30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Annaðhvort er, að hv. 9. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. hafa ekki viljað skilja mig rétt eða þeir hafa misskilið mig, þegar þeir halda því fram, að ég hafi tekið afstöðu til þeirra samninga, sem Loftleiðir gerðu við væntanlega þotuflugmenn. Ég var aðeins að lýsa því, hvað forstjóri Loftleiða hefði sagt til rökstuðnings fyrir þessu háa kaupi, sem samið var um. Ég tók það fram, að ég tæki enga afstöðu til þessara samninga.

Þá er alveg óþarfi fyrir þessa hv. þm. að misskilja orð mín, þegar ég sagði, að ríkisstj. hefði aldrei blandað sér inn í frjálsa samninga, á meðan þeir stóðu yfir. Ríkisstj. hefur aldrei gefið út brbl. eða blandað sér inn í samningana, fyrr en allt var komið í strand. Og þessi brbl. voru ekki gefin út, fyrr en sáttasemjari hafði gefizt upp á því að ná samningum á milli flugfélaganna og flugliðanna. Þetta vita hv. þm., og þess vegna er ég dálítið hissa á því, að þeir skuli vera að reyna að snúa út úr í þessu máli. Þeir vita, að ríkisstj. hefur ekki blandað sér inn í málin, fyrr en sáttasemjari hefur gefizt upp á því að ná samkomulagi. Ég þarf ekki að segja meira um þetta.