannig, að bændur þurfa varla að vera í vafa um stefnuna í landbúnaðarmálum framvegis. Þar leyndi sér ekki, að hann taldi, að iðnaðurinn gerði kröfu til þess að fá hráefni frá landbúnaðinum með heimsmarkaðsverði eða fá það innflutt annars. Og varla verður hæstv. viðskmrh. þá þrándur í götu, ef að líkum lætur. Það leynir sér ekki heldur, að hv. 7. landsk. þm. er farið að dreyma um að koma Íslandi inn í Fríverzlunarbandalag Evrópu. Menn ættu nú ekki að vera í vafa lengur um, hvert þessir herrar stefna.

Þó að hæstv. ríkisstj. hafi gersamlega vanrækt að kynna þetta mál fyrir þjóðinni, má e.t.v. segja, að það atriði sé ekki eins veigamikið og hitt — að gera sér ljóst, hvað þurfi að gera og hvort það sé hægt innan þeirra tímamarka, sem aðlögunartíminn er miðaður við. Hitt hljóta þó allir að sjá og viðurkenna, að þessi mál eru þannig vaxin, að það hlýtur að vera skylda stjórnarvalda að kynna þau þjóðinni, kosti þeirra og annmarka á sem hlutlausastan hátt, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Það hlýtur jafnvel að orka tvímælis, hvort það er ekki siðferðileg skylda Alþ. að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ef þjóðaratkvæðagreiðsla á rétt á sér á annað borð um nokkurt mál, hvaða mál eru það þá, sem þjóðin á að skera úr um, ef það er ekki þetta mál? E.t.v. telur hæstv. ríkisstj., að það sé komið. svo illa fyrir öllum þorra almennings í landinu — vegna bágra lífskjara og öryggisleysis í atvinnumálum, sem stafar af stjórnleysi síðasta áratugar — að þó að almenningur viti ekkert um það, sem aðallega skiptir máli, ef af EFTA-aðild verður, þá sé viðreisnarástandið það óbærilegt, að allur fjöldinn aðhyllist einhverja breytingu frá því, sem er, jafnvel þó að rennt sé út í hana með bundið fyrir bæði augun, eins og mér virðist, að nú eigi að gera í þessu sambandi, og því sé óhætt að standa svona að þessu máli. En ekki ætti hæstv. ríkisstj. að treysta því, að þjóðin láti leiða sig út í hvað, sem er, þrátt fyrir allt öryggisleysið.

Það er útbreidd skoðun í landinu, að hæstv. ríkisstj, sé fyrir löngu búin að missa fylgi meiri hl. þjóðarinnar og fylgishrunið fari dag hvern vaxandi. Þar af leiðir, að ört vaxandi hluti þjóðarinnar lítur með tortryggni á allt, sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar gera og láta frá sér fara. Það gæti komið að því, sé svona unnið til lengdar, að almenningi yrði nóg boðið í þessu efni. Enda er það skylda þjóðarinnar að vera vel á verði ekki sízt, þegar stór og afdrifarík mál eru til afgreiðslu hér á hv. Alþ., og hafi almenningur tilfinningu fyrir því, að hætta sé á ferðum fyrir þjóðina, þá er það skylda hennar og jafnframt þjóðfélagsleg nauðsyn, að gripið sé í taumana á einhvern hátt. Þetta er enn nauðsynlegra en ella, þegar í valdastólum situr ríkisstj., sem hefur hlaðið sér þann minnisvarða að fara öfugt að öllu miðað við kosningaloforð og stefnuyfirlýsingar. Það er sannarlega freistandi að lesa upp erfðaskrá hæstv. ríkisstj. á viðreisnartímabilinu og bera hana saman við fyrirheitin. Það yrði fróðleg og athyglisverð skýrsla, sem er allt annað en þægilegt fyrir hæstv, ríkisstj. og flokka hennar að horfast í augu við ekki sízt, þegar nær dregur kosningum, en ég læt það bíða betri tíma.

