30.01.1970
Neðri deild: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekkert gagnrýna það, þó að menn hafi mismunandi skoðanir á því, hvernig framkvæmdastjórnin skuli skipuð, en ég vara alvarlega við samþykkt þessarar brtt., því að með því er verið að hafna samningnum, sem gerður var við hin Norðurlöndin, og það er í raun og veru sama sem sú samningsgerð þurfi að takast upp aftur, hvort sem það mundi bera árangur eða ekki, um það skal ég ekki tjá mig, en þetta vil ég, að menn geri sér ljóst. Ég vil svo taka fram það, sem ég hafði ætlað mér, en gleymdi áðan, en hv. 10. þm. Reykv. vék að, að bankaráð bankanna er yfirstjórn bankanna, og það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt og ég hef alltaf gert ráð fyrir því, að bankaráðin fái til meðferðar og ákvörðunar tilnefningu á þessum mönnum af hálfu bankanna.