23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Dómsmrh. ( Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég get ekki annað sagt en ég sárvorkenni þessum hv. síðasta ræðumanni, 6. þm. Reykv., fyrir það, hversu heltekinn hann er af fordómum kommúnismans. Ræða hans nú, eftir að hafa haft betri tíma til þess að hugsa sig um en á föstudaginn, er mikið til í sama dúr og ræða hans var þá, og hann kemst ekki út úr þessum vítahring, þessi vesalings maður. Það er ástæða til þess að vorkenna honum af því tilefni.

Ég lagði áherzlu á það í mínum fáu orðum í umr. á föstudag, að umr., — og átti þá alveg sérstaklega við ræðu hv. 1. flm. þessarar till., snerust í raun og veru að engu leyti um till., sem okkur var ætlað að samþykkja, heldur hvort hv. 6. þm. Reykv. hefði sagt þetta rétt eða rangt o. s. frv. En till. er, eins og ég vék að, um að rannsaka staðreyndir um byggingu Búrfellsvirkjunar. Nú hefur þn. fengið þær upplýsingar, allar þær upplýsingar, sem hún hefur beðið um, stofnkostnað og staðreyndir varðandi Búrfellsvirkjunina, og það er sannað og hefur ekki verið mótmælt í umr., — það á kannske einhver eftir að koma hér upp á eftir og segja það, að þeim hafi láðst að mótmæla, — en því er haldið fram og það kemur fram í nál., að ekki hafi verið beðið um fleiri upplýsingar, ekki af minni hl., ekki stjórnarandstæðingunum, þeir hafi fengið allt, sem þeir óskuðu eftir frá Landsvirkjun annars vegar og ekki óskað eftir neinum frekari upplýsingum annars staðar frá. Til hvers þá að vera að samþykkja þessa rannsókn? Slík till. á heima í pappírskörfunni, eins og ég sagði fyrir helgina. Og það á að rannsaka samningana, samninga, sem lagðir voru fyrir Alþ., raforkusamningana árið 1966, sem hafa legið fyrir allan tímann. Hvað hafa þessir menn verið að gera allan þennan tíma, sem allt í einu láta sér detta í hug, að það þurfi að rannsaka þessa samninga? Hvað er hulið við raforkusamningana? Menn geta haft sínar skoðanir á því, hvað þetta og þetta þýði í samningnum fyrir afkomu og rekstur o.s.frv., en hér er ekki neitt hulið, og hér hefur ekki verið haldið neinum upplýsingum fyrir mönnum. Þess vegna er svokölluð opinber rannsókn út í hött, sett fram til þess að blekkja og reyna að gefa í skyn, að hér sé eitthvert óhreint mjöl í pokanum, sem þessir hv. flm. vita, að er ekki.

Það hefur áður komið fram, að hv. 6. þm. Reykv. sé reikningsmaður góður og hafi hlotið góða einkunn í reikningi á stúdentsprófi. Það er þeim mun furðulegra að hlusta á tal þessa hv. þm. hér, þegar hann er að reikna út tapið, tapið fyrir Landsvirkjun af raforkusölu frá Búrfellsvirkjun. Það er eins og kemur fram í skýrslunum, að kostnaðarverð næst ekki til að byrja með, vegna þess að virkjunin er ekki orðin fullnýtt. En það er líka gerð grein fyrir því, að ef Búrfellsvirkjun hefði verið byggð án álbræðslunnar og í litlum áföngum, þannig að fyrst hefði verið byggð 35 mw. virkjun og að öðru leyti hefðu framkvæmdir verið þannig, að hægt hefði verið að byggja stífluna í smáum áföngum, allt gert í eins litlum áföngum og hugsazt gat, enda þótt það segi í skýrslu Landsvirkjunar, að sennilega hefði þetta ekki verið framkvæmanlegt, en það er hins vegar gefið sem möguleiki og reiknað þannig út, þá hefði almenningur ekki þurft að borga 67.7 aura í heildsöluverð á kwst., heldur 2.24 kr. og í smásölu mundi það vera töluvert á sjöundu kr. Svo stendur hv. þm. hér og reiknar út tapið af Búrfellsvirkjuninni, hvað það sé mikið, sem við töpum á því að selja álbræðslunni raforku fyrstu árin, eins og alltaf hefur verið gert ráð fyrir, sem væri undir verði, meðan nýtingin væri ekki komin fram. Svo er því haldið fram, að raforkuverðið, sem greitt er, verði alltaf undir kostnaðarverði.

