12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í D-deild Alþingistíðinda. (3532)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Á dagskrá hins háa Alþ. í dag eru tvær fsp. um ráðstöfun atvinnumálanefndar ríkisins á fé samkv. lögum nr. 9 frá 1969. Þessum spurningum er ekki unnt að svara, svo að gagni verði, nema með nokkru heildaryfirliti, og hygg ég, að efnislega muni það svar, sem ég nú gef, eiga við báðar fsp., fram hjá því verður ekki komizt.

Á s.l. sumri var samið töluyfirlit um ráðstöfun fjárins, þegar atvinnumálanefnd ríkisins hafði lokið þeirri úthlutun, og var það yfirlit síðan sent atvinnumálanefndum kjördæmanna. Ég hef nú gert ráðstafanir til þess, að alþm. fái þetta yfirlit ásamt þeim skýringum, sem atvinnumálanefndunum var sent, og hygg ég, að því hafi nú verið útbýtt hér í þinginu. Í yfirliti þessu er að finna 7 töflur, sem gefa upplýsingar um lánaumsóknir og greiðslur atvinnumálanefndar ríkisins. Töflurnar eru miðaðar við lok júlímánaðar. Síðan hefur atvinnumálanefnd ríkisins aðeins veitt eitt lán að upphæð 1.1 millj. kr., sem vilyrði hafði áður verið gefið um, og í gær var ráðstafað til fulls litlum hluta af fé, sem áður hafði verið lagt til hliðar í ákveðnu skyni. Síðan hafa örfáar nýjar umsóknir borizt, enda hafði þá þegar verið ráðstafað því fé, sem nefndin hafði til umráða. Töflurnar sýna því ekki aðeins umsóknir og afgreiðslur eins og þær voru 31. júlí, heldur í öllu því, sem máli skiptir, hvernig mál standa nú í dag. Ég tel óhjákvæmilegt að skýra þessar töflur og þar með störf atvinnumálanefndar ríkisins nokkru nánar.

Eins og kunnugt er fékk atvinnumálanefndin upphaflega til ráðstöfunar 300 millj. kr. Þar af voru 200 millj. kr. erlent lánsfé, sem aflað var fyrir milligöngu ríkissjóðs fyrri hluta þessa árs, og 100 millj. kr. innlent lánsfé, sem aflað var að hálfu á þessu ári, en mun að hálfu verða aflað á næsta ári. Þegar ljóst varð, að erfitt mundi vera að sinna aðkallandi verkefnum innan þessara marka, beitti ríkisstj. sér fyrir öflun 40 millj. kr. bráðabirgðaláns, er greiða ber á næsta ári og þá af þeim afborgunum, sem fást af lánveitingum nefndarinnar til opinherra framkvæmda, en lán til þeirra voru veitt til skamms tíma, þ.e. til eins til þriggja ára. Nefndin hefur því alls haft til umráða 340 millj. kr. Eins og töflurnar bera með sér, eru lánveitingar nefndarinnar og lánsvilyrði þann 31. júlí um 343 millj. kr. eða ívið hærri en ráðstöfunarféð var. Nokkur þeirra lána, sem nefndin hefur veitt, munu hins vegar ekki koma til útborgunar, þegar til á að taka, þannig að í reynd mun ráðstöfun nefndarinnar áreiðanlega reynast innan marka þeirra 340 millj. kr., sem hún hafði til umráða. Af þessari fjárhæð hafa þegar verið greiddar út rúmlega 190 millj. kr.

