03.11.1969
Neðri deild: 9. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við 1. umr. fjárlaga vakti ég máls á kostnaðinum við Búrfellsvirkjun, rakti, hver hann væri orðinn og hver hann mundi verða, þegar Búrfellsstöðin yrði fullgerð, og benti á, að framleiðslukostnaður á raforku frá Búrfellsvirkjun væri nú um það bil tvöfalt meiri en verð það, sem álbræðslan greiðir, og endanlegur framleiðslukostnaður, eftir að Búrfellsvirkjun væri tekin til starfa með fullum afköstum, yrði um 4 aurum hærri á kwst. en greiðsla bræðslunnar. Þannig væri nú þegar sýnt, að við værum skuldbundnir til þess með samningi að selja bræðslunni orku undir kostnaðarverði, og yrði árleg meðgjöf okkar fyrstu árin yfir 100 millj. kr., en síðar um 45 millj. kr. á ári. Þessar frásagnir vöktu mjög almenna athygli, og þeir menn, sem bera ábyrgð á samningunum við svissneska álhringinn, töldu sig að vonum komna í vanda. Hæstv. raforkumrh. reis upp á þingi daginn eftir fjárlagaumr. og kvaðst þurfa að koma á framfæri leiðréttingu, en því miður tókst ekki betur til en svo, að hann varð að viðurkenna í miðjum umr., að hann hefði ekki lesið frásögn mína, og því gat hann að vonum ekki heldur gert grein fyrir svo kallaðri leiðréttingu sinni. Síðar um daginn fengu öll fjölmiðlunartæki senda aths. frá Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra, stjórnarformanni Landsvirkjunar, og Eiríki Briem verkfræðingi, framkvæmdastjóra Landsvirkjunar, þar sem á ýmsan hátt var reynt að bera brigður á þær tölur, sem ég hafði birt, og mun ég ræða efni þeirrar aths. á eftir. Síðan hafa tekið við hin venjulegu blaðaskrif. Vísir sagði á forsíðu, að ég hefði reynzt uppvís að hrikalegri reikningsskekkju, en í forustugrein Morgunblaðsins hefur verið sagt, að tölur þær, sem ég greindi frá, hafi verið vísvitandi ósannindi og blekkingar.

Í einni af ræðum þeim, sem hæstv. raforkumálaráðh. flutti, spurði hann, hvar ég hefði fengið þá vitneskju, sem ég greindi frá um kostnað við Búrfellsvirkjun. Alþýðublaðið virtist telja þetta mjög athyglisvert sjónarmið, því að það spurði á forsíðu, hvaðan mér væri kominn þessi fróðleikur, og stjórnmálaritstjóri Alþýðublaðsins hefur fylgt þessu sjónarmiði eftir síðan í sérstakri grein. Í þessu viðhorfi virðist það felast, að kostnaður við Búrfellsvirkjun sé eitthvert leyndarmál, að ég hafi verið að stunda eins konar njósnir með því að hnýsast í plögg sérfræðinga og ráðh. Þetta er að sjálfsögðu fráleitt sjónarmið, sem verður að kveða niður. Það er ekki aðeins réttur alþm. að afla sér vitneskju um opinber mál, sem varða alla þjóðina, heldur tvímælalaus skylda þeirra. Og mér er að sjálfsögðu engin launung á því, hvaðan ég hef vitneskju mína. Hún er að langmestu leyti sótt í þessa bók. Þetta er ein af skýrslum þeim, sem bandaríska verkfræðifirmað Harza, sem hannaði Búrfellsvirkjun og hefur fylgzt með öllum framkvæmdum þar, gefur út. Slíkar skýrslur eru gefnar út ársfjórðungslega, og sú bók, sem ég er hér með í höndum, er nýjasta skýrslan, gefin út í júlímánuði í sumar, og hún nær fram til 30. júní. Ég veit, að hæstv. raforkumálaráðh. kannast við þessar skýrslur. Hann hlýtur að hafa þessa bók á skrifborðinu hjá sér og er vafalaust búinn að kynna sér hana gaumgæfilega. En þangað er sótt sú vitneskja, sem ég greindi frá.