En sú spurning hlýtur að sækja á margan manninn þessa dagana: Hvað liggur á? Hvað rekur svo á eftir þessu máli, að nauðsynlegt sé að afgreiða það nú af skyndingu, án þess að nokkur geti sagt um það á þessari stundu, hvað við erum að fara út í? Eru það markaðsmálin? Er það vegna útflutningsframleiðslu okkar nú, sem þetta er knýjandi? Nei, það kom svo greinilega fram í umr. fyrra mánudag, að þar er ekki ástæðuna að finna. Við erum ekki í neinum vandræðum með að selja framleiðslu okkar nú; öðru nær. Við gætum selt miklu meira magn en við framleiðum nú, og verðið hefur sjaldan eða aldrei verið hagstæðara, ef á heildina er litið. Það er því ekki viðskiptanna vegna, sem þarf að hraða málinu. Hafa þá EFTA-þjóðirnar sett okkur það skilyrði, að við verðum að vera búnir að taka ákvörðun innan vissra tímamarka? Ekki hef ég heyrt neitt um það. Það hefur ekki komið fram, svo að ég hafi vitað. Hafa þá Norðurlöndin sett eitthvert skilyrði fyrir þeim fjárframlögum, sem þau hafa heitið að leggja í Iðnþróunarsjóðinn, þannig að það knýi á um að afgreiða málið nú? Ekki hefur það heyrzt. Enda væri þá orðinn sá svipur á því máli, sem ekki er í samræmi við túlkun á tilgangi þessarar sjóðsstofnunar, og er því fjarstætt með öllu, að það breyti einhverju í þessu máli.

En hvað er það þá, sem knýr á? Hvers vegna er þessu máli hraðað svona, þegar ekkert sérstakt knýr á, en við á hinn bóginn stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að margt er lítt eða ekkert athugað í þessu sambandi — jafnvel það, sem skiptir mestu máli fyrir þjóðina, t.d. hvað þurfi að gera í hinum ýmsu iðngreinum og hvað það taki langan tíma að gera það? Ég skal ekki segja um, hvað það er, og ég sé ekkert, sem réttlætir það að samþykkja aðild nú án iðnþróunaráætlunar. Og það eru fleiri en ég eða við framsóknarmenn, sem leita eftir því þessa dagana, hvað það sé, sem réttlæti það að afgreiða þetta mál nú og það fyrir jól. Ég óska mjög eftir því, að hæstv. viðskmrh. upplýsi þetta á viðhlítandi hátt. Menn eru farnir að velta því fyrir sér, hvort þessi skjóta ákvörðun um málið geti staðið í nokkru sambandi við það, að tvennar kosningar eru á næsta leiti að vori, sveitarstjórnarkosningar og svo kosningar til Alþ. vorið 1971. En hvernig er hægt að setja afgreiðslu þessa máls eða stofnun Iðnþróunarsjóðs í samband við þessar kosningar? Ég sé ekki, að það sé hægt og sé raunar fráleitt með öllu.

En hvað er það þá, sem knýr á? Það dytti víst fáum í hug — a.m.k. ekki sæmilega viti bornum mönnum — að fara með lítið æfða menn í íþróttakeppni á erlendan vettvang; og væri það gert, mundi enginn fara í grafgötur um, hvernig fara mundi í slíkri keppni. En er það ekki einmitt það, sem nú er verið að stofna til með iðnað okkar? Það er verið að taka ákvörðun um það, að hann fari í hliðstæða keppni og það við þær þjóðir, sem lengst eru komnar á þessu sviði. Hafa okkar iðnaði verið veitt þau skilyrði, að hann hafi getað tekið sjálfvirknina í þjónustu sína, eða verður það gert innan þeirra tímamarka, sem aðlögunartíminn segir til um? Hefur iðnaðurinn aðgang að því fjármagni, að það hindri ekki eðlilegan rekstur, eða verður séð um það og þá með ekki verri kjörum en iðnaður EFTA-landanna býr við? Eigum við ekki eftir að byggja upp að mestu leyti okkar útflutningsiðnað? Það kostar mikla fjármuni. Og með hvaða vaxtakjörum fást þeir fjármunir? Þessi iðnaður á að keppa við fyrirtæki, sem eru í flestum tilfellum búin að afskrifa sínar fjárfestingar. Er ekki auðsær aðstöðumunurinn fyrir þá, sem hugsa eitthvað á annað borð? Hefur okkar iðnaðarfólk nú þá verkkunnáttu og þá starfsaðstöðu, að það verði, þegar keppnistíminn hefst, hægt að búast við, að það standist slíka keppni í veigamestu greinunum? Sé það ekki, hvað þá?