Af þeim 343 millj. kr., sem nefndin úthlutaði, eru 50 millj. kr. til nýsmíði fiskiskipa innanlands og 52 millj. kr. eru lánsvilyrði til eflingar fiskveiða í nokkrum kaupstöðum. Að þessum ákvörðunum nefndarinnar mun ég víkja nánar síðar. Þessar tvær upphæðir, samtals 102 millj. kr., eru ekki staðbundnar nema að nokkru leyti, og eru þær því ekki sýndar í því yfirliti á töflum 1 og 2, sem gleggsta yfirsýn gefa um lánveitingar nefndarinnar eftir landshlutum. Þar er aðeins sýnd skipting þessara 241 millj. kr. Í þessum tveim töflum eru einnig sýndar lánveitingar Atvinnujöfnunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs á tímabilinu 1. jan. 1968 til 1. júlí 1969, en óhjákvæmilegt er að taka tillit til lánveitinga þessara tveggja sjóða til að öðlast heildaryfirsýn um þessi mál. Taflan sýnir þó ekki lánveitingar Fiskveiðasjóðs vegna fiskiskipa, því að þær lánveitingar eru vegna nýsmíði skipa og meiri háttar viðgerða og þess vegna annars eðlis en þær lánveitingar atvinnumálanefndar og Atvinnujöfnunarsjóðs vegna fiskiskipa, sem hér eru taldar. Þessir tveir sjóðir hafa unnið að lausn sams konar vandamála og atvinnumálanefnd ríkisins, og hafa þeir í mörgum tilvikum tekið að sér að nokkru eða öllu leyti mál, sem um var leitað til atvinnumálanefndanna. Þá voru þessir aðilar þegar á s.l. ári eða í byrjun þessa árs oft búnir að leysa vandamál, sem ella hefðu komið til kasta atvinnumálanefndarinnar. Töflurnar bera það með sér, að í þeim kjördæmum, þar sem lán Atvinnujöfnunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs hafa verið tiltölulega mest, hafa lán atvinnumálanefndarinnar verið tiltölulega lítil.

Í sambandi við skiptingu lánveitinga á milli kjördæma ber að hafa í huga, að störf atvinnumálanefndanna hafa ekki verið við það miðuð að stuðla að byggðajafnvægi í landinu. Slíkt er verkefni Atvinnujöfnunarsjóðs. Enn síður var það verkefni nefndanna að skipta því fé, sem til umráða var, á milli kjördæma í hlutfalli við fólksfjölda. Skylda nefndanna var að vinna eftir föngum bug á því atvinnuleysi, sem varð á s.l. vetri, og beina því fé, sem til umráða var, til þeirra landshluta, fyrirtækja og framkvæmda, þar sem telja mátti, að það mundi hafa mest áhrif til að tryggja atvinnu, ekki aðeins í bráð, heldur og í lengd. Þetta hefur atvinnumálanefnd ríkisins leitazt við að gera í samráði við atvinnumálanefndir kjördæmanna. Metingur á milli einstakra kjördæma í sambandi við þessar lánveitingar byggður á mannfjölda eða nauðsyn á jafnvægi í byggð landsins á þess vegna hér ekki við.

Heildarupphæð lánveitinga atvinnumálanefndar ríkisins og þeirra tveggja sjóða, sem fyrr eru nefndir, á tímabilinu 1. jan. 1968 til 1. júli 1969, að lánum Fiskveiðasjóðs til fiskiskipa undanteknum, nam 567 millj. kr. Lánveitingar til Reykjaness, Vestfjarða og Suðurlands hafa numið um 59 millj. kr. til hvers kjördæmis um sig, til Vesturlands 68 millj. kr., Austurlands 75 millj. kr., til Norðurlands, þ.e. bæði Norðurl. v. og Norðurl. e., 165 millj. kr., en til Reykjavíkur 81 millj. kr. Þessar tölur eru þó ekki tæmandi, vegna þess að þá er sleppt þessum rúmlega 100 millj. kr., er ég drap á áðan. En af þeim er þegar ákveðið, að Reykjavík fái a.m.k. 26 millj. kr. Samanborið við mannfjölda eru lánveitingarnar hæstar á Austurlandi, þar næst mjög svipaðar á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi, mun lægri á Suðurlandi og lægstar á Reykjanesi og í Reykjavík. Kemur hér í ljós, að lánveitingar atvinnumálanefndar ríkisins og þeirra tveggja sjóða, sem hér eru nefndir, hafa á þessu tímabili mjög einbeitzt að eflingu sjávarútvegs og aðlögun hans að nýjum aðstæðum eftir þau geigvænlegu áföll, sem hann hefur orðið fyrir af völdum aflabrests og verðfalls. Landshlutarnir utan Suðvesturlands hafa fyrst og fremst notið góðs af þessum aðgerðum. Á hinn bóginn hefur Reykjavík og nágrenni hennar notið tiltölulega mests góðs af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til að örva byggingarstarfsemi, bæði á s.l. vetri og nú á þessu hausti, og til þess að stuðla að eflingu iðnaðarframleiðslunnar með auknum rekstrarlánum. Um þau efni hafa áður verið gefnar sérstakar yfirlýsingar, og skal ég því ekki rekja það frekar. Þær fjárupphæðir, sem varið var í þessu skyni, eru hins vegar ekki taldar með í þeim töflum, sem hér eru sýndar, enda ekki ráðstafað af þeim aðilum, sem hér eru taldir. Einnig munu Reykjavík og Reykjanes njóta tiltölulega meira góðs en aðrir landshlutar af þeim rúmum 100 millj. kr., sem ég hef tvídrepið á áður, svo og af nýsmíði fiskiskipa innanlands.

