20.11.1969
Efri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

95. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er mjög einfalt í sniðum og felur það eitt í sér að heimila útgáfu viðbótarflokks við Happdrætti Háskóla Íslands. Svo sem í grg. frv. segir, hefur happdrættið nú heimild til að gefa út 3 flokka happdrættismiða, þriðji flokkurinn var heimilaður með l. frá síðasta Alþ. Það hefur komið í ljós við athugun á þessum málum, að það mundi vera hagkvæmara fyrir happdrættið, ekki aðeins vegna aukinna möguleika til fjáröflunar, sem vissulega er höfuðatriði, heldur af margvíslegum öðrum hagkvæmnis atriðum, að hafa flokkana fjóra, m.a. til þess að geta gefið viðskiptavinum happdrættisins meiri kost á heilmiðum, en nú er mögulegt að gera, eins og happdrættið er nú skipulagt. Eftirspurn eftir heilmiðum hefur vaxið mjög mikið á síðustu árum og í rauninni er sú eftirspurn, sem var á sínum tíma eftir hálfmiðum og fjórðungsmiðum, að mestu leyti horfin. Þetta hefur ekki hvað sízt orðið vegna þess, að það er vaxandi tilhneiging í þá átt, að menn kaupi seríunúmer og flokkar manna sameinist um það að kaupa svo og svo marga happdrættismiða og vilja þá gjarnan hafa þá heilmiða, þannig að stjórn happdrættisins telur, að það væri til mikilla hagsbóta og mundi bæta aðstöðu happdrættisins með mörgu móti, ef þessi 4. flokkur yrði heimilaður.

Því er ekki heldur að leyna, að það, sem hér liggur að baki, er að sjálfsögðu um leið að auka möguleika happdrættisins til fjáröflunar. Það er talið, að enda þótt það sé ekki von til, að allir þessir happdrættismiðar mundu seljast strax, þá mundi engu að síður vaxa verulega velta happdrættisins og möguleikar þess til fjáröflunar, en svo sem hv. þdm. er kunnugt, eru nú fram undan stórkostlegar framkvæmdir í byggingarmálum Háskólans, svo stórar, að þrátt fyrir þessa aukningu happdrættisins, sem ég tel vera brýna nauðsyn, mun happdrættið ekki geta risið undir byggingarkostnaði mannvirkja Háskólans á næstu árum, svo sem hingað til hefur verið. Hef ég áður skýrt frá því í sambandi við afgreiðslu fjárl., að samkvæmt áætlun, sem um þetta hefur verið gerð, muni þurfa á næstu árum að hefja miklar byggingarframkvæmdir á vegum háskólans og er gert ráð fyrir, að næstu 5 ár muni þurfa um 35 millj. kr. beinlínis af ríkisfé til þessara framkvæmda. Hygg ég, að geti varla verið neinn ágreiningur um það á meðal hv. þm., að með hliðsjón af öllum þessum þörfum og til þess að gera þó ekki kröfurnar á ríkissjóð meiri en brýnasta þörf krefur, þá sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að verða við þeirri ósk Háskólans að efla happdrættið og bæta fjárreiður þess og reyna með því móti að afla alls þess fjár, sem mögulegt er, til þessara mikilvægu framkvæmda skólans.

Ég vil því mjög mega vænta þess, að frv. þetta mæti góðum móttökum hér í þessari hv. þd., og raunar, að hv. deild sæi sér fært að afgr. það skjótlega frá sér, því að æskilegast væri, að frv. gæti orðið að l. nú fyrir áramót, hvernig sem stjórn happdrættisins að öðru leyti hagar svo framkvæmd þess, hvort sem hún byrjar útgáfu þessa flokks þegar í ársbyrjun, en ég tel nauðsynlegt, að gert verði mögulegt fyrir happdrættið að koma þeirri nýskipan þegar á, þannig að ekki þyrfti að stranda á því að hv. Alþ. hefði ekki veitt þá heimild.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að eyða um þetta fleiri orðum. Málið er mjög einfalt í sniðum og öllum hv. þdm. kunnugt um hlutverk happdrættisins, þannig að það þarf ekki nánar að skýra og jafnframt um mikilvægi þess, að fjárreiður til byggingarmála Háskólans verði bættar, þannig að ég vænti þess, að um málið geti orðið samstaða í hv. deild.

Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.