29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

39. mál, landgræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Til þess að geta svarað þessari fsp., sem hv. 1. þm. Austf. ber hér fram, sneri ég mér til landgræðslustjóra og fulltrúa hans, Ingva Þorsteinssonar, sem sér aðallega um gróðurverndarstarfið, og spurðist fyrir hjá þeim, hvert þeirra álit væri, því að þeir hafa á undanförnum árum gert áætlun um það, hve mikið fjármagn þyrfti til þessara hluta. Þannig var það í marzmánuði s.l., að Ingvi Þorsteinsson gerði áætlun um, hvað líklegt væri, að þyrfti að nota á sumrinu 1969. En eins og kunnugt er, var framboð af ungu fólki til þessa starfs svo miklu meira á s.l. sumri en búizt var við, miklu meira en á árinu 1968 og meira á árinu 1968 en hafði verið á árinu 1967. Til þess að geta svarað þessari fsp. þótti mér sjálfsagt að snúa mér til þessara tveggja ágætu manna, sem þessu eru kunnugastir og biðja þá um áætlun um það, hvað líklegt væri, að þyrfti til þessarar starfsemi á sumrinu 1970. Og með leyfi hæstv. forseta er hér það, sem landgræðslustjóri hefur um þessi mál að segja, og tel ég rétt að lesa það allt upp, enda þótt það sé kannske í óþarflega löngu máli:

„Samkvæmt samtali við yður, hr. landbrh., 22. þ. m. vil ég upplýsa eftirfarandi: Vegna þátttöku sjálfboðaliða við sáningu og áburðardreifingu á örfoka land s.l. sumar hef ég í þessu sambandi tekið saman ýmsar nótur og reikninga, sem Landgræðslan hefur greitt vegna þessarar starfsemi, svo sem flutning á áburði og fræi, póst og ýmsan kostnað. Þessi kostnaður er orðinn um 200 þús. kr. og var mér tjáð af Pálma Péturssyni, gjaldkera rannsóknastofnana atvinnuveganna, að ýmsir reikningar væru ókomnir til innheimtu. Þar sem liðlega 100 tonnum af fræi og áburði var dreift s.l. sumar á þennan hátt, verður beinn kostnaður Landgræðslunnar, fyrir utan áburð og fræ, ekki undir 2 þús. kr. á tonn og verður það að teljast mjög mikill kostnaður, þegar miðað er við hagkvæmari aðferðir og sér í lagi við notkun flugvéla, sem reyndist s.l. sumar um 800 kr. á tonn, þ.e. rekstur flugvélarinnar, viðhald og afskriftir. Þar, sem hagkvæmast er að bera á, t.d. í Gunnarsholti, hefur dreifingarkostnaður aðeins orðið 200–300 kr. pr. tonn. Ef flugvélin hefði dreift þessu magni í viðbót, hefði það kostað um 30 þús. kr., þar sem allir liðir flugvélarinnar, nema kaup flugmanns og benzín, hefðu orðið óbreyttir. Áburðurinn og fræið, sem dreift var af sjálfboðaliðum s.l. sumar, kostaði um 1 millj. kr. Ég tel, að auðvelt væri að fá meiri þátttöku af hendi sjálfboðaliða, þar sem þessar ferðir eru í og með byggðar upp sem skemmtiferðir,“ það eru hans orð, — „en að sama skapi mundi hinn beini kostnaður Landgræðslunnar aukast, þar sem staðirnir yrðu fleiri. Ef t.d. á næsta ári ætti að tvöfalda þessa starfsemi, þyrfti að auka fjárveitingu til Landgræðslunnar um 1.2–1.4 millj. kr. frá því, sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1970. Mestumhluta af þeim áburði og fræi, sem sjálfboðaliðarnir hafa dreift, hefur verið dreift á opnum svæðum, svo að viss sveitarfélög hafa notið góðs af til beitar. Væri því ekki úr vegi, að þessir aðilar, hrepps- og sveitarfélög, legðu eitthvað af mörkum, t.d. flutninga á áburði og fólki og annan beinan kostnað við þetta starf. Minna má á, að þar sem Landgræðslan hefur borið á gróið land með flugvél fyrir sveitarfélögin, greiða viðkomandi aðilar áburðinn, en ef sáð er í lítt gróið land, leggur Landgræðslan til sáðvörur og áburðinn að hálfu leyti. Þarna þyrfti að vera meira samræmi, svo að ekki skapist óánægja. Árangurinn hjá þessu sjálfboðafólki hefur verið mjög misjafn, enda á byrjunarstigi. Kemur það mest til af röngum dreifingartíma og vali á landi, sem verður að breytast til hins betra. Í þessu sambandi vil ég minna á áhugasamtök, svo sem Lions-klúbbinn Baldur í Reykjavík, sem hefur tekið fyrir ákveðið uppblásturssvæði við Hvítanes í Biskupstungum. Þessir aðilar borga áburðinn, en Landgræðslan dreifir honum, enda hagkvæmt vegna þess, að það er gert á sama tíma og áburðardreifing er framkvæmd á Haukadalsheiði í Biskupstungum. Ég tel sjálfsagt að nýta og virkja þennan vinnukraft og legg þar mest upp úr almenningsálitinu að fá skilning fólksins á málefninu, sem er mjög mikils virði. Hagkvæmt væri fyrir Landgræðsluna að beina þessum vinnukrafti til að stinga niður rofabörð þar sem erfitt er að koma að vélum og sér í lagi að safna melfræi að hausti, sem verður ekki framkvæmt nema með mannshöndinni.“