Í þessari bók er að finna skýrslur, töflur og línurit um alla þætti verksins. Á töflu nr. 30 er fjallað um það málefni, sem skiptir mestu máli í sambandi við þessar umr., þ.e.a.s. um kostnaðinn við fyrri áfanga Búrfellsvirkjunar. Þar er fyrst tafla, sem ber yfirskriftina Original estimated costs, þ.e.a.s. Upphafleg kostnaðaráætlun. Niðurstöðutölur hennar eru þær, að í upphafi hafi verið áætlað, að kostnaður í gjaldeyri yrði 19 millj. 500 þús. dollarar, kostnaður í íslenzkri mynt 6 millj. 354 þús. dollarar, eða heildarkostnaður 25 millj. 854 þús. dollarar. Síðar í þessari töflu er svo kostnaðurinn eins og hann er metinn miðað við 30. júní í sumar. Þá er kostnaðurinn í gjaldeyri metinn 24 millj. 28 þús. dollarar, kostnaður í íslenzkri mynt 8 millj. 544 þús. dollarar og heildarkostnaður 32 millj. 572 þús. dollarar. Hér er sem sé um að ræða hækkun frá upphaflegri áætlun úr 25.8 millj. dollara í 32.6 millj. eða um 26%, rúman fjórðung. Þetta voru þær tölur, sem ég gerði grein fyrir í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga. Sé einhver hrikaleg reikningsskekkja í þessum tölum, er hún komin frá bandaríska verkfræðifirmanu Harza, en ekki frá mér. Séu þessar tölur vísvitandi uppspuni og blekkingar, eins og sagt var í forustugrein Morgunhlaðsins, er það verkfræðifirmað Harza, sem hefur ástundað svo fráleita iðju.

Tala sú, sem Harza gaf upp í sumar um endanlegan heildarkostnað við fyrri áfanga Búrfellsvirkjunar, er engan veginn tæmandi. Á töflu þeirri, sem ég vitnaði til, töflu 30, eru taldir upp neðanmáls kostnaðarliðir, sem ekki eru meðreiknaðir, á þessa leið: Water rights, Interest during construction, Commitment fees, Custom duties, Taxes, Financing cost and devaluation loss on local cost component not included, þ.e.a.s. þarna eru ekki meðreiknaðir liðirnir greiðsla fyrir vatnsréttindi og ýmis réttindi önnur, vextir á byggingartímanum, tollar, skattar og gengistap á innlendum kostnaði. Og hér er að sjálfsögðu um verulegar fjárhæðir að ræða, sem unnt er að meta með sæmilegri nákvæmni.

Tökum fyrst liðinn gengistap á innlendum kostnaði. Í aths. þeirra Eiríks Briem og Jóhannesar Nordal er öldungis ekki reiknað með þessum lið. Þeir segja ofur einfaldlega, að heildarkostnaður verði 3760 millj. kr., deila í þá upphæð með 88 og fá þannig dollarakostnað, sem nemur 42.7 millj. dollara. En málið er ekki svona einfalt. Þetta verk hefur verið unnið á þreföldu gengi. Fyrst var dollarinn 43 kr., síðan 57 kr. og loks 88 kr. Gengistapið kemur fram í því, að erlend lán hafa verið tekin fyrir svo til öllum kostnaðinum. Auðvelt er að skýra þetta mál út með dæmi fyrir þá, sem ekki hafa hugsað þessa hlið málsins. Meðan gengi dollarans var 43 kr., var innlendur kostnaður af framkvæmdunum ca. 215 millj. kr. eða 5 millj. dollara. Þessi tala, 215 millj. kr., er látin standa óbreytt í útreikningum þeirra Eiríks Briem og Jóhannesar Nordal. En þegar kemur að því að endurgreiða 5 millj. dollara, sem teknir voru að láni til þess að standa undir þessum kostnaði, er andvirði þeirra orðið 440 millj. kr. vegna gengislækkananna. Þarna kemur fram gengistap, sem nemur 225 millj. kr., og það verður Búrfellsvirkjun að greiða með þeim tekjum, sem hún fær frá viðskiptavinum sínum. Það gengistap, sem þannig kemur fram á árunum fram að gengislækkuninni haustið 1968, mun nema um 290 millj. kr., eða sem svarar 3 millj. 280 þús. dollurum. Þegar þessi kostnaður er meðtalinn, verður heildarkostnaður samkv. áætlun Harza 35 millj. 852 þús. dollarar. Þá eru ótaldir vextir á byggingartímanum, sem væntanlega nema um 10% eða 3.6 millj. dollara. Einnig vantar í þessa tölu, eins og getið er um í skýrslu Harza, lánskostnað, sem trúlega hefur verið um 1%, greiðslu fyrir vatnsréttindi, eftirgjöf á tollum frá ríkinu, þann hluta tolla, sem Landsvirkjun hefur orðið samkv. samningi að greiða vegna verktaka, og skatta fyrir starfsmenn bandaríska verkfræðifirmans. Erfitt er að meta þessa liði af fullri nákvæmni, en kunnugustu menn telja, að þeir verði ekki undir 2.5 millj. dollara. Ætti þá fyrri áfangi Búrfells að kosta um 42 millj. dollara eða um 3700 millj. kr. Þá er enn óreiknuð gasaflsstöðin, sem mun kosta hátt á þriðja hundrað millj. kr. Sé hún meðtalin, verður kostnaðurinn um 4000 millj. kr. og orkuverð á kwst. yfir 45 aurar á sama tíma og svissneska álbræðslan greiðir 22 aura.