Þær 52 millj. kr., sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur ákveðið að verja til eflingar fiskveiða, munu ganga til þeirra kaupstaða landsins, þar sem togaraútgerð hefur verið mikilvægust og þörfin fyrir endurnýjun togara er brýnust, þ.e. til Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Akureyrar og Siglufjarðar. Helmingur upphæðarinnar mun ganga til Reykjavíkur, en helmingur til hinna kaupstaðanna þriggja, en þá skiptingu er ekki búið að ákveða og þess vegna ekki hægt að telja þessar upphæðir með í því yfirliti, sem þm. hafa fengið og þar sem greint er á milli þess, hvað hefur runnið til hvers kjördæmis. Ráðstöfunin mun byggjast á tillögum frá stöðunum sjálfum, sem atvinnumálanefndin samþykkir, en slíkar tillögur liggja enn ekki fyrir nema að litlu leyti. Í gær var þó samþ. að lána hér um bil 2 millj. kr. af þessu fé til fyrirgreiðslu línubátaveiði frá Reykjavík, en það er af þeim 26 millj., sem Reykjavík hvort eð er hafði verið ætlað.

Þá ákvað atvinnumálanefnd ríkisins að verja 50 millj. kr. til nýsmíði fiskiskipa innanlands. Mun þessu fé varið í samráði við Fiskveiðasjóð til þess að veita 10% viðbótarlán umfram lán Fiskveiðasjóðs til skipa, sem bygging er hafin á eftir áramót 1968–1969 og til þess að veita skipasmíðastöðvum bráðabirgðalán upp í væntanleg framlög eigenda, ef bygging verður að hefjast áður en kaupandi er fyrir hendi, og er síðara atriðið algert nýmæli. Þessar ráðstafanir hafa stuðlað að því að glæða nýsmíði fiskiskipa, sem nú fer mjög vaxandi í skipasmíðastöðvum um allt land.

Enda þótt meginstefna atvinnumálanefndanna hafi frá upphafi verið sú að glæða atvinnurekstur í landinu og auka með þessu atvinnu til langframa, hafa nefndirnar talið nauðsynlegt að verja verulegum upphæðum til opinberra framkvæmda. 97 millj. kr. hefur verið varið í þessu skyni og þar að auki 16 millj. kr. til ýmiss konar framkvæmda til að auka atvinnu skólafólks á s.l. sumri. Þessar framkvæmdir voru undantekningarlaust mikilvæg forsenda til eflingar atvinnulífs á staðnum og oft fljótvirkasta ráðstöfunin í því skyni. Þessu fé var einkum veitt til hafnargerða, hitaveitna og vatnsveitna, en einnig til tveggja sjúkrahúsbygginga. Yfirleitt á þetta fé að endurgreiðast á næstu þremur árum af framlögum ríkis og sveitarfélaga til opinberra framkvæmda. Munu endurgreiðslurnar á næstu árum ganga til greiðslu þess bráðabirgðaláns, sem tekið var á þessu ári, en munu síðan að einhverju leyti geta gengið til nýrra lána til atvinnufyrirtækja.