Þetta er það, sem landgræðslustjóri hefur um málið að segja. Hann telur, að það þurfi að hækka fjárveitinguna í þessu skyni um 1.2-1.4 millj. kr. Ingvi Þorsteinsson segir hins vegar nokkuð svipað, en þó ekki að öllu leyti. Sumarið 1963 hófst samvinna milli Landgræðslu ríkisins og Ungmennafélags Íslands um skipulagningu sjálfboðavinnu við uppgræðslu lands og heftingu gróðureyðingar. Tveim árum áður hafði slík samvinna tekizt milli Landgræðslunnar og Lions-hreyfingarinnar á Íslandi. Tilgangurinn var öðru fremur sá að vekja athygli landsmanna á hinni alvarlegu gróður- og jarðvegseyðingu, sem hér á sér stað. Enn fremur að kanna, á hvern hátt bein þátttaka kæmi að sem beztu gagni. Síðan hefur Landgræðslan, bæði í samvinnu við ungmennafélagshreyfinguna og önnur samtók, skipulagt slíkar landgræðsluferðir eftir því sem fjármagn hefur leyft. Hefur starfinu verið beint að þeim svæðum, þar sem gróðureyðingin er örust, bæði á hálendi og láglendi. Frá upphafi var áhugi fyrir þátttöku í þessu starfi mjög mikill og hefur síðan farið ört vaxandi. Sumarið 1968 var varið um 600 þús. kr. af fjármagni Landgræðslu ríkisins í þessu skyni og var þá dreift rúmlega 70 tonnum af áburði og fræi. Þá taka um 220 manns þátt í ferðunum, aðallega frá ungmennafélögum víðs vegar um landið. Á þessu ári var varið um 900 þús. kr. af fjárveitingu Landgræðslunnar til sjálfboðastarfsins, það var í samræmi við áætlun, sem ég gerði í marzmánuði s.l., og sveitarfélög og einstaklingar lögðu fram um 100 þús. kr. Var sáð 130 tonnum af áburði og fræi og varð árangur sem fyrr með ágætum, enda var ekki vætu vant. Um 600 manns tóku þátt í ferðunum í sumar, bæði frá ungmennafélagshreyfingunni og öðrum óskyldum félögum og samtökum. Greiddu þau að langmestu leyti sjálf kostnað við ferðirnar og var hlutur Landgræðslunnar í honum aðeins um 30 þús. kr. Nær öllu fjárframlaginu var því varið til áburðar- og frækaupa. Óskir almennings um þátttöku í landgræðslustarfinu fóru s.l. sumar langt fram úr því, sem gert hafði verið ráð fyrir. Hefði verið unnt að sá allt að helmingi meira magni en gert var, með þeirri aðstoð, sem bauðst, ef fjármagn hefði verið fyrir hendi. Þó var ekki eingöngu unnið að sáningu, heldur einnig öðrum nauðsynlegum störfum, svo sem uppsetningu girðinga, söfnun melfræs o.fl. Samkv. þessu er áætlað, að til þess að Landgræðsla ríkisins geti fullnýtt það sjálfboðavinnustarf, sem stendur til boða á næsta ári, þyrfti að auka fjárveitinguna í því skyni úr 900 þús. kr. í 2.5 millj. M.ö.o.: álit Ingva er, að auka þurfi framlagið um 1.6 millj., en landgræðslustjóri telur, að 1.2–1.4 millj. þurfi til þess og ber því ekki mikið á milli. Sú reynsla, sem fengizt hefur með þessu starfi, sýnir, að:

1. Almenningur hefur mikinn áhuga á beinni hlutdeild í landgræðslustarfinu.

2. Bein þátttaka er bezta leiðin til þess að vekja skilning á því, hve alvarlegt vandamál gróðureyðingin er.

3. Þrátt fyrir tækni nútímans er full þörf fyrir mannshöndina við þau mörgu verkefni, sem óunnin eru á sviði landgræðslu á Íslandi.

