26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (3629)

903. mál, raforkumál

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. og hv. 2. þm. Austf. borið fram á þskj. 76 fsp. til raforkumrh. um nokkur atriði varðandi dreifingu raforku um sveitir. Við myndun ríkisstj. 1953 var gerð raforkuáætlun til 10 ára og ákveðið að verja til framkvæmda 250 millj. kr. á ári á áætlunartímabilinu. Hvert stórátak hér var um að ræða, má bezt sjá á því, að nú þyrfti að margfalda, sumir segja allt að tífalda, þessa upphæð til að ná sama framkvæmdamætti. Sérstök áætlun var svo gerð um dreifingu raforkunnar um sveitir. Að áætlunartímabili þessu loknu var komin önnur ríkisstj., eins og kunnugt er, og önnur raforkuáætlun hefur ekki fengizt gerð til þessa.

Orkuvinnslan er alveg utan við ramma þessarar fsp., en af dísilframleiðslunni er raunar ljót saga og rekstrarreikningar þeirra fyrirtækja eru ákaflega ömurlegir. En varðandi dreifinguna um sveitir er það að segja, að árlegar framkvæmdir við hana héldust nokkuð svipaðar fram að síðustu kosningum, um 200 sveitabýli á ári fengu rafmagn að meðaltali á árunum 1955–1966. Árið 1967 fengu 178 bæir rafmagn og eitthvað yfir 130 árið 1968, en þess ber þó að gæta, að þá var það farið að tíðkast í vaxandi mæli að taka skammtímalán til héraðsveitnanna, svo að bæjafjöldinn gefur ekki rétta mynd af framlögum ríkisins síðustu tvö árin. Nú í ár er svo gert ráð fyrir, að tengd verði 70 býli og á næsta ári, eftir fjárveitingum að dæma, varla miklu fleiri en það. Það er þess vegna augljóst, að þessi mál eru nú komin í hina mestu sjálfheldu, enda hafa fjárveitingar til dreifilínanna farið síminnkandi að framkvæmdamætti ár frá ári.

Þá hefur það einnig gerzt, að framkvæmdir hafa færzt mjög á reik, svo að erfitt er að fylgjast með því, hvert verið er að fara. Þannig fréttist það einn góðan veðurdag, að menn geti fengið línu lagða, ef þeir borgi hana sjálfir í bili, og lofar þá ríkið að greiða kostnaðinn síðar, en án vaxta eins og kunnugt er. Einnig hefur það frétzt, að menn geti fengið línu, ef þeir borgi úr eigin vasa kostnaðinn við það, sem er umfram 1.5 km á milli bæja að meðaltali og skiptir þá ekki máli, þó að línan hafi ekki áður verið samþ. í orkuráði, að því er manni skilst.

Enginn veit svo lengur með sannindum, eftir hvaða reglum er hér farið um þetta. Þetta er fremur óviðfelldið ástand, svo að ekki sé meira sagt.

Fsp. okkar er fram borin til þess að fá upplýst ýmis atriði hér að lútandi, m.a. eftir hvaða reglum hefur verið unnið, síðan lán og jafnvel bein framlög einstaklinga tóku að hafa afgerandi áhrif á framkvæmdir og röð þeirra, og svo hvernig lánamál þessi standa nú í dag. Þá er í síðustu liðum fsp. rætt um heildaráætlun um rafvæðingu þeirrar byggðar, sem enn hefur ekki verið tengd samveitum, og hvað ríkisstj. hyggst gera til að greiða fyrir öflun raforku þeim til handa, er þá endanlega yrðu utan orkuveitusvæða.

Ég held óhætt sé að segja, að það er almennt álitið, að rafmagnslaus byggð eigi sér ekki langa framtíð úr þessu. Ár frá ári eykst hlutur raforkunnar í daglegu lífi hvers einasta manns í þjóðfélaginu. Síðast hefur komið til nýtt töfratæki, þar sem er sjónvarpið, og það er stefnt að því að koma því til allra landsmanna á sem allra skemmstum tíma. En það gefur auga leið, að þá má ekki hlaupa yfir frumþáttinn í þessu, sem í þessu tilfelli er sá að koma raforkunni einnig til allra landsmanna.

Fyrirspyrjendur telja, að rafvæðing landsins alls sé samfélagslegt viðfangsefni, sem verði að leysa á allra næstu árum. Við lítum svo á, að það sé á því brýn nauðsyn að gera nú heildaráætlun um rafvæðinguna, bæði til þess að gera sér fulla grein fyrir viðfangsefninu í heild og hversu megi leysa það og svo vegna þeirra einstaklinga, sem enn eru utan samveitusvæðanna, að þeir fái að vita nokkurn veginn hvar þeir standa og geti hagað sér í samræmi við það. Ég vil einnig láta það koma fram hér, að við álítum alveg óhjákvæmilegt að skoða að nýju öll atvik, þegar það verður endanlega metið, hvaða bæir og bæjahverfi verði utan samveitusvæðanna.

Herra forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri, en bíð svara hæstv. ráðh.