28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (3719)

101. mál, bygging bókhlöðu

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir fróðleg svör. Mér þykir þó rétt að leiðrétta smáatriði, sem ranghermt var í ræðu hans. Hann sagði, að á fjárl. ársins 1968 hefði verið veitt 11/2 millj. til þjóðarbókhlöðu. Þetta stóð til og var upphaflega ákveðið, en síðan kom sparnaðarfrv. mikla, eins og hæstv. ráðh. man vafalaust eftir, og einn þeirra þátta, sem varð fyrir sparnaðarhnífnum, var framlagið til þessara framkvæmda, og raunar var lagt til upphaflega að þetta framlag félli algerlega niður. En í umr. hér á þingi var þess farið á leit við hæstv. fjmrh., að hann féllist á að taka inn þótt ekki væri nema 1/2 millj., og hann féllst á það, þannig að fjárveiting Alþ. er því miður ekki nema 11/2 millj. enn sem komið er, en ekki 21/2, eins og hæstv. ráðh. sagði.

Staðreyndir þær, sem hæstv. ráðh. rakti um áformin um þessa byggingu, voru mjög fróðlegar, og eins og fram kom þar, er um að ræða mjög kostnaðarsama framkvæmd. Það hefur ævinlega verið ljóst, að þetta mundi kosta mikið fé. En engu að síður tel ég, að þetta sé sú framkvæmd af þessu tagi, sem nú er langsamlega brýnust: Ég þarf ekki að rifja hér upp, hvernig ástandið hefur verið á hinum vísindalegu bókasöfnum okkar. Þar hefur verið þannig ástatt um langt skeið, að starfsmennirnir hafa ekki getað unnið verk sín skaplega, og þaðan af síður hafa viðskiptavinir safnanna getað hagnýtt þau eins og vert er. Og við skulum minnast þess, að hlutverk vísindalegra bókasafna fer sífellt vaxandi. Það var miklu þrengra, þegar safnið var stofnað í upphafi, en nú eru miklu fleiri svið, sem þurfa á slíkri aðstöðu að halda, sem vísindabókasafn er, þannig að það rekur ákaflega mikið á eftir, að í þetta verði ráðizt sem allra fyrst.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef fylgt yrði till. þjóðhátíðarnefndar, mundi kostnaðurinn verða 371/2 millj. kr. á ári. Vissulega er þetta mikil upphæð, en ég hygg, að ef í þetta verði ráðizt, hljóti hæstv. ríkisstj. að verða að gera ráðstafanir til þess að afla lánsfjár til þessa verkefnis, þannig að það verði ekki tekið af fjár-. lögum hverju sinni. Þó væri það vissulega hægt. Þessi upphæð er ekki sérlega há heldur miðað við heildarupphæð fjárlaga. Hins vegar fékkst hæstv. ráðh. ekki til þess að segja neitt skýrt um það, hvort hann teldi ekki nauðsynlegt, að tekin yrði ákvörðun um þetta mál á þessu þingi. Mér sýnist það vera algerlega nauðsynlegt, því að eins og hæstv. ráðh. sagði, getur arkitekt gert sér grein fyrir meginatriðum þessarar stórbyggingar núna í vor, og ef á að vera hægt að halda þessu verkefni áfram, þá verður að liggja fyrir slík ákvörðun. Ég veit, að hæstv. ráðh. gera sér ljósa þessa miklu nauðsyn, og ég vil beina því til þeirra, að þeir beiti sér fyrir því, að um þetta mál verði tekin ákvörðun á þessu þingi. Ég tel þetta ekki sízt nauðsynlegt vegna þess, að í sambandi við afgreiðslu fjárlaga um áramótin var sett inn heimildarákvæði um byggingu stjórnarráðshúss, sem einnig er ákaflega mikil framkvæmd. Hins vegar verð ég að draga það mjög í efa, að við teljum okkur hafa bolmagn til þess að reisa tvö stórhýsi í senn. Ef við getum það, þá er þáð ágætt, en ef við getum það ekki, þá er ég tvímælalaust þeirrar skoðunar, að þjóðarbókhlaða eigi að ganga fyrir. Hversu brýnt sem stjórnarráðshúsið er, þá er þetta verkefni miklu brýnna og í miklu nánari tengslum við vísindi og menntir og allt atvinnulíf okkar, m.a. ef við ætlum að framkvæma pá iðnvæðingu, sem við ræðum um.