Þetta er það, sem fulltrúi landgræðslustjóra hefur um málið að segja og má segja, að þeir séu báðir sammála um það, að nýta beri það vinnuafl, sem þannig býðst og sem verður til þess að auka skilning almennings á þessum málum. Og ég er þeim innilega sammála um þetta.

Nú er það svo, að á fjárlögum yfirstandandi árs eru 12.9 millj. kr. til landgræðslu og gróðurverndar. Í frv., sem nú liggur fyrir Alþ. til fjárl. fyrir árið 1970, er þessi upphæð 13.6 millj., hefur verið hækkuð um 700 þús. Þar af mun vera vegna launahækkana um 200 þús., þannig að hækkun til starfseminnar er því einungis 1/2 millj. Nú fer það eftir því, hvort menn vilja draga þessa 1/2 millj. frá eða hugsa sem svo, að Landgræðslunni veiti ekkert af þeirri upphæð, en alla vega er það svo, að það sýnist vanta 1–11/2 millj. kr. til þess að hægt sé að fullnægja eftirspurninni í þessu starfi á næsta sumri, og liggur það alveg ljóst fyrir. Í sambandi við það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að nú reyndi á það, hvað Alþ. vildi um þetta segja eða þeir ráðamenn, sem hafa með þetta að gera, þá vil ég taka það fram, að þetta er nýjung í starfi Landgræðslunnar og á undanförnum tveimur árum hefur verið farið eftir þeirri áætlun, sem gerð hefur verið af þeim mönnum, sem hafa með þessa framkvæmd að gera. En áætlunin hefur á engan hátt staðizt og eins og Ingvi Þorsteinsson segir í sínu bréfi, þó var framboðið á vinnukraftinum miklu meira, helmingi meira en reiknað var með, og þá var vitanlega ekki nægjanlegt fé til þessarar starfsemi. En jafnvel þótt fjárveitingin á þessu ári væri ekki nema 12.9 millj., þá hefði það vitanlega komið til álita, hvort ekki hefði átt að verja meiru í þessu skyni af heildarfjárhæðinni en gert var, ef það hefði legið fyrir s.l. vor í marz–aprílmánuði, þegar áætlunin var gerð, að það þyrfti svo mikið til þess að geta nýtt þennan vinnukraft. Ég segi: Það hefði verið álitamál, hvort ekki hefði verið rétt að taka meira af heildarfjárhæðinni. En það er vissulega ánægjulegt, að það eru ekki aðeins hv. alþm., sem allir eru sammála um nauðsyn þess að auka fjárveitingar til landgræðslu, heldur virðist almenningsálitið vera komið alveg að einum punkti í þessu máli, að það vilja allir eitthvað á sig leggja, eins og sagt hefur verið, til að uppfylla skyldurnar við þjóðfélagið og græða upp fósturjörðina. Vísindamönnum ber nú ekki alveg saman um það, hvort gróðureyðingin er í dag meiri en það, sem upp er grætt. Það skiptir vitanlega miklu máll, hvort svo er. Ég hef talað við vísindamenn, sem telja, að við munum vera búnir að snúa vörn í sókn og það muni gróa upp fullt eins mikið og það, sem eyðist. En jafnvel þó að við værum sannfærðir um, að við græddum meira upp árlega en það, sem eyðist, þá á það ekki að verða til þess, að við teldum ekki samt sem áður nauðsynlegt að auka þessa starfsemi. Og fjárframlög til þessarar starfsemi hafa aukizt ár frá ári, ekki aðeins í krónutölu, heldur raunverulega og þess vegna er það, að við teljum, að það hafi verið hafin sókn, ekki aðeins varnarsókn, heldur hafi miklu meira áunnizt í gróðurmálum en uppblæstri nemur. Og við skulum vona, að skoðun þeirra vísindamanna, sem það segja, sé réttari en hin, en jafnvel þótt svo væri, er vissulega nauðsynlegt að nýta alla þá orku og alla þá fjármuni, sem fáanlegir eru í þetta málefni.