Áróðursmeistarar hæstv. ríkisstj. hafa haldið því fram, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að ganga í EFTA til að geta bætt kaupmátt launa alls almennings í landinu — jafnvel bændanna líka. Guðmundur Magnússon prófessor kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, að það sé okkar eina von í þessari keppni, hvað vinnulaun séu hér lág miðað við það, sem er í EFTA-löndunum, og á þann hátt getum við brúað það bil, sem kynni að stafa af því, að aðrir kostnaðarliðir séu hærri hér en í umræddum löndum. Eitt rekur sig á annars horn. Hvaða heilvita manni dettur í hug; að hægt sé að byggja upp iðnað hér með því móti að borga lægri vinnulaun hér en þessar samstarfs- og samkeppnisþjóðir okkar gera á hverjum tíma? Auðvitað skortir okkur fjármagn til þess að geta tekið sjálfvirknina í þjónustu okkar á þeim sviðum, sem hún á við. En það er þó fyrst og fremst starfskunnátta, sem hér skortir. Ef vinnulaun yrðu lægri hér en í hinum EFTA-löndunum, þá hníga öll rök að því, að við missum út úr landinu fyrst og fremst það fólk, sem við sízt megum missa, þ.e. þá, sem eftirsóttir eru vegna verkkunnáttu sinnar. Og hvernig værum við þá staddir? Ég held einmitt, að ef við eigum og höfum von til að standast þá keppni, sem hér er verið að taka ákvörðun um, þá sé grundvallarskilyrði fyrir því, að launakjör séu bætt það mikið, að ekki halli á okkur, hvað þetta snertir, miðað við þau lönd, sem eiga í þessari keppni. Sá, er ekki getur keppt um þetta fólk, er fyrir fram dæmdur til að verða undir í keppninni. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef við göngum í Fríverzlunarbandalagið, þá verður ekki hægt að halda kaupmætti launa niðri hér. Það hlýtur að verða ófrávíkjanleg krafa launafólks í landinu, að hann verði samræmdur t.d. því, sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, og engin frambærileg rök eru fyrir því, að hægt sé að standa á móti því. Hækkun lífsnauðsynja af völdum söluskattshækkunarinnar hlýtur að ýta einnig undir auknar kaupkröfur. Ef áhrif af inngöngu í Fríverzlunarbandalagið verða nokkurn tíma jákvæð, þá verður það fyrstu fjögur árin. Verði það svo, sem ég tel líklegt, þá verður kaupmáttur vinnulaunanna knúinn fram á þeim tíma, en síðar fara að koma hin neikvæðu áhrif, en hvað þau verða mikil, skal ég ekki spá neinu um. En verði þau veruleg, sem eins gæti orðið eins og að þessu máli er staðið nú, hvað þá? Í upphafi skal endirinn skoða. Það er hverjum hollt að minnast þess þrátt fyrir kosningaótta.

Fskj. III með þessari ályktun er ræða hæstv. viðskmrh., er hann flutti í EFTA-ráðinu þann 21. jan. s.l. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Eins og kunnugt er, voru þá hins vegar að myndast ný viðhorf í viðskiptamálum álfunnar vegna tilrauna Breta og margra annarra EFTA-þjóða til þess að gerast aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu. Íslendingar fylgdust náið með þessum málum á árunum 1961 til 1968 og bjuggu sig undir að ná tengslum við stækkað Efnahagsbandalag, sem þá virtist vera í fæðingu. Þegar ljóst var, að af þessari stækkun yrði ekki að sinni, byrjuðu Íslendingar að nýju að hugsa um aðild að EFTA.“

Í sambandi við þessi ummæli hæstv. viðskmrh. vil ég leyfa mér að spyrja hann, hvort eigi að skilja þessi ummæli hans á þann veg, að hæstv. ríkisstj. stefni nú að því að fá inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu með þeim EFTA-þjóðum, sem nú eru búnar að sækja um inngöngu í Efnabagsbandalagið eða tengjast því á annan hátt og þá hvernig. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir alla hv. þm. að vita, hvernig eigi að skilja þessi ummæli, áður en þeir taka afstöðu til þess máls, sem hér er til umr., þrátt fyrir það, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan. Eins og fram hefur komið í fréttum, hefur nú verið ákveðið, að viðræður fari fram á næsta ári milli sumra EFTA þjóðanna og Efnahagsbandalagsins, og er álitið af ýmsum, að mjög stuttur tími muni líða, þar til þessar þjóðir ganga í Efnahagsbandalagið. Ekki er því annað sýnna en framtíð Fríverzlunarbandalagsins sé óviss og óráðin, og því sýnist vafasamt að gera sér ekki nú fulla grein fyrir, hvernig eigi að halda á málinu, þegar þessar þjóðir ganga í Efnahagsbandalagið eða ef þær gera það, sem nú má telja nokkurn veginn fullvíst.

