17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

195. mál, símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég geri mér að sjálfsögðu ljóst, að hliðstætt misræmi í símagjöldum og þáltill. mín fjallar um að verði leiðrétt varðandi Brúarlandssvæðið og nágrannasvæði Reykjavíkur, getur verið fyrir hendi annars staðar á landinu. Og satt að segja reiknaði ég með því, miðað við þá venju, sem verið hefur hér við störf þingsins, að till. um úrbætur á þeim stöðum kæmu fram sem brtt. frá þm. þeirra staða, þar sem kann að vera um að ræða misrétti í sams konar málum. Ef flutningur þessarar þáltill. getur orðið til þess, að þessi mál verði endurskoðuð í heild og gerðar sérstakar ráðstafanir til að samræma símagjöld um allt landið, þá mun ég vissulega fagna því. En ég legg áherzlu á það eftir sem áður, að bætt verði úr svo augljósu misrétti sem á sér stað á milli Reykjavíkursvæðisins annars vegar og Brúarlandssvæðisins hins vegar svo og á Suðurnesjasvæðinu innbyrðis í samanburði við Reykjavík og nágrannabyggðir Reykjavíkur. Og ég tel ástæðulaust að láta þá leiðréttingu bíða, sem gera þarf til að bæta úr þessu misrétti. Hæstv. ráðh. minntist á það hér áðan, að fyrir nokkrum árum hefði verið gerð leiðrétting á símagjöldum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það var gert, án þess að nokkur heildarendurskoðun færi fram á þessum málum og það virðist, að enn ætti að vera hægt að bæta úr augljósustu mistökum nú þegar. Sú leiðrétting, sem hér er gerð till. um, getur ekki spillt fyrir öðrum nauðsynlegum lagfæringum og samræmingu, sem gera þarf annars staðar á landinu, öðru nær. Samþykkt þessarar till. mundi að mínum dómi flýta fyrir því, að þessi mál yrðu endurskoðuð. Og mér þætti vissulega vænt um, ef flutningur þessarar þáltill. gæti orðið til þess að flýta afgreiðslu þessara mála í heild.