Lán atvinnumálanefndar ríkisins vegna fiskiskipa eru samtals 55 að upphæð 29 millj. kr. Hafa öll þessi lán gengið til að bæta fjárhag fyrirtækja vegna erfiðleika undanfarinna ára og þá einnig til að stuðla að útbúnaði síldarskipa til þorskveiða. Öll þessi lán voru veitt á s.l. vetrarvertíð. Ásamt lánum Atvinnujöfnunarsjóðs til sömu þarfa greiddu þessi lán mjög fyrir því, að útgerð var á síðustu vetrarvertíð aukin af þeim krafti sem raun ber vitni. Vegna misskilnings, sem allmjög hefur gert vart við sig, er rétt að taka það fram, að atvinnumálanefnd ríkisins hefur ekki veitt lán í sambandi við sölu báta frá einum stað til annars eða einum landshluta til annars. Aðrir aðilar hafa þar um fjallað í þeim tilfellum, þar sem slíkt hefur verið gert, en atvinnumálanefnd á þar engan hlut að.

Lán til fiskvinnslustöðva og þá fyrst og fremst frystihúsa hafa verið 27 að upphæð 38 millj. kr. Hafa þessi lán ásamt hliðstæðum lánum Atvinnujöfnunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs miðað að tvennu: Í fyrsta lagi að því að endurbæta frystihús, þar sem frystiiðnaðinum hafði hrakað vegna síldveiðanna. Þetta átti við um Austurland allt og Siglufjörð. Í öðru lagi að því að bæta aðstöðu frystihúsa til að auka vinnslu í neytendaumbúðir, sem mjög hefur farið í vöxt á s.l. ári, svo var t.d. um allháa fjárveitingu til frystihúss Útgerðarfélags Akureyringa og raunar einnig til allmargra annarra húsa. Í þriðja lagi hafa lánveitingar til frystihúsa miðað að því að rétta við fjárhag fyrirtækja, sem illa voru stæð, ekki sízt vegna taps á útgerð síldveiðibáta. Í þessu efni hefur starfsemi Atvinnujöfnunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs þó skipt meira máli en atvinnumálanefndanna, en yfirleitt hefur verið um samvinnu og samræmdar aðgerðir þessara þriggja aðila að ræða.

Lán til iðnfyrirtækja hafa verið 24 að upphæð 51 millj. kr. Hér er um að ræða nokkur hlutfallslega stór lán til stofnunar eða stækkunar fyrirtækja, einkum skinnaverksmiðjanna á Akureyri og Sauðárkróki og skóverksmiðjunnar Iðunnar. Enn fremur eru allmörg lán til eflingar lítilla fyrirtækja víða um land, en til slíkra fyrirtækja hefur Atvinnujöfnunarsjóður einnig veitt mörg lán. Þess ber að gæta, að fá iðnfyrirtæki í Reykjavík sóttu um lán til nefndarinnar, en þau hafa að sjálfsögðu hlotið verulega fyrirgreiðslu með því rekstrarfé, sem aukið var, m.a. fyrir afskipti eða atbeina atvinnumálanefndar. Til skipasmíðastöðva og dráttarbrauta veitti atvinnumálanefndin 8 millj. kr. til 6 fyrirtækja, að mestu í því skyni að fullgera mannvirki, sem verið hafa í smíðum undanfarin ár.

Allmargar umsóknir hafa legið fyrir nefndinni um lán til stækkunar niðursuðuverksmiðja á ýmsum stöðum á landinu. Nefndin hefur enn ekki séð sér fært að afgreiða þessar umsóknir að undantekinni einni frá Sigló, síldarverksmiðjunni á Siglufirði, um aðstoð við endurbætur á geymslurými. Í gær var ákveðið að meginstefnu til að verða við umsókn fyrirtækis í Kópavogi, h.f. Ora, en enn vantar upplýsingar um nokkur atriði þar, sem þurfa að liggja fyrir, áður en málið verður endanlega afgreitt. Um niðursuðuiðnaðinn er það annars að segja, að hann á við örðugleika að etja, annars vegar vegna þeirrar miklu óvissu, sem er um öflun hráefnis, sérstaklega síldar, og hins vegar vegna örðugra markaðsskilyrða. Af hálfu verksmiðjanna sjálfra er nú verið að kanna greiðari sölumöguleika og ber að vona, að góður árangur náist af því. En hér er mál, sem víssulega verður að sinna frekar bæði af aðilum sjálfum og eftir föngum að reyna að greiða fyrir af opinberum aðilum.

