22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3215)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í innbyrðis viðræður þeirra hv. þm. Vesturl. eða þau átök, sem hér virðast vera að brjótast út þeirra á milli vegna flutnings þessarar till.

Þegar till. um Vestfjarðaáætlun var fyrst rædd á þingi, held ég, að flestir hafi gert sér ljóst, að á eftir mundu koma till. um önnur byggðasvæði og aðra landshluta. Sú hefur líka orðið raunin á. Á eftir Vestfjarðaáætluninni fylgdi Norðurlandsáætlunin, og nú liggur fyrir, að þegar er af opinberum aðilum farið að vinna að undirbúningi vissra þátta Austurlandsáætlunar. Það er því ekki eftir að ræða nema Vesturlandið og Suðurlandið. Þó að till. um Vestfjarðaáætlunina hafi upphaflega nokkuð verið rökstudd með því, eins og hv. frsm. þessarar till. réttilega benti á, að hún væri í og með gerð og flutt til þess að stöðva fólksflótta frá því landsvæði, þá hygg ég, að menn geti verið alveg sammála um, að kannske er ekkert síður ástæða til þess að gera byggðaáætlun um þau landsvæði, þar sem fólksfjölgun hefur átt sér stað, en um hin, þar sem fólki hefur fækkað. Byggðaáætlanir eru til þess að bæta aðstöðu þess fólks, sem á hinum tilteknu landsvæðum vill búa, og ráða þar oft mjög miklu um t.d. samgöngumálin og aðstaða til menntunar o.fl., sem til greina kemur og fólk í þéttbýli utan Faxaflóasvæðisins einnig telur sér til hagræðis og gerir landsvæðið byggilegra. Mér varð ljóst, eins og öðrum þm., að hugmyndin um byggðaáætlanir mundi fara yfir landið allt, og hef ég verið með hugleiðingar um að beita mér fyrir sams konar till. um Suðurlandskjördæmi. Segja má, að það hafi að sumu leyti ekki verið eins aðkallandi, vegna þess að þar hefur atvinnuástand yfirleitt verið með betra móti en víða annars staðar. En það eru margir þættir, sem gera það sjálfsagt, að einnig það svæði verði tekið til athugunar og tekið til greina í sambandi við þær byggðaáætlanir, sem nú eru uppi. Vel má vera, að það liggi kannske nokkuð beint við, þegar ekki er um að ræða nema þau tvö landsvæði, sem ég hef minnzt á, Vesturland og Suðurland, sem ekki er þegar farið að vinna að byggðaáætlun um, að flytja brtt. við þá till., sem hér liggur fyrir, en ég vil ekki gera það nema ræða það mál frekar við hv. flm. þessarar till. Svona fljótt á litið sé ég ekki, að það geti verið neitt til trafala því máli, sem hér er flutt, heldur kannske frekar því til stuðnings, og ef ríkisvaldið telur eðlilegt, að einnig um þau svæði, sem eftir eru, verði gerðar svipaðar byggðaáætlanir og gerðar hafa verið um önnur landsvæði, þá væri það auðvitað vinnuhagræðing fyrir þá aðila og þær stofnanir, sem um þessi mál fjalla fyrir hönd ríkisvaldsins, að fá þessi landsvæði bæði samþ. á Alþ. í einni og sömu till.

Ég vildi við þetta tækifæri láta koma fram, að ég tel það enga forsendu, að það eigi endilega að ráða, að fólksfækkun eigi sér stað, til þess að byggðaáætlun verði samin, heldur sé ekki síður þörf á því margra hluta vegna, bæði í sambandi við samgöngumál o.fl., að svipaðar áætlanir séu einnig gerðar um staði utan þéttbýlisins við Faxaflóa, þar sem fólksfjölgun hefur átt sér stað á undanförnum árum og kemur þá Suðurlandskjördæmi vissulega til greina ekki síður en aðrir landshlutar og önnur kjördæmi, þegar farið er að vinna að byggðaáætlunum.