11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í D-deild Alþingistíðinda. (3801)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er mesti misskilningur hjá hv. 4. þm. Austurl., að þessi mál séu komin í mikið óefni.

Óefnið er þannig, að það er orðin mikil eftirspurn eftir íslenzkum ám. Íslenzkar ár og stöðuvötn, sem enginn spurði um áður, eru nú orðin góð söluvara, jafnvel á erlendum markaði. En enn þá hafa ekki nema tvær ár hér á landi verið leigðar útlendingum. Það er Vatnsdalsá, og það er Hofsá í Vopnafirði. Mér er ekki kunnugt, að sá, sem tók Vatnsdalsá, leigi hana aftur út. Og mér er ekki heldur kunnugt um, að þeir aðilar, sem tóku Hofsá í Vopnafirði á leigu, leigi hana út. Það eru ekki nema 2–3 ár síðan sú á var leigð, og veiði hefur farið mjög minnkandi þar. Þessir aðilar, sem tóku árnar á leigu, tóku þær fyrst og fremst fyrir sjálfa sig. En hv. 4. þm. Austurl. hefur kannske ekki heyrt rétt áðan, þegar talað var um endurleigu á ánum. Það eru ekki útlendingar, sem hafa tekið Laxá í Kjós á leigu, það eru ekki útlendingar, sem hafa tekið Þverá í Borgarfirði á leigu, og það eru ekki heldur útlendingar, sem hafa tekið Laxá í Leirársveit á leigu. En eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, er líklegt, að þessir aðilar, sem eru innlendir og hafa tekið þessar þrjár ár á leigu, ætli sér að endurleigja þær, bæði Íslendingum og útlendingum, og hagnast á því, þótt þeir borgi sjálfir háa leigu. Þótt það hafi verið boðið helmingi hærra í Laxá í Kjós núna heldur en í fyrra eða ríflega 2 millj. kr. á móti 1 millj. þá, þá hugsa þeir sér, sem tóku Laxá í Kjós á leigu, auðvitað að hagnast á því að endurleigja ána og þá sennilega að endurleigja útlendingum, ef svo vill verkast. Það er þetta, sem hefur skeð í málinu og hv. 4. þm. Austurl. virðist hafa misheyrt eða misskilið áðan, eftir þeirri ræðu að dæma, sem hann flutti áðan, því hann var að tala um, að erlendir aðilar, sem hefðu fengið ár á leigu, væru farnir að stunda hér atvinnurekstur með því að endurleigja þær. Það eru íslenzkir aðilar enn sem komið er, sem hafa tekið ár á leigu til að endurleigja þær.

Hitt er svo annað mál, að um leið og íslenzkar ár og vötn eru orðin svona eftirsótt, þá er eðlilegt, að það þurfi að gera nýjar ráðstafanir. Það væri eðlilegt, að breyta lögum og reglugerðum einmitt í sambandi við það og hafa opin augu fyrir því, sem þarf að gera til að tryggja það vel, að gjaldeyrislöggjöfin verði ekki brotin, að skattalöggjöfin verði í heiðri höfð o.s.frv. En þótt það standi fyrir dyrum að breyta lögum og reglugerðum, vegna þess að við erum með verðmætari vöru milli handanna en áður, þá er ekki ástæða til að segja, að það sé öngþveiti orðið þess vegna. Við verðum vitanlega að haga okkar ráðstöfunum og gerðum í samræmi við það, sem á við á hverjum tíma, og það, sem nauðsynlegt er að gera miðað við aðstöðu hverju sinni.