Nokkrar umsóknir hafa legið fyrir atvinnumálanefndunum um styrki til fiskleitar og rannsókna í sambandi við fiskiðnað. Atvinnumálanefndin hefur, eins og kunnugt er, ekki bolmagn til að veita styrki, þar sem hún hefur eingöngu lánsfé til umráða. Á hinn bóginn hefur nefndin fjallað um nokkur þessara mála í samráði við rétta aðila. Nefndin hefur t.d. greitt fyrir rækjuleit á Austfjörðum og Vestfjörðum og enn fremur veitt lán, sem Fiskimálasjóður síðar mun breyta í styrk, til þess að framkvæma víðtæka rannsókn á notkun fiskikassa í fiskibátum í Vestmannaeyjum á s.l. sumri. Hraðfrystihúsin í Vestmannaeyjum unnu sameiginlega að þeirri rannsókn undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.

Eins og töflurnar bera með sér, hefur ekki verið hægt að verða við umsóknum 130 fyrirtækja, að upphæð 178 millj. kr. Enda þótt þessar afgreiðslur séu nefndar synjanir í töflunum, er þó oft um það að ræða, að aðrir aðilar hafa tekið við umsókninni og veitt þá fyrirgreiðslu, sem eftir var leitað, einkum Atvinnujöfnunarsjóður og Fiskveiðasjóður. Oftast hefur þetta gerzt í samráði við atvinnumálanefndina. Í öðrum tilvikum hafa þessar umsóknir þó beinzt að fyrirgreiðslu, svo sem rekstrarlánum og styrkjum, sem nefndin gat ekki látið í té. Í enn öðrum tilvikum hefur fjárhagsaðstaða fyrirtækjanna verið með þeim hætti, að lánveiting hefur ekki komið til greina eða athugun hefur bent til þess, að ekki væri hyggilegt að ráðast í þær framkvæmdir, sem um var að ræða. Þá bera töflurnar það loks með sér, að enn liggja fyrir atvinnumálanefnd ríkisins 137 umsóknir að upphæð 325 millj. kr., sem ekki hafa verið afgreiddar. Raunar má frá þessum tölum draga 10 umsóknir að upphæð 35 millj. kr., sem fjalla um nýsmíði fiskiskipa. Það mál hefur þegar verið leyst með öðrum hætti, eins og ég áður sagði. Flestar þessar óafgreiddu umsóknir hafa undanfarna mánuði verið í athugun hjá þeim aðilum, sem starfað hafa að athugunum fyrir atvinnumálanefnd ríkisins, þ.e. Atvinnujöfnunarsjóði, Fiskveiðasjóði og Framkvæmdasjóði. Þessir sjóðir hafa í allmörgum tilvikum veitt þessum fyrirtækjum fjárhagslega aðstoð, og eru líkur á, að sjóðirnir muni geta greitt úr ýmsum þessara umsókna, áður en langt er um liðið. Aðrar eru hins vegar þess eðlis, að hvorki atvinnumálanefnd ríkisins né áðurnefndir sjóðir geta sinnt þeim. Í nokkrum tilvikum er um að ræða mál, sem gera má ráð fyrir, að athuganir leiði í ljós, að séu stuðnings verð, en sjóðirnir geta ekki tekið að sér, a.m.k. ekki að svo stöddu. Þegar svo stendur á, getur orðið þörf sérstakra aðgerða og mun atvinnumálanefndin, svo fljótt sem efni standa til, fjalla um þau mál og gera um þau tillögur.

