15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

925. mál, framhaldsdeildir gagnfræðaskólanna

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér á þskj. 492 að beina til hæstv. menntmrh. svo hljóðandi fsp.: „Hvað líður undirbúningi reglugerðar varðandi frekari námsréttindi þeirra nemenda, sem ljúka prófi úr hinum nýju framhaldsdeildum gagnfræðaskólanna?“

Þegar hæstv. menntmrh. fylgdi, þann 21. okt. s.l., úr hlaði frv. til l. um breyt. á lögum nr. 41 frá 7. maí 1946 um gagnfræðanám, þ.e. frv. því, sem snertir þær framhaldsdeildir, sem um ræðir í fsp., þá komst hann m.a. svo að orði í upphafi ræðu sinnar, með leyfi hæstv. forseta: „Efni laganna er það, að með þeim er heimilt með leyfi menntmrh. að stofna til allt að tveggja ára framhaldsdeilda við gagnfræðaskóla, er taki við nemendum að loknu gagnfræðaprófi eða landsprófi miðskóla samkv. nánari ákvæðum, sem sett verði í reglugerð.“

Hann lét þess jafnframt getið í ræðu sinni, að þegar í haust hefðu tekið til starfa slíkar framhaldsdeildir á fjórum stöðum, í Reykjavík, á Akranesi, á Akureyri og í Neskaupstað, og við þær stunduðu nám, og munu hafa stundað nám í vetur, um 180 manns. En jafnframt stæði til að hefja kennslu í slíkum framhaldsdeildum næsta haust í Hafnarfirði, þ.e. Flensborgarskóla, í Kópavogi, á Selfossi eða í Hveragerði og án efa fleiri stöðum, þegar meiri tími hefði fengizt til undirbúnings. Nú hef ég orðið var við það hjá foreldrum þeirra nemenda, sem stundað hafa nám í þessum framhaldsdeildum, og nemendum sjálfum, að þeir eru orðnir langeygðir eftir þessari nýju reglugerð varðandi þessar framhaldsdeildir og þau réttindi, sem próf úr þeim kunna að veita í framtiðinni. Tel ég því ekki vanþörf á, að mál þetta sé upplýst hér á hinu háa Alþingi.