28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (3746)

912. mál, starf forstjóra Sementsverksmiðju ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki dæma um það á þessu stigi málsins, hvort eðlilegt sé að binda í lögum þetta starf við sérfræðimenntun eins og verkfræðings, en ég tek alveg undir það hjá hv. þm., að það er auðvitað nauðsyn með svo veigamikið og stórt fyrirtæki sem þetta að fá sem skjótast varanlega lausn á þessum málum, og að því verður unnið, og mun iðnrn. sjálfsagt eiga þar einhvern hlut að máli.

Varðandi a.m.k. ÍSAL, þá er náttúrlega ákaflega ólíku saman að jafna, því að ÍSAL hefur sérstakan samning við Alusuisse, sem hefur með höndum allar fjárreiður fyrirtækisins, samningagerð og annað slíkt, og aðalforstjóri þess fyrirtækis er ekki verkfræðingur.

Ég vil aðeins, að þetta komi fram í sambandi við þetta, án þess að ég sé með þessu á nokkurn hátt að taka afstöðu til þess, hvort slíkur maður eigi að vera verkfræðingur eða fjármálamaður, hagfræðingur eða eitthvað annað. Við sjáum það á þessu stóra fyrirtæki, að þar er nokkuð öðruvísi háttað, enda þótt forstjórinn, sem er með verkfræðimenntun, sé eins konar verksmiðjustjóri í svipuðum skilningi og ég hefði haldið að verða mundi, ef viðskiptalegur framkvæmdastjóri eða fjármálalegur framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar hefði ekki sérfræðiþekkingu sem verkfræðingur, eins og ég vék stuttlega að áðan.