03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

951. mál, sjálfvirkt símkerfi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hvað líði framkvæmd áætlunar um byggingu sjálfvirks símakerfis og hvenær röðin komi að Austurlandi.

Því er til að svara, að í bréfi, sem allshn. Sþ. var sent 1961, var gerð grein fyrir heildaráætlun um sjálfvirkan síma um allt landið. Í þessu bréfi er skýrt frá röð framkvæmda í stórum dráttum, og þessari röð hefur í meginatriðum verið fylgt, en framkvæmdir hafa tafizt nokkuð, m.a. vegna skorts á þjálfuðu starfsfólki og einnig vegna þess, að fjármagnið hefur verið takmarkað, sem Landssíminn hefur haft til þessara framkvæmda. Hugmyndin um þessa niðurröðun byggist fyrst og fremst á hagræðingu og sparnaði miðað við nauðsynlegt línukerfi, sem byggja þurfti, eða dreifistöðvarnar í kerfinu, og tekið er fram, hvernig þessu skuli raðað upp af hagkvæmnisástæðum.

Fyrst er gert ráð fyrir stækkun í Reykjavík, nýjum sjálfvirkum stöðvum í Hafnarfirði, Selási, Vestmannaeyjum, Kópavogi og Akranesi og langlínu til Akureyrar, fjölgun símarása til Vestfjarða og Siglufjarðar o.s.frv., svo og nýjum húsum á ýmsum stöðum. Þetta hefur allt verið framkvæmt.

Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir nýjum stöðvum í Borgarnesi, á Brúarlandi, Húsavík, Raufarhöfn, Kópaskeri, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Hjalteyri, Hrísey, Grenivík, Selfossi, Hveragerði, Eyrarbakka, Hvolsvelli, Laugarvatni, í Þykkvabæ, Vík, Stykkishólmi, Grafarnesi, Ólafsvík, á Sandi og Höfn í Hornafirði. Enn fremur stækkun í Reykjavík, á Akureyri og í Keflavík, nýjum húsum og aukningu símarása á ýmsum stöðum. Þessu er einnig lokið.

Í þriðja áfanga er gert ráð fyrir sjálfvirkum síma á Brú í Hrútafirði, Sauðárkróki, Hofsósi, í Varmahlíð, á Blönduósi, Skagaströnd, Hvammstanga, Borðeyri, Hólmavík, Búðardal, Ísafirði, Hnífsdal, Bolungarvík, Patreksfirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Súðavík, stækkun enn í Reykjavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum, Akranesi, Brúarlandi og Selási, og nýjum húsum og aukningu símarása á ýmsum stöðum. Þessu er einnig að mestu lokið.

Og svo eru það í fjórða áfanga sjálfvirkar stöðvar á Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Borgarfirði eystra, Vopnafirði, Þórshöfn, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi, Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Enn fremur stækkanir, ný hús og aukning símarása.

Ástæðan fyrir því, að Austurland er þarna í síðasta áfanga, eins og strax var ákveðið 1961, er sú, að endurbyggja þurfti allt kerfið og bseta við línum og talrásum í ríkum mæli alla leið frá Reykjavík og um allt Austurland. Það þurfti að endurbyggja allt kerfið, sem er mjög kostnaðarsamt, en er nú að mestu leyti lokið. Það hefur því verið þörf á miklum undirbúningi til að gera mögulegt, að Austurland fái sjálfvirkar stöðvar, og það er þegar byrjað bæði í Hornafirði og á Egilsstöðum. Nú eru 48 sjálfvirkar stöðvar utan Stór-Reykjavíkur, og núna næstu daga bætast tvær stöðvar við, í dag var opnuð sjálfvirk símstöð á Blönduósi, en þær umræddar tvær stöðvar, sem koma bráðlega, eru á Skagaströnd og Súðavík og munu verða tilbúnar núna næstu daga. Auk þess er verið að vinna við uppsetningu sjálfvirkrar símstöðvar ásamt dreifistöð á Egilsstöðum, en þessi stöð verður svæðisstöð fyrir Austurland. Er fyrirhugað að taka þessa stöð í notkun í marz eða apríl á næsta ári. Á Höfn í Hornafirði er fyrirhugað að hefja vinnu við uppsetningu sjálfvirkrar símstöðvar í janúar n.k., og mun því verki ljúka í júlí næsta ár. Um svipað leyti væri hægt að setja upp sjálfvirka símstöð í Grímsey, sem er nú sennilega til, og væri rétt að gera það. Efni til sjálfvirkrar símstöðvar í Neskaupstað hefur verið pantað. Er gert ráð fyrir, að efni til þessarar stöðvar verði afgreitt frá verksmiðju í nóvember n.k. og mun uppsetning taka um fjóra mánuði, ef nægur mannafli er fyrir hendi og allt forfallalaust að öðru leyti.

Eins og ég minntist á áðan, þá hefur verið unnið að línulagningu og endurbyggingu línukerfisins fyrir Austurland, sem er nauðsynlegt, áður en sjálfvirkar stöðvar geta komið til greina. Þá verður fljótlega tekin ákvörðun um pöntun á fleiri stöðvum fyrir kauptún á Austurlandi, og er sennilegt, að uppsetningu sjálfvirkra stöðva fyrir kauptún á Austurlandi mætti ljúka 1972, í síðasta lagi 1973. Þannig ætti sjálfvirkur sími að vera kominn í öll kauptún landsins á árinu 1972. En þá eru sveitirnar eftir og af eðlilegum ástæðum, því að það hefur verið mjög kostnaðarsamt miðað við þá tækni, sem enn er ráðið yfir, að koma símanum út um sveitirnar. Það þarf nýjar línur, en nú er talið, að ný tækni sé komin til sögunnar, sem geri þetta allt saman mun ódýrara og auðveldara en áður var, og má því vænta þess, að þegar kauptúnin hafa fengið sjálfvirkar stöðvar, verði farið að vinna að því að koma sjálfvirkum sima út um sveitir landsins.

Hv. 5. þm. Austf. kvartaði undan því áðan, að það væri ekki nógu góð þjónusta víða á Austurlandi, símatíminn væri of stuttur á hinum ýmsu stöðvum og þetta væri heldur þunglamalegt. En hv. fyrirspyrjandi viðurkenndi þó, að símasambandið væri nú orðið mun betra en áður var, að talrásum hefði fjölgað og nýjar linur komið, og er það í samræmi við það, sem ég áðan minntist á. Gerðar hafa verið nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að sjálfvirki síminn gæti notazt á þessu svæði, en símatíminn er yfirleitt stuttur á þriðja flokks símastöðvum, þar sem símtölin eru mjög fá, bæði út og inn. Það hefur verið gert af sparnaðarástæðum að hafa símatímann stuttan, þar sem þannig stendur á, en eins og hv. þm. sagði, þá hefur oft verið liðkað til í þessu efni og án þess að hlutaðeigendur hafi borgað sérstaklega fyrir það. Hv. þm. sagði, að þeim hefði verið ráðlagt að bjóða greiðslu frá sjálfum sér í einhverju tilfelli, sem hann hafði í huga á Austurlandi á s.l. sumri, en ég hygg, að til þess hafi ekki komið, að þeir hafi verið krafðir um sérstaka greiðslu, þótt þarna hafi verið liðkað til. Það hefur oft verið þannig á Austurlandi, að símatíminn hefur verið lengdur mjög yfir sumartímann, þegar annir hafa verið mestar, og reynt hefur verið að mæta þörfinni, eftir því sem mögulegt hefur verið. En það skal viðurkennt, að þar hefur alltaf verið haft í huga, að aukin þjónusta kostar aukið fé, og það hefur verið takmark, sem Landssíminn hefur alltaf haft, að veita góða þjónustu, en einnig að spara rekstrarkostnaðinn eftir því, sem mögulegt er. Og Landssíminn hefur byggt þessar sjálfvirku stöðvar og endurnýjað símakerfið af eigin tekjum. Ríkissjóður hefur ekki lagt Landssímanum til fé til þess að þetta væri greitt. Landssíminn hefur gert það af eigin tekjum, enda þótt það sé viðurkennt og sannað, að símagjöld hér eru lægri en gerist t.d. í nágrannalöndunum. Það má alltaf deila um það, hversu mikið skuli lagt í kostnað við þjónustuna, og það má alltaf deila um það, hvort sú þjónusta, sem er veitt, er nægilega góð til þess, að menn geti sætt sig við hana. En hafa verður það í huga, að aukin þjónusta kostar aukið fjármagn, og það gildir vitanlega sama regla um allt land um opnunartíma hinna ýmsu stöðva. Þær eru flokkaðar í landssímastöð A, landssímastöð B og landssímastöð C, III. og IV. flokkur. Og þjónustutími fer eftir því, hvað talsímafjöldinn er mikill daglega á hverjum stað.