Í álitsgerðinni frá Landsvirkjun stendur á bls. 8:

„Sé nú stofnkostnaður reiknaður, að meðtöldum öllum stofnkostnaði gasaflsstöðvarinnar og þessum aukna miðlunarkostnaði, nemur hann samtals 4370 millj. kr. Afkastageta Búrfellsvirkjunar fullnýttrar mundi þá verða 1970 millj. kwst., en kostnaðarverð raforku á kwst. 18.9 aurar miðað við 8.5% árlegan kostnað, en 20 aurar miðað við aðferð sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna.

Þessu til samanburðar er söluverð raforku til ISALs 26.4 aurar fyrstu 6 árin, en síðan 22 aurar. Það finnst því í þessum tölum engin stoð fyrir þeirri fullyrðingu, að raforka til ISALs sé seld undir kostnaðarverði.“

Svo er bara haldið áfram að reikna og reikna og sagt, að það sé ljóst, að rafmagnið sé selt undir kostnaðarverði. Það má auðvitað segja, að það geti komið mismunandi út, og það er það eina, sem hér er raunverulega deilt um, en það er ekki till., sem þá er verið að deila um, hvort eðlilegt sé að reikna 40 ára fyrningarkostnað og með 7% vöxtum eða 25 ára fyrningartíma. Og það skilja allir, að á því verður náttúrlega munur. En hitt er staðreynd um leið, að það eru bæði sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna, sem vitnað er til, og mjög eðlilegur háttur að miða fyrningartímann við 40 ár, þegar vitað er, að ending slíkra mannvirkja er meira en tvöfalt á við það, sem þar hefur verið um að ræða.

Svo kom hann að ísvandamálinu, þessi hv. þm., 6. þm. Reykv. Það var ekki svo lítið talað um ísvandamálið á sínum tíma, og það hafa aldrei sézt önnur eins gleðitíðindi í Þjóðviljanum, þegar hann prentaði í vetur — ja, ég held, að það hafi verið 10 dálka fyrirsögn, tvisvar sinnum fimm dálkar með stærsta letri, sem til var, — að nú væri ísstopp, nú væru truflanir í rennsli Þjórsár af ísvandræðum. Það þótti ástæða til þess að birta þessa gleðifregn að dómi þessara manna með tvöfaldri fyrirsögn á forsíðu, með stærsta letri.

Það kemur fram í skýrslu, sem hv. þm. hafa fengið, að ísvandamálið hefur ekki verið eins alvarlegt og þessir elskulegu menn vilja vera láta, en þá langar afskaplega mikið til, að verði, og hlakka yfir, jafnan er eitthvað ber þar út af. Ég hef í höndum framvinduskýrslu um rekstur veitumannvirkja Búrfellsvirkjunar veturinn 1969–1970. Þar er m.a. í niðurstöðu vikið að ísvandamálinu, og skýrslan fjallar um það, en hún er of löng til þess að lesast öll, en ég vil, með leyfi hæstv. forseta, mega vitna hér til lítils hluta úr henni, og það mun vera dr. Gunnar Sigurðsson, sem semur þessa skýrslu og hefur aðallega fjallað um ísvandamálin:

„Af þeim mörgu hlutum,“ segir þar, „sem gagnrýndir voru á sínum tíma í sambandi við ísinn, má m.a. nefna það, að ekkert átti að vera að marka „módel“-tilraunirnar, af því að ísinn loddi miklu betur saman en plastið.“

En eins og kunnugt er, voru gerðar víðtækar „módel“-tilraunir í Þrándheimi af sérstöku vísindafyrirtæki þar.