Í þessum útreikningum er algerlega sleppt kostnaðarliðum, sem enn kunna að bætast við. T.d. stendur nú yfir deila milli verktakanna og Landsvirkjunar, og mun hún snúast um hvorki meira né minna en 700–800 millj. kr., sem verktakarnir vilja fá í viðbót við þær greiðslur, sem áður hefur verið samið um.

Þetta er sá kostnaður, sem telst til fyrri áfanga. Erfiðara er að meta áframhaldið með nokkurri nákvæmni, viðbótarvélbúnað og miðlunarmannvirki, en í fyrra var lagt fram á þingi frv. til l. um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Frv. fól í sér lántökuheimild vegna virkjunarframkvæmdanna, og þar var greint frá þeirri áætlun Landsvirkjunarstjórnar, að stofnkostnaður seinni áfanga Búrfellsvirkjunar yrði 661 millj. kr. eða 7.5 millj. dollara. Sé miðað við þessar tölur, sem hvorki Landsvirkjunarstjórn né hæstv. ráðh. geta gagnrýnt, verður heildarkostnaður yfir 50 millj. dollara eða um 4500 millj. kr. Kostnaður á kwst. með þeirri útreikningsaðferð, sem Jóhannes Nordal og Eiríkur Briem nota í aths. sinni, verður þá um 26 aurar á kwst. Greiðsla álbræðslunnar verður hins vegar aðeins 22 aurar á kwst. Það jafngildir því, að árleg greiðsla álbræðslunnar verði til frambúðar um 45 millj. kr. undir kostnaðarverði, eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga.

Raunverulega verður þessi munur þó nokkru meiri. Þegar Jóhannes Nordal og Eiríkur Briem tala um, að virkjunin við Búrfell gefi 1720 millj. kwst. á ári, reikna þeir með óraunsæjum nýtingartíma. Álverið á sem kunnugt er að fá 140 mw., og þar verður væntanlega um að ræða 8500 stunda nýtingartíma á ári eða um 1100 gwst. Afgangurinn, 70 mw., sem ætlaður verður íslenzkum viðskiptavinum, nýtist aldrei svona vel. T.d. er nýtingartími Sogsvirkjunar um 5000 stundir á ári. Þótt alltaf væri nóg vatn handa Búrfellsvirkjun, fæst aldrei miklu meiri nýting en um 7000 stundir á ári. Með því móti fást út úr virkjuninni tæpar 1600 gwst., og er slíkur reikningur raunsærri en tala þeirra félaga, 1720 gwst. En þá yrði kostnaðarverð á kwst. raunar 28 aurar.

Mig langar að minnast á enn eitt atriði úr aths. þeirra Jóhannesar Nordal og Eiríks Briem, sem sýnir, hversu langt þeir seilast til röksemdanna. Þótt ekki sé búið að fullprófa aflvélarnar þrjár við Búrfellsvirkjun og þrjár séu ekki einu sinni komnar til landsins, segjast þeir gera sér vonir um, að þær muni skila allt að 15% meiri afköstum en reiknað hefur verið með í áætlunum, og á grundvelli þessarar vonar lækka þeir raforkuverðið um 3 aura á kwst. í áætlunum sínum. Að sjálfsögðu er fráleitt að fullyrða nokkuð um afköst aflvéla, sem engin reynsla er fengin af. Auk þess er það engin nýjung, að aflvélar geti skilað meiri orku en áætlanir sýna, en slík afköst eru hagnýtt í sérstökum toppum, en ekki að staðaldri.

En í sambandi við Búrfellsvirkjun er um ýmsa aðra óvissu að ræða, t.d. áhrif hugsanlegra ísamyndana, sem geta orðið mjög afdrifarík. Vonandi gengur allt eins vel og hugurinn girnist, en við áætlanir verður að miða við staðreyndir, ekki við vonir.