Atvinnumálanefndir kiördæmanna hafa gert ítarlegt yfirlit um atvinnuástand og horfur hver í sínu umdæmi og notið í því efni stuðnings atvinnumálanefnda einstakra staða, verkalýðsfélaga og verkalýðssambanda. Starfsmenn atvinnumálanefndar ríkisins hafa haft náið samband við einstakar atvinnumálanefndir. setið með þeim fundi og ferðazt víða um land til að kynna sér aðstæður: Atvinnumálanefnd ríkisins hefur eftir föngum stöðugt fylgzt með atvinnuástandinu og rætt um ástand og horfur atvinnumála. Allar þessar athuganir hafa ekki

aðeins haft áhrif á starf atvinnumálanefndar ríkisins, heldur einnig margra annarra aðila. Nú í haust hafa atvinnumálanefndirnar gert ítarlegar grg. um atvinnuhorfur í umdæmum sínum, sem eru til umr. hjá atvinnumálanefnd ríkisins um þessar mundir. Þá hefur Efnahagsstofnunin síðari hluta sumars að beiðni atvinnumálanefndar ríkisins samið grg. um samsetningu og eðli atvinnuleysis, sem þingflokkarnir hafa fengið til athugunar, og um atvinnuástand og atvinnuhorfur með sérstöku tilliti til byggingarstarfsemi. Í nefndinni hafa farið fram umr. um margvísleg mál, sem snerta atvinnuhorfur, og ýmsar aðgerðir ríkisstj. hafa verið ræddar í nefndinni áður en þær komu til framkvæmda og framkvæmdirnar síðan gerðar í samráði við nefndina, svo sem aðgerðir til að örva byggingarstarfsemi, bæði á s.l. vetri og nú í haust. Þá hefur atvinnumálanefndin einnig rætt og fengið grg. um rekstrarfjárfyrirgreiðslu til iðnaðarins, en bæði varðandi byggingarmálin og þessa fyrirgreiðslu til iðnaðarins hefur byrðin að lokum að mestu lent á Seðlabankanum og hann veitt mjög mikilsverða fyrirgreiðslu.

Innan nefndarinnar hafa afgreiðslur farið fram, að fenginni umsögn kjördæmanefndar, eins og lögin gera ráð fyrir, og hefur engin umsókn verið samþ., ef atvinnumálanefnd héraðs hefur lagzt gegn henni. Reynt hefur verið að láta þær umsóknir ganga fyrir um afgreiðslu og samþykki, sem kjördæmanefndir lögðu mesta áherzlu á. Allar þær umsóknir, sem afgreiddar hafa verið, hafa verið kannaðar vandlega af starfsmönnum Atvinnujöfnunarsjóðs, Fiskveiðasjóðs, Framkvæmdasjóðs og í einstökum tilvikum iðnmrn. Umsóknir um opinberar framkvæmdir kannaði Efnahagsstofnunin í samráði við rn. og stofnanir, sem hlut áttu að máli. .Álit þessara aðila hafa síðan legið fyrir nefndinni áður en ákvörðun var tekin. Ég hygg, að allir nm, séu sammála um, að mál hafi verið búin á þann veg í þeirra hendur, að til fyrirmyndar sé, og megi aðrar stofnanir þar af sitthvað læra. Í fyrstu var uppi uggur um, að þessi vinnubrögð mundu tefja afgreiðslu óhóflega. Reyndin hefur orðið sú, að afgreiðslu þeirra mála, er nefndin hafði tök á að sinna, var lokið í byrjun júlí eða um 5 mán. eftir að nefndin hóf starfsemi sína. Brýnustu málunum hafði þó að sjálfsögðu verið sinnt mun fyrr. Allar þessar ráðstafanir hafa átt verulegan þátt í því að draga úr böli atvinnuleysisins, og vil ég þakka öllum, sem hér hafa komið við sögu, gott samstarf. En að lokum vil ég geta þess, að atvinnumálanefnd ríkisins hefur verið sammála um allar atkvgr., svo að þar hefur aldrei komið til þess, að formleg atkvgr. yrði að fara fram, eða minni hluti yrði borinn ráðum af meiri hluta.