„Undirkælt vatn átti að festast við öll mannvirki og hlaða á þau grunnstingli. Ísinn átti ekki að geta komizt niður Bjarnalækjarskurð eða Bjarnalæk, heldur hrannast þar upp, og svona mætti lengi telja. Reynslan frá því í vetur sýnir, að rennsli við veitumannvirkin er ótrúlega líkt rennslinu í „módelinu“, og ísinn hagar sér í öllum aðalatriðum eins og plastið. Helzti munur er sá, að skerkraftar voru tiltölulega stærri í plastinu í „módelinu“, þannig að því var hættara við ísbrúarmyndun en ísnum í Þjórsá.

M.ö.o.: Það var erfiðara að skola fram plastinu í „módelinu“ en ísnum í Þjórsá. Ekkert hefur borið á grunnstingli á mannvirkjum og Bjarnalækur og Bjarnalækjarskurður hafa fleytt ísnum mjög vel fram og mun betur en a.m.k. ég hafði þorað að vona“

Reynslan frá í vetur hefur sýnt, að ísinn í Þjórsá er ekki eins mikið vandamál og reiknað hafði verið með. Ég ætla að vona, að þetta birtist á forsíðu í Þjóðviljanum með gleðibragði, að ísinn í Þjórsá er ekki eins mikið vandamál og reiknað hafði verið með, áður en virkjunin var byggð.

„Fyrirkomulag mannvirkja er gott, og þó mættu þau öll vera sterkbyggðari, sérstaklega lokurnar. En þrátt fyrir góða reynslu í vetur má það ekki gleymast, að Búrfellsvirkjun þarf að reka af fullri aðgát með tilliti til íss í 6 mánuði ársins og alvarlegar truflanir af völdum íss geta alltaf komið fyrir, eins og frá öndverðu hefur verið að vikið.

Að lokum vil ég geta þess, að Búrfellsvirkjun hefur vakið mikla athygli sérfræðinga, sem fást við ís í ám og vötnum og vandamál, sem ísinn skapar. Sérstaklega hafa mæli- og aðvörunartækin vakið mikla athygli, enda alger nýjung. Af þessari ástæðu hefur alþjóðasamband fyrir rannsóknir í streymisfræði ákveðið að halda ráðstefnu á Íslandi næsta haust og helga alla dagskrá hennar ís og ísvandamálum. Er þetta í fyrsta skipti, sem vísindamenn í streymisfræði halda slíka sérráðstefnu um ís.“

Og hér lýkur tilvitnuninni. Þetta eru mikilsverðar upplýsingar, sem mér þótti rétt, að kæmu fram, úr því að enn einu sinni var verið að gera mikið úr og hlakka yfir því, hvað ísspursmálið væri mikið vandamál og þess vegna óútreiknanlegur sá skaði, sem við ættum eftir að hafa af ísvandamálinu.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi fá útreikning á því, hvað gengisbreytingarnar hefðu verið hagkvæmar fyrir Alusuisse, byggjendur álbræðslunnar. Hann, sem er búinn að reikna jafnmikið og raun ber vitni, hefur samt sem áður ekki lagt út í að reikna það, en meginatriðið í sambandi við hinar hreinu gjaldeyristekjur verksmiðjunnar er það, að hæstu tekjurnar, bæði rafmagnssalan og skattgjaldið, er umsamið í dollurum, og það er af þeim sökum, sem við höfum í bili hærra rafmagnsverð en Husnesverksmiðjan, sem oft hefur verið vitnað til, því að miðað við dollara lækkaði verð Norðmanna á því rafmagni, sem þeir seldu verksmiðjunni, þegar gengisbreytingin varð í Noregi.