Í skýrslu Guðmundar Magnússonar prófessors er gengið út frá því, að þó að þessar þjóðir muni ganga í Efnahagsbandalagið, þ.e. Bretar, Danir, Írar og Norðmenn, muni þeir ekki gera það á næstu fimm árum. Nú sýnist manni, að þetta mat prófessors Guðmundar sé ekki raunhæft. Ég vil því spyrja hæstv. viðskmrh., hvort hin óvissa framtíð EFTA hafi engin áhrif á afstöðu hæstv. ríkisstj. til málsins, og sé það ekki, hver séu þá rökin fyrir þeirri afstöðu. Ég spyr að þessu fyrst og fremst vegna þeirrar ræðu, sem viðskmrh. flutti hér áðan, því að þar kom í raun fram, að hann taldi þó óbeint væri, að það væri stórhættulegt að byggja upp okkar iðnað og byggja á þeim markaði, ef hann rynni svo út í sandinn. Það kom fram í fréttum fyrir skömmu, að EFTA-aðild Færeyinga hafi lagt iðnað þeirra í rúst. Er það rétt? Fyrir nokkrum árum hitti ég nokkra Færeyinga. Þeir gerðu sér þá miklar vonir um, að ef þeir tengdust EFTA, mundi það skapa þeim aukin skilyrði til úrvinnslu og iðnaðar eins og ýmsir gera nú hér. En hafi farið fyrir Færeyingum, eins og umrædd frétt greinir frá, hvað þá um okkur?

Það er komið með þetta mál eins og mörg önnur, að það skiptir kannske mestu, hvernig að framkvæmdinni er staðið, hvernig til tekst. Hefur hæstv. ríkisstj. staðið að þessu máli á þann hátt, að líklegt sé, að framkvæmdin verði sómasamleg? Gefa vörðurnar, sem hún hefur hlaðið á viðreisnargöngunni, nokkra von um það, að henni sé treystandi til þess? Bendir ekki flest til þess, að eina markmiðið, sem hæstv. ráðh. hafa, sé að hanga sem lengst í ráðherrastólunum? Erum við að lifa upp Sturlungaöldina? Ætlar sagan að endurtaka sig? Sýnist ekki flestum, að hæstv. viðskmrh. fylgi vel eftir þeirri kenningu sinni, að við eigum að varðveita sjálfstæðið með því að fórna því? Hefur ekki hæstv. ráðh., form. Alþfl., setið í ráðherrastól á ellefta ár með því að afneita jafnaðarstefnunni? Geta þessir herrar vænzt þess, að þjóðin treysti þeim? Enda leynir sér ekki óttinn í stjórnarliðinu nú. Það leynir sér ekki ólgan í baráttuliði þeirra; hvað þá hjá hinum almennu kjósendum. Og skröltið í handjárnum þingliðsins, sem þegar er farið að heyrast um alla landsbyggðina, t.d. í gær, þegar greiðsluheimildin til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins var felld. Það er ekki að ófyrirsynju, að hæstv. forsrh. er órólegur yfir því, hvað honum hefur gengið illa að dylja einræðishneigð sína og þá vaxandi erfiðleika, sem hann á í við að þjóna þeirri tilhneigingu sinni að deila og drottna.

Það fer sýnilega í taugarnar á forsrh. hæstv., að frjáls skoðanamyndun skuli viðgangast í öðrum flokkum og form. okkar framsóknarmanna, háttv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, skuli vera lýðræðislega sinnaður og það sé ekkert feimnismál hjá okkur, þó að stundum sé einhver skoðanamunur í einstaka máli. Er það ekki einkenni lýðræðislegra starfshátta og óhjákvæmileg afleiðing þeirra? Hitt er svo annað mál, að þó að það samrýmist ekki hugsunarhætti og lífsviðhorfi hæstv. forsrh. og verði til að kynda undir þeirri ólgu, sem í hans flokki er, þá er það ekki til að bæta það ástand, að Morgunblaðið er nú látið gera hróp að form. Framsfl. og kalla hann formannsnefnu og því um líkt. Það mun ekki verka, eins og ætlazt er til, heldur hið gagnstæða. Það lýsir e.t.v. bezt hugsunarhætti hæstv. forsrh., að þegar hann sá, að ekki mundi verða hægt að koma fram á Alþ. frv. um tollskrá og söluskatt fyrir jólin, þá sagði hann á þá leið, að ef háttv. þm. vildu hafa skemmtun af því að lesa þessi plögg yfir jólin og koma síðan strax saman eftir hátíðar, þá hafi ríkisstj, ekkert við það að athuga. En kemur ekki fram í þessu, að hæstv. forsrh. sér ekkert athugavert við það, að afgreiðslu þessara mála sé hraðað svo í Alþ., að ekki sé neinn kostur á, að þm, kynni sér þessi frv. að neinu gagni? Það, sem skiptir mestu máli að dómi hæstv. forsrh., er, að háttv. þm. losni við að hugsa um þessi mál yfir jólin, en ekki þingleg meðferð málsins. Þarf fleiri vitni við um það, hvernig hæstv. ráðh. hugsar og að hverju hann stefnir?