10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

115. mál, iðja og iðnaður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. – Það má segja, að það sé betra að veifa röngu tré en engu og að litlu verði Vöggur feginn, þegar hann túlkar þetta frv. um breyt. á l. um iðju og iðnað eins og nú eigi að fara að taka upp eitthvert nýtt fjárhagsráð hér á landi og að það sé til góðs. Það sama á við um hitt frv., um verzlunaratvinnu. Þetta er allt saman á mjög miklum misskilningi byggt. Hann vék reyndar að þessu sjálfur, hv. þm. og gat þess að í núgildandi l. um iðnað og iðju hefur hver maður, karl sem kona, rétt til að fá iðjuleyfi, ef hann uppfyllir viss skilyrði, sem talin eru í I. Og þessi skilyrði eru, að hann sé heimilisfastur á Íslandi, þegar leyfið er veitt, og hafi verið það síðasta árið, sé fjárráða og hafi forræði á búi sínu. Það má ekki veita manni, sem hefur orðið tvisvar gjaldþrota, iðjuleyfi, þótt hann fullnægi að öðru leyti þeim skilyrðum, sem sett eru eða sett kunna að verða samkv. lögum. En síðan er svo það ákvæði, að þegar þessi skilyrði, sem hér eru talin upp, eru fyrir hendi, þá eigi lögreglustjóri, þar sem beiðandi á lögheimili, að veita iðjuleyfi, en þó eru í 7. gr. gömlu l. ákvæði um, að ráðh. ákveði veitingu iðjuleyfanna í þremur tilteknum tilfellum, sem eru mjög svipaðs eðlis og hér er um að ræða, eins og hv. þm. vék réttilega að. Í fyrsta lagi, ef þau eru líkleg til að baka einstökum mönnum, héruðum eða ríkinu tjón vegna óhagræðis að ráði, þ.á.m. aukinna sveitarþyngsla. Í öðru lagi, ef iðjan telst sérstaklega hættuleg mönnum, sem hana stunda. Og svo í þriðja lagi, ef iðjan er hins vegar svo vaxin, að hættulegt er eða varhugavert að leyfa hana. Það er í raun og veru þriðja ákvæðið, sem er öðruvísi orðað í lagabreytingunni hérna, eins og hv. þm. vék að, þ.e.a.s. ef iðjunni er annars svo háttað, að varhugavert þykir að leyfa hana, m.a. vegna þess, að möguleikar til öflunar hráefnis teljist ónógir, framleiðslu– eða söluaðstæður ófullkomnar eða telja megi stofnun og starfrækslu iðjufyrirtækisins þjóðhagslega óhagkvæma. Í slíkum tilfellum, ef lögreglustjóri hefur grun um þetta eða ef hann heldur, að svo sé, á hann að vísa veitingu iðjuleyfisins til ráðh. Þetta er í sjálfu sér svo veigalítið atriði, að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það, svo víðs fjarri lagi er túlkun hv. þm., að hér sé um að ræða einhverja nýja stefnubreytingu af hálfu ríkisstj. um fjárfestingarhömlur í landinu. Það tekur því varla að eyða fleiri orðum að því.

Báðir aðilarnir held ég að hafi túlkað nokkuð rangt 16. gr. fríverzlunarsamningsins. Ég hef nú ekki við höndina sjálfan samninginn, en ef ég man rétt, þá er 16. gr. hans alls ekki um gagnkvæm atvinnuréttindi í viðkomandi löndum, heldur mun hún orðuð eitthvað á þá leið, – skal þó hafa fyrirvara um það, – að það megi ekki mismuna aðildarríkjunum að þessu leyti í sambandi við réttindi. Og í grg. fyrir þáltill. er þannig um þetta fjallað, að hugmyndin, sem liggur að baki 16. gr., er sú, að óeðlilegt sé, að einstök aðildarríki geti komið í veg fyrir eða torveldað, að aðilar í einu aðildarríki geti stofnsett fyrirtæki í öðrum aðildarríkjum, ef það brýtur í bága við megintilgang samtakanna, sem er aukning milliríkjaviðskipta. Þetta er allt annað og hefur af mjög mörgum, held ég, fram til þessa verið litið allt öðrum augum á ákvæði 16. gr. heldur en rétt er og mistúlkunin liggur fyrst og fremst í því, að ríkin veiti gagnkvæm atvinnuréttindi. En greinin er ekki þannig orðuð. Hún hnígur í þá átt, að það sé óeðlilegt að mismuna ríkjunum að þessu leyti, ef það brýtur í bága við höfuðtilgang samkomulagsins um fríverzlun í löndunum. Og þetta er auðvitað allt annað.

En það, sem má segja að skipti eiginlega máli í ræðu hv. 4. þm. Reykv., er það, að hann er að gera því skóna hér, að við séum með þessari löggjöf að sniðganga milliríkjasamning, sem við ætlum að gera og það sé auðvitað meginatriði fyrir smáþjóðir, að samningar séu haldnir. Þetta held ég að mér sé alveg óhætt að segja fortakslaust að byggist á fullkomnum misskilningi, því löggjöf svipuð þessari löggjöf hefur einmitt verið rædd mjög ýtarlega við ráð Fríverzlunarbandalagsins, þannig að við höfum ekki farið neitt á bak við tjöldin með það, hvað vekti fyrir okkur í þessu sambandi. Af hálfu þeirra aðila, sem þar eiga um mál að fjalla, er það talið fullkomlega eðlilegt að setja slíka löggjöf, enda eru þess dæmi í öðrum löndum, að slík löggjöf sé í gildi og hafi verið í gildi og reyndar miklu fortakslausari löggjöf en þetta, án þess að, að því hafi verið fundið. Þetta virðist mér í raun og veru aðalatriðið í ræðu hv. þm. Hann þarf ekki að standa í þeim misskilningi, að ríkisstj. leggi til, að breytt sé lögum, af því að ætlun hennar sé að fara á bak við samninga, sem við höfum gert. Það mundi ríkisstj. ekki gera og hún vilt fullvissa hv. Alþ. um það, að hér er engan veginn um það að ræða.