Það var af miklu alvöruleysi fullyrt hér á fyrra stigi málsins, að það, sem ég hefði verið að bera saman, þ.e. greiðslur fyrir rafmagn og svo opinber gjöld, skattar og annað slíkt í Noregi og hér á Íslandi, væri ekkert sambærilegt, og enn var hv. 6. þm. Reykv. að tönnlast á þessu. Ég hef sagt og segi það enn, að það er eftir beztu vitund, sem ég hef gefið sambærilegar tölur. Ég fór fram á það við ambassador okkar í Osló á s.l. hausti, að hann aflaði upplýsinga um það, hvert raforkuverðið væri og hvaða opinber gjöld bæði til sveitarfélaga og ríkis hefðu verið greidd þau tvö ár, sem búið er að reka Husnes-verksmiðjuna, einmitt til samanburðar við það skattgjald, sem hér er greitt. Og það er á grundvelli þessara tilmæla og bréfaskrifta, sem á milli fóru, að aflað var þessara upplýsinga, sem ég hef vitnað til, en ég hef jafnframt boðið upp á það að halda þessari rannsókn áfram, ef vera mætti, að eitthvað væri í þessu skakkt og annað sýndist réttara, og ég hef boðið hv. stjórnarandstæðingum að eiga fulla hlutdeild að þeirri rannsókn. En það er ótrúlega miklu meira, sem verksmiðjan hér greiðir, því að opinber gjöld greiðir hún meira en helmingi hærri en Husnesverksmiðjan greiddi árið 1968 af sambærilegri framleiðslu. Þá var miðað við 57 þús. tonna framleiðslu, og samanlagt skattgjald og raforkugjald í aurum á kwst. er meira hjá okkur en í Husnes-verksmiðjunni í Noregi eða hjá Sural. Og þær tölur, sem ég nefndi, voru 35.79 aurar á kwst. hjá ISAL á móti 30.55 aurum á kwst. hjá Sural fyrir rafmagn og skatta. Og ég lagði mikla áherzlu á, að ekki bæri að líta á byggingu álbræðslunnar eina út af fyrir sig né heldur greiðslu rafmagnsverðsins út af fyrir sig, heldur sem þátt í heild, sem væri þjóðhagsleg framkvæmd fyrir okkur Íslendinga. Ég gat þess ekki á föstudaginn, hvað borgað er í kr. á lest af áli fyrir rafmagn og skatta, en sé það borið saman, þá er það í Noregi 4583 kr. og hjá ISAL, eins og nú er, 5368 kr.

