04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (3784)

916. mál, álit háskólanefndar

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Hann upplýsir, að ríkisstj. hafi tekið jákvæða afstöðu gagnvart till, háskólanefndarinnar, og er það vel, og skal ég ekki væna hæstv. ríkisstj. neitt um það, að hún hafi ekki gert það. Hins vegar skortir enn nokkuð á, að fyrir því sé séð, — og kannske er það að nokkru leyti vegna þess, að háskóladeildir eiga eftir að taka sínar ákvarðanir, — það sé fyrir því séð, að þessar till. komist í framkvæmd. Og ég vil í sambandi við þetta mál leggja á það höfuðáherzlu, að allir, sem hlut eiga að máli, sameinist um, að hraðað verði skipulegri áætlun um þróun Háskóla Íslands nú næsta áratug og þar tel ég að álit háskólanefndar sé ágæt viðmiðun og rétt að styðjast við það í öllum aðalatriðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þegar á næsta hausti eru fyrirsjáanleg vandræði innan Háskólans varðandi námsval stúdenta. Stúdentafjöldinn fer vaxandi. Það eru æ fleiri, sem ljúka stúdentsprófi, en hinar hefðbundnu námsleiðir eru meira og minna lokaðar. Það er því brýn nauðsyn á því að opna nýjar námsleiðir í Háskólanum, námsleiðir, sem m.a. koma sem fyrst að raunhæfum notum fyrir þjóðfélagið eða eru í samræmi við kröfur og aðstæður nútímaþjóðfélags. Það er einmitt það atriði, sem háskólanefndin hefur lagt áherzlu á. Hún undirstrikar nauðsyn fjölbreytts háskólanáms og bendir með réttu á nauðsyn þess að tengja háskólanámið þörfum þjóðfélagsins fyrir hagnýta þekkingu á svo að segja öllum sviðum. Það væri illa farið, ef ráðamenn Háskólans og þar með talin ríkisstj. láta undir höfuð leggjast að fylgja till. háskólanefndar rækilega eftir, því að ekki verður séð, að um sinn sé á öðru að byggja en því, sem hún hefur látið frá sér fara um þetta efni.

Málefni Háskólans eru í brennipunkti um þessar mundir, og þau krefjast skjótrar og skynsamlegrar úrlausnar. Meðal þess brýnasta í því sambandi er að leggja Háskólanum til meira fé, og það er nauðsynlegt, að fjárveitingar til Háskólans verði stórefldar þegar á næsta ári og þær fari stórlega vaxandi á næstu árum. Það verður að efla kennslu og rannsóknaraðstöðu innan Háskólans. Það verður að stórauka byggingarframkvæmdir á vegum Háskólans. Það verður að bæta fjárhagsaðstöðu nemenda með auknum námslánum eða jafnvel námsstyrkjum og gera átak í byggingu stúdentagarða, sem er mjög brýnt verkefni og kemur inn í þetta mál. Þetta eru þau verkefni, sem við blasa, og þau eru leysanleg, ef skipulega er að unnið með markvissum áætlunum hæfilega langt fram í tímann. Verði ekki þegar í stað hafizt handa um framkvæmdir í þágu Háskólans, er stefnt út í algert öngþveiti, sem ekki verður úr bætt nema með afarkostum, sem þjóðin fær e.t.v. ekki risið undir, þegar þar að kæmi.

En við hæstv. menntmrh. vil ég segja það, að það er ekki nóg að skipa nefndir, — það upplýstist mjög svo í umr. um það mál, sem hér var rætt á undan, — og láta þær skila álitum, ef ekkert eða svo til ekkert er við álitin gert. Því miður er það allt of algengt hér hjá okkur, að það eru skipaðar nefndir og nefndirnar gera till., en þessar till. lenda gjarnan í glatkistu ríkisstj. og annarra ráðamanna. Því miður er þetta of algengt, og ég vil vona, að það fari ekki svo um þetta nál. háskólanefndar eins og um nál. frá fiskiðnskólanefnd, að það lendi í glatkistunni um það er lýkur, heldur hið gagnstæða, að þetta álit n. verði framkvæmt.

Sú hreyfing, sem komin er á málefni Háskólans fyrir tilstuðlan háskólanefndar, má ekki stöðvast. Að sjálfsögðu má sitthvað að álitinu finna. Það treysti ég mér til að gera. En að meginstefnu er álitið jákvætt og gæti orðið og er skynsamlegur grundvöllur þróunar í málefnum Háskólans, og það er höfuðatriðið.