15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í D-deild Alþingistíðinda. (3885)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hafði hug á því að segja hér nokkur orð í tilefni af því orðafari manna, að dagblöðin í Reykjavík hafi fengið styrki, sem veittir hafi verið á pólitískum forsendum. Nú veit ég ekki, hvernig menn hafa rætt þessi mál hér á þingi 1967 í einkaviðræðum sín á milli að sjálfsögðu. því að ég átti þá ekki sæti á þingi, en hitt er mér fullkunnugt um, að dagblöðin öll líta svo á, að sá nýi háttur, sem upp hefur verið tekinn í samskiptum við þau af hálfu ríkisins og ríkisstofnana, sé ekki styrkur heldur greiðsla fyrir þjónustu. Þetta er sameiginlegt álit allra blaðanna, eins og menn kannske kannast við. Þetta sjónarmið hefur einnig verið túlkað í Morgunblaðinu. Áður fyrr tíðkaðist það, að ætlazt var til þess, að dagblöðin birtu mjög margvíslegt efni, án þess að nokkur greiðsla kæmi fyrir, og enn fremur að dagblöðin létu í té býsna mörg eintök til opinberra stofnana, án þess að þessi eintök væru greidd. Þetta mál hefur verið tekið upp á þeim forsendum, að úr þessu yrði bætt. Og ég veit það, að dagblöðin líta þannig á, að þrátt fyrir auknar greiðslur, sem til hafa komið síðustu árin, þá sé það engan veginn svo, að þarna sé orðið um eðlileg jafnræðisviðskipti að ræða. En þar sem um er að ræða greiðslur fyrir veitta þjónustu að mati dagblaðanna, þá er það í sjálfu sér óeðlilegt, að í þessu skyni sé sérstök fjárveiting á fjárlögum. Ég teldi það miklu eðlilegra, að þær stofnanir, sem njóta þjónustu dagblaðanna greiði hana á eðlilegan hátt eins og tíðkast í almennum viðskiptum. Það er þá fyrst, þegar kemur að raunverulegum styrkveitingum, að til ætti að koma upphæð á fjárlögum, og það telja blöðin, að enn hafi ekki orðið.

Ég veit, að um þetta eru skiptar skoðanir á milli dagblaðanna og ýmissa forustumanna stjórnmálaflokka, eins og hér hefur komið fram. En þetta, sem ég hef sagt, er skilningur dagblaðanna. Ég vil síður en svo vanmeta það, að stjórnarvöld hafa sýnt dagblöðunum aukinn skilning hvað þetta snertir á undanförnum árum; það ber vissulega að meta að verðleikum. Hins vegar er það augljós staðreynd, að þessi nýju samskipti hafa verið tekin þannig upp að auðvelda dagblöðum að koma út á Íslandi alveg án tillits til þess, hvaða skoðanir þau hafa á stjórnmálum. Það er t.d. staðreynd, að slíkar greiðslur koma til tveggja blaða, sem fylgja Sjálfstfl. að málum, og að sjálfsögðu hefði það ekki gerzt, ef þarna hefði verið um að ræða flokkaaðstoð. Það er ekki rétt, að hér sé um flokkaaðstoð að ræða, heldur aðgerðir, sem eiga að auðvelda það, að dagblöðin geti haldið áfram að koma út á Íslandi. Ég tel, að það sé ákaflega veigamikið verkefni, ef við ætlum að halda uppi eðlilegu málfrelsi og eðlilegum umr., að tryggt sé, að þessi dagblöð komist út. Og ég vænti þess, að skilningur á því efni haldist meðal forustumanna. En þetta hefur verið algerlega bundið við dagblöðin, það er staðreynd.

Hitt kann svo vel að vera, að það þurfi að líta á vanda vikublaða. En staðreyndin er einnig sú, að það er aðeins eitt vikublað, sem hefur notið slíkrar fyrirgreiðslu af hálfu opinberra stjórnarvalda, eitt einasta. Hv. síðasti ræðumaður greindi frá því, að hann hefði sjálfur gengið á fund ríkisstj. og beðið um fyrirgreiðslu fyrir fjögur vikublöð á Akureyri, en gengið bónleiður til búðar. Það er aðeins eitt vikublað á Íslandi, sem fær slíka fyrirgreiðslu. Þar er ekki um almenna reglu að ræða eins og hjá dagblöðunum. Þarna er um mismunun að ræða. Og þessi fyrirgreiðsla er augljóslega veitt á pólitískum forsendum. Það er þetta, sem hv. fyrirspyrjandi vakti athygli á, og þessar staðreyndir verða að sjálfsögðu ekki duldar.