Það er ekki heldur rétt, — og ég hef margtekið það fram hér, — að Íslendingar hafi ekki athugað þann möguleika að vera eigendur að einhverjum hluta í álbræðslunni, og ég hef sagt það áður í þingsölunum, þó að það sé látið gleymast, þegar mönnum þykir við þurfa, að ég gerði mér sérstaklega ferð á hendur til viðræðna við norska sérfræðinga, einmitt til þess að ræða við þá um þetta fyrirkomulag, sem við erum nú með og samið var um eða um hugsanlega hlutdeild sem meðeigendur að einhverjum hluta. Þeir réðu okkur eindregið frá því. Þá höfðu þeir þegar haft sína reynslu af samsteypunni í Husnesi, og hún var mjög slæm. Álframleiðslunni er þannig háttað, að hráálsframleiðslan er aðeins þáttur í stóru kerfi. Fyrst er unnið úr báxítinu alúminíum eða súrálið, síðan er hráálið unnið og síðan er unnið úr hráálinu og það selt í mismunandi myndum á heimsmarkaðinum. Allt er þetta meira og minna samofið, og aðstaða þess aðila eins, sem að einhverju leyti er lítill þátttakandi í einni grein, er veik, og hún var að okkar dómi of veik, til þess að við höfum viljað á þessu stigi út í hana leggja. En hinu vil ég vekja athygli á, að við öðlumst náttúrlega við þessa framkvæmd stórkostlega reynslu, sem getur lagt grundvöllinn að því í framtíðinni, að við e.t.v. byggðum með einhverjum hætti eigin álbræðslur eða í samvinnu við aðra, og umr. hafa farið fram um það, en þær hafa ekki borið árangur fram að þessu. Það hafa farið fram umr., lauslegar umr. við fulltrúa frá amerísku álfyrirtæki, Amax, um það, að við byggðum álbræðslu og þeir „finanseruðu“ álbræðsluna og fengju alla framleiðsluna, við ættum hana raunverulega eða að nafninu til, hvað sem menn vilja kalla það. En „finanseringin“ væri greidd með allri framleiðslunni. Það getur verið, að þarna sé leið til þess að vera að einhverju leyti eigandi álbræðslu, svo kallaður eigandi álbræðslu. Þessar viðræður hafa aðeins verið á frumstigi, og þær hafa ekki leitt til árangurs. Það kemur fram í álsamningunum, að Alusuisse telur sig reiðubúið til að ræða við okkur Íslendinga um byggingu álbræðslu á Norðurlandi. Ég hef hugsað mér að hefja viðræður við Svisslendingana um, hvaða möguleikar gæti verið á samvinnu við þá um byggingu álbræðslu á Norðurlandi. En að sjálfsögðu get ég engu um það spáð, hvort af því getur orðið í reyndinni, en slíkt mál fengi auðvitað Alþ. vitneskju um, þegar ástæða þætti til, ef það kæmist á eitthvert framkvæmdastig eða hugsanlegt framkvæmdastig.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að við ættum að eiga blönduð fyrirtæki eins og Svíar, þ.e. eiga í fyrirtækjunum með útlendingum. Hvernig var það með kísilgúrinn? Var það ekki blandað fyrirtæki? Samt var það dauðadæmt og algerlega ómögulegt, af því að útlendingar voru í því, og þó sem minnihlutaaðilar. Nei, það er árátta á þessum hv. þm., að hann hefur frá öndverðu verið á móti því, að erlent áhættufjármagn væri á nokkurn hátt hagnýtt hér á landi. Það er mergurinn málsins. Hann segir, að fyrirtækið hérna, álbræðslan, fái ódýrari orku en nokkurs staðar annars staðar. Hann minnist á Bretland og segir, að þar sé raforkuverðið miklu hærra. En hvernig er fyrirkomulagið í Bretlandi? Það hefur verið upplýst hér, og það liggja fyrir grg. um það, að það opinbera hefur styrkt álbræðsluna. Hún hefur stórkostlega styrki, allt frá 35 og upp í 40% af kostnaðarverði mannvirkjanna og þá kemur tækifæri fyrir hv. þm. til að stilla upp einu reikningsdæminu enn, hvaða áhrif það hefði raunverulega á raforkuverðið, sem síðan er greitt. Það hefði þótt saga til næsta bæjar, ef við hefðum átt að gefa Svisslendingum 30–40% af kostnaðarverði álbræðslunnar.

Ágóðinn, sagði hv. 6. þm. Reykv., flyzt allur úr landi, þess vegna er það ekkert sambærilegt við Áburðarverksmiðjuna. Það hefur aldrei verið neitt sambærilegt hér, þegar verið er að reka ofan í þessa hv. þm. þær vitlausu staðhæfingar, sem þeir hafa haldið fram. Þá er alltaf hlaupið til og sagt, að það sé ekki sambærilegt við eitt og annað.

