22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3216)

17. mál, Vesturlandsáætlun

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að þreyta kappræður í sambandi við þessa till. til þál. á þskj. 17 og heldur ekki út af þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru í sambandi við flutning á henni. Hins vegar vil ég undirstrika það, sem hv. 4. landsk. sagði áðan, að það hefur með litlum undantekningum verið þegjandi samkomulag hjá okkur Vesturlandsþm. að flytja mál sameiginlega, er okkar kjördæmi hafa varðað, og ég held, að óhætt sé að segja það, að við þm. Framsfl. og Sjálfstfl. höfum haldið þessa reglu. Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, þó að hv. þm. breyti út af þessu, því að það er þeirra mat sjálfra en ekki annarra og ekki við neinn að deila, þó að þeirra skapgerð horfi í þá átt.

Út af málinu vil ég hins vegar segja það, að hér á hv. Alþ. voru hinn 29. apríl 1966 afgreidd lög um Atvinnujöfnunarsjóð. Í 6. gr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sjóðsins lætur gera áætlanir og undirbýr lánaákvarðanir með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar. Skal láta fram fara skipulegar rannsóknir á atvinnuástandi, samgöngum og menningarmálum einstakra byggðarlaga og landshluta.“

Í samræmi við þessi lög hefur stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs beitt sér fyrir því að láta gera Norðurlandsáætlun. Áður en þessi lög urðu til hafði Vestfjarðaáætlun verið samin. Norðurlandsáætlun er svo árangur af frumkvæði stjórnar Atvinnujöfnunarsjóðs. Í framhaldi af því, er því verki var lokið, var ákveðið á fundi stjórnar Atvinnujöfnunarsjóðs í vor að gera Austurlandsáætlun. Á þeim fundi var um það rætt, að næsta áætlunargerð yrði fyrir Vesturland. Hefur verkinu verið þannig hagað, vegna þess að stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs leit á það sem sitt hlutverk og lögin gerðu ráð fyrir því, að fyrst og fremst yrði starfinu beint að þeim landshlutum, þar sem byggð hafði verulega dregizt saman og atvinnuástandið var lakast. Þess vegna hafa vinnubrögð verið þessi og Vesturland hefur ekki komið fyrr í þeirri röð, þar sem þar hafði ekki verið um fækkun að ræða í byggðinni og atvinnuástandið hafði þó verið betra þar en annars staðar.

Þó vil ég geta þess í sambandi við þetta mál og það, sem hv. 4. landsk. þm. vék að áðan í sambandi við atvinnumálin á Vesturlandi, að fyrir tveimur árum var á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs gerður út leiðangur um Vesturlandskjördæmi til þess að athuga stöðu frystihúsanna þar. Staða frystihúsanna á Snæfellsnesi var mjög bágborin og allt útlit fyrir, að þau yrðu að hætta rekstri. Árangurinn af þessu var sá, að á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs voru frystihúsunum lánaðir verulegir fjármunir, sem urðu til þess að koma á betra ástandi í atvinnulífi þar vestra. Og ég vil segja það, að við þm. Vesturl. unnum að þessu máli sameiginlega við lánastofnanir, og þessi mál voru þar leyst af hendi. Þess vegna er mér fullkomlega ljóst, að betur má, ef duga skal í sambandi við atvinnumál þar vestra, en ég geng ekki inn á það, að við höfum ekkert gert til þess að styðja að þeim málum, sem til batnaðar hefur orðið. Það er ekki mitt mat á því. Ég vil líka segja í sambandi við þetta mál, að á s.l. vetri studdi Atvinnujöfnunarsjóður og greiddi verulega úr í sambandi við skipakaup í Vesturlandskjördæmi út frá athugunum, sem gerðar höfðu verið á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs. Ég veit það líka jafn vel og hinir hv. þm., að hér höfum við engu verki lokið, heldur verður að vera áframhald á því.

Ég skal ekki fara að deila um þá áætlun um tölur, sem hv. 4. landsk. nefndi um væntanlegt atvinnuleysi í Borgarnesi á næsta vetri. Samt kemur mér á óvart, ef það ætti eftir að reynast rétt. En í sambandi við það mál tel ég, að mestu skipti, að þau séu athuguð, og ég tel, að samkvæmt landslögum eigi Atvinnujöfnunarsjóður að sjá um þá framkvæmd og hann muni gera það. En út af öðrum þáttum, sem hafa verið nefndir í sambandi við þessa þáltill. og drepið er á í grg. till., vil ég víkja aðeins að samgöngumálunum. Í fyrsta lagi vil ég segja í sambandi við brúargerð yfir Borgarfjörð, sem hér var nefnd af hv. 5. þm. Vesturl., að það mál hefur sjálft rutt sér brautina, og það var a.m.k. fyrir mig mikið ánægjuefni, er ég sá það í athugun, er gerð var á samgöngumálum hér á landi af dönskum verkfræðingum, sem ferðuðust hér á vegum Efnahagsstofnunarinnar og Vegagerðarinnar, að þar var þetta talið í hópi sex eða sjö beztu verka, er til framkvæmda kæmu í vegagerðinni hér á landi. Þess vegna hefur verið nægur tími til þess að athuga þetta mál. Það, sem hefur skort á, er, að stjórnvöld hafa verið treg til að leggja fram fé til þess. Ég vil líka minna á, að fyrir tveimur árum eða svo fluttum við allir þm. Vesturl. sameiginlega till. um athugun á samgöngumálum Vesturlands og sérstaklega Hvalfjarðar. Í þetta mál var skipuð nefnd, sem starfar síðan og hefur fjárveitingu til starfsins og er að vinna að þessu máli, svo að ég vona, að þessi atriði geti verið gott innlegg í þá áætlun, sem gerð verður um Vesturlandsmálið. Ég vil líka segja frá því, að á hv. Alþ. í fyrra vorum við Vesturlandsþm. búnir að semja frv. um breyt. á lögum um menntaskóla, þar sem við ætluðum að leggja til, að stofnaður yrði menntaskóli í Vesturlandskjördæmi. Við vorum ekki búnir að flytja það frv., þegar frv. um menntaskólana kom inn í þingið, og að athuguðu máli og með samkomulagi okkar allra var fallið frá því á því stigi að flytja frv. í fyrra, m.a. til þess að tefja ekki fyrir málinu í heild, sem við töldum að ætti þá að ná fram að ganga og töldum það til hagsbóta fyrir landsmenn yfirleitt og vildum ekki tefja fyrir því, að gott mál næði fram að ganga. Hins vegar eru möguleikar til þess að koma þessu máli fram á veg í sambandi við menntaskólafrv., fyrst það er hér enn á ferðinni og nú snemma þings, og ég efast ekki um samstöðu okkar Vesturlandsþm. til þess að koma því áfram.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vildi skýra frá þessu og jafnframt því, að áætlunargerð fyrir Vesturland mun verða gerð á vegum Atvinnujöfnunarsjóðs eins og lög hans segja til um, og það verður ekkert, sem tefur það verk, nema talið verði af sérfróðum mönnum, að mannafli sé ekki meiri en svo, að því verði ekki hrundið í framkvæmd á meðan unnið er að Austurlandsáætluninni, en ég vona, að það þurfi ekki að dragast lengi. Hins vegar vil ég undirstrika, að það eru ýmis vandamál í atvinnumálum þar vestanlands, sem við Vesturlandsþm. verðum að vinna að nú þegar til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi.