21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í D-deild Alþingistíðinda. (3710)

913. mál, flutningar frá Reykjavíkurhöfn um veg til álversins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Út af fyrir sig eru þau í samræmi við spurninguna, því að ég var ekki að biðja um sundurliðum á vöruflokkum. Þegar sagt er, að það séu rúm 26 þús. tonn, sem hefur verið landað í Straumsvík, þá held ég, að hljóti að vera þar innifalinn verulegur hluti af súráli, og það vita náttúrlega allir, sem þekkja, hvernig þetta gengur fyrir sig, að súráli verður ekki landað annars staðar. Sé það t.d. 15–20 þús. tonn, þá hefur sáralitlu magni af öðrum vörum verið landað í Straumsvík, en farið mest um Reykjavíkurhöfn. Ég bað ekki um neina sérstaka sundurliðun. En ég vil bara vekja athygli á því, að það er mjög mikill eðlismunur á því, hvaða vörur er hér um að ræða. Hafnarfjarðarhöfn hefur fengið tæp 500 tonn, og sýnir það, að Eimskip hefur notað þá höfn mjög lítið. En eins og ég sagði, geta verið ýmis rök fyrir því að nota hér Reykjavíkurhöfn fremur en Hafnarfjarðarhöfn. Það getur verið atvinnuspursmál, það getur verið tekjuspursmál fyrir Reykjavíkurhöfn bókstaflega, sem þarf á miklum tekjum að halda, og ýmis önnur atriði. En því er ekki heldur svarað, sem er mjög mikilvægt atriði, hver ber vörugjöldin. Á hvaða herðar leggjast vörugjöldin? Ég trúi því ekki, að ÍSAL gefi neitt eftir af sínum samningi í því efni. Fsp. mín var ekki um það atriði beint, en það væri fróðlegt að vita þetta, ef það væri hægt að upplýsa það svona fyrirvaralaust.

Ég hefði kannske átt að vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að það eru aðrir flutningar líka, sem tíðkast mjög um þessa þröngu samgönguæð, og það eru benzínflutningar með stórum tengivögnum. En þeir benzínflutningar eru í einu um 16–18 tonn af flugvélabenzíni, og ég hef orðið þess var, að hvorki lögregla né slökkvilið fylgja þessum bílum í gegnum umferðina. Yrði nú slys með 18 tonna flugvélabenzíni hér á Kópavogshálsi eða í Garðahverfinu, þá sjá allir, hvílík hætta er hér sköpuð, og það er að minni hyggju og margra annarra mjög hæpið, að þessir flutningar geti farið fram í svo stórum stíl sem raun ber vitni um á þessari umferðaræð.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf. Þau fullnægðu raunverulega fsp., en það hefði e.t.v. verið fróðlegt að fá sundurliðun á vöruflokkum.