Það er ýmislegt, sem flotið hefur með álbræðslunni. Hvað er með höfnina í Straumsvík? Hafnarfjarðarbær á þessa höfn og hefur af henni stórkostlegar tekjur, og álbræðslan greiðir hana, öll lán, sem til hennar voru tekin, á 15 árum, eins og nú er endanlega búið að ganga frá samningum um. Þetta er ekki alveg ónýtt, en hvað er svo með álbræðsluna sjálfa og Búrfellsvirkjun? Eru ekki samningarnir tímabundnir? Við erum ekki skuldbundnir að selja þeim raforku nema í lengsta lagi til 45 ára. Þá getum við notað þessa orku frá Búrfellsvirkjun okkur í hag, sem komst á með hagfelldum hætti í upphaflegri samvinnu. Og hvað um álbræðsluna sjálfa eftir 45 ár? Svisslendingarnir vildu taka upp viðræður við okkur um að láta samninginn gilda eitthvað lengur, eftir 45 árin fengjum við svo og svo mikinn hluta í álbræðslunni. Ég gæti vel trúað, að við gætum fengið helminginn til 3/4 hluta eða eitthvað svoleiðis eftir 45 ár. Afstaða okkar var að segja nei, við semjum ekki við ykkur núna um það, hvað verður um álbræðsluna eftir 45 ár. Þá erum það við, sem stöndum við kranann og getum skrúfað fyrir rafmagnið. Og hvað ætlið þið að gera þá? Jú, þið munduð hafa svo kallaðan frest, geta flutt í burtu það, sem þið mættuð taka burt af mannvirkjunum, en þeir vildu þá kannske taka upp samninga við okkur um aðra hagnýtingu á verksmiðjunni í samvinnu við okkur og annað raforkuverð og annað slíkt, en ég hygg, að okkar samningsaðstaða, — það var okkar mat, sem í þessum samningum stóðum, — að okkar aðstaða á þeim tíma væri sú, eftir því sem nokkuð er nú hægt að sjá með vissu, á þessu tímabili, að ákjósanlegra væri að láta það dæmi liggja á milli hluta. En ég nefni þetta til að sýna, að það eru sannanlega mjög miklir ágóðamöguleikar af slíkum fyrirtækjum, sem upphaflega eru algerlega byggð fyrir erlent áhættufé.

Eins og kunnugt er, höfum við verið að vinna að því undanfarin ár að kanna byggingu olíuhreinsunarstöðvar hér á landi. Ég veit ekki, hvernig því verður tekið, ef það kemur til kasta þingsins, ef leitað verður heimilda í þeim efnum, en við höfum verið með í huga að hagnýta erlent áhættufjármagn þannig, að við ættum helzt meiri hluta frá upphafi og eignuðumst slíkt fyrirtæki að öllu leyti á einhverjum vissum tíma. Þessir hlutir hafa verið orðaðir og eru alls ekki fjarlægir. Sumir þeirra erlendu aðila, sem við höfum rætt við, hafa tjáð sig reiðubúna til þess að byggja hér olíuhreinsunarstöð, sem við eignuðumst svo algerlega á 12–15 árum, en við þyrftum ekkert að leggja í hana og ættum ekkert að leggja í hana. Sumum finnst þetta fjarstæða og finnst það bæði metnaðarmál og eðlilegt, að við eigum meiri hlutann í þessari olíuhreinsunarstöð. Ég er ekkert feiminn að segja það, að mér finnst í raun og veru síður en svo nokkuð verra að kaupa hreinsaða olíu af olíuhreinsunarstöð, sem er eign útlendinga, en við skulum segja starfrækt hér í Geldinganesi, heldur en að kaupa hreinsaða olíu af rússneskri olíuhreinsunarstöð starfræktri við Svartahaf. Ég mundi heldur vilja kaupa af útlendri stöð hérna og þá með þeim hætti, að við mundum eignast stöðina. Ég vona, að ég fái öruggan stuðningsmann í hv. 6. þm. Reykv., ef að þessu kæmi, við slíkt blandað fyrirtæki, sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar. Bara að hann verði ekki búinn að gleyma blönduðu fyrirtækjunum þá og láti sér detta í hug að kalla slíka olíuhreinsunarstöð eða hvaða annað fyrirtæki, sem það væri, aðskotadýr í íslenzku þjóðfélagi, eins og hann vildi kalla álbræðsluna og þá líklega kísiliðjuna líka.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég hef vikið að ýmsu, sem liggur utan við efni sjálfrar þessarar till., Af gefnu tilefni, en það er að mínum dómi gjörsamlega ástæðulaust og þarflaust að samþykkja rannsóknartillögu eins og þessa, þar sem hér hefur farið fram af þn. rannsókn með þeim hætti, sem nú liggur fyrir, og ekki verið af hálfu þn. óskað eftir frekari upplýsingum, hvorki frá Landsvirkjun eða annars staðar frá. Þess vegna á till. hv. þm. að mínum dómi að hafna í bréfakörfunni, sem hún mun gera, þegar hún verður felld.