Í heild verð ég að segja, að málflutningur þeirra Eiríks Briem og Jóhannesar Nordal hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Þeir eru einhverjir æðstu trúnaðarmenn þjóðarinnar, annar þeirra sjálfur aðalbankastjóri Seðlabankans, og það er skylda slíkra manna að leggja fyrir okkur alþm. staðreyndirnar eins og þær eru og draga ekkert undan, hvort sem mönnum fellur betur eða verr við þá málavexti. Þess í stað hafa þeir í aths. sinni reynt að fela staðreyndir með almennum áróðri. Mér finnst ástæða til þess að víta á Alþ. slíka framkomu opinberra trúnaðarmanna.

Ég hef nú gert grein fyrir því, hvernig útreikningar mínir eru fengnir. Undirstaðan er áætlun, sem bandaríska verkfræðifyrirtækið Harza gerði fyrir þrem mánuðum. Við þá áætlun hef ég bætt kostnaðarliðum, sem Harza viðurkennir, að voru ekki meðtaldir, og kostnað seinni áfanga met ég eins og hann var áætlaður í fyrra af Landsvirkjunarstjórn þegar frv. um lántökuheimild var lagt fyrir Alþ. Ég hef þannig lagt fram öll gögn fyrir þá, sem hafa hug á að vefengja útreikninga mína. En þá verða menn að gera það með fullum rökum, ekki með almennum staðhæfingum og pólitískum skammaryrðum í forustugreinum blaða.

Það mál, sem ég hef hér vakið athygli á, er stórmál, og ég tel það skyldu allra alþm. að gera sér fulla grein fyrir því. Þetta er ekki aðeins stórmál vegna þess, að í því felst mat á fortíðinni, samningum þeim um raforkusölu, sem gerðir voru við álbræðsluna. Við andstæðingar þeirra samninga vöruðum við því, að svona mundi fara, en okkur er að sjálfsögðu fjarri skani að hælast um, þótt reynslan hafi staðfest aðvaranir okkar. Stjórnarflokkarnir og sérfræðingar þeirra töldu sig auðvitað vera að gera rétt, og það er ekkert ánægjuefni, að hugmyndir þeirra hafa reynzt tálsýnir. Það, sem skiptir meginmáli, er hins vegar að hagnýta þessa reynslu til þess að leggja á ráðin um framtíðina. Við höfum nú um langt skeið heyrt órökstuddan áróður þess efnis, að framtíð Íslendinga eigi að vera í því fólgin að gera nýjar stórvirkjanir, þ. á m. einhverja mestu vatnsaflsvirkjun heims á Austfjörðum, til þess að selja erlendum auðhringum orkuna með svinuðum kjörum og álbræðslan nýtur. Um það verður naumast deilt, að það getur aldrei fært okkur blómlega framtíð að selja raforku undir kostnaðarverði og verða að skattleggja íslenzkan almenning og íslenzka atvinnuvegi til þess að greiða með raforkunni til útlendinganna. Nú þegar er svo ástatt, að heildsöluverð frá Landsvirkjun til rafveitna á Suðurlandi er 48 aurar á kwst. á sama tíma og álbræðslan greiðir 22 aura. Áformað er, að þetta verð hækki um a.m.k. 15% alveg á næstunni. En þótt verðið á raforku til Íslendinga haldi áfram að hækka, helzt það óbreytt handa álbræðslunni. Við verðum að greiða síhækkandi verð til þess að standa undir hallanum af viðskiptunum við útlendinga. Ég bið alla alþm., sem mál mitt heyra, að hugleiða þessar staðreyndir af fullri alvöru og af fullu raunsæi.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að ég hef ásamt hv. þm. Þórarni Þórarinssyni flutt till. um rannsóknarnefnd. Við höfum engan hug á því að ná okkur niðri á hæstv. raforkumálaráðh. eða sérfræðingum hans. Þetta mál er miklu stærra en svo, að venjulegar pólitískar skylmingar eigi rétt á sér í sambandi við það. Hér er um að ræða óhjákvæmilegt rannsóknarefni, þar sem allar staðreyndir verða að koma fram í dagsljósið. Ég tel það skyldu hvers einasta alþm. að kynna sér þessar staðreyndir persónulega, vegna þess að á okkur hvílir sú skylda að taka ákvarðanir um framtíðina.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allshn., og ég vil mjög eindregið beina því til n., að hún hraði meðferð þessarar till. Hér er um þannig mál að ræða, að ástæðulaust er að senda það til umsagnar. Hér er aðeins um það spurt, hvort alþm, vilja láta framkvæma þessa rannsókn eða ekki, og menn eiga að geta tekið þá ákvörðun á tiltölulega skömmum tíma.