03.02.1970
Efri deild: 47. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

115. mál, iðja og iðnaður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um iðju og iðnað er á vissan hátt lagt fyrir þingið sem fylgifrv. þáltill. um aðild okkar að EFTA. Sumir hafa lagt þann skilning í atvinnuréttargrein EFTA–samningsins, 16. gr., að það kynni að verða of rúm aðstaða fyrir erlend fyrirtæki til starfrækslu hér á landi og því öruggara fyrir okkur að setja svipaða löggjöf til varnar því, ef okkur sýndist svo og t.d. Norðmenn hafa haft hjá sér. Við höfðum hana því nokkuð til fyrirmyndar.

Það er aðaltilgangur þessa frv. að tryggja það með þeim breytingum, sem á l. yrðu gerðar og í raun og veru eru efnislega mjög litlar, að erlend fyrirtæki geti ekki hafið atvinnurekstur hér á landi gegn vilja íslenzkra stjórnvalda. Að vísu hefur mín skoðun jafnan verið sú, að 16. gr. EFTA–sáttmálans væri í raun og veru þannig, að þess væri naumast þörf. Út í það skal ég ekki fara nú, en þetta er höfuðtilgangurinn. Breytingin er lítil frá því, sem áður var, en einkum er það í 3. tölul. 2. gr., sem breytingin er fólgin, en þar er styrkt aðstaða ríkisstj. og stjórnarvalda til þess að leyfa eða leyfa ekki iðnrekstur erlendra fyrirtækja.

,Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.