04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki þá dul fremur en aðrir þm., sem hafa rætt um þetta frv., að kryfja það á neinn hátt til mergjar. Bak við það liggur mikil, sérfræðileg vinna sjálfsagt, og nýmæli eru mörg í því. Mitt mál verður þess vegna fyrst og fremst lauslegar hugleiðingar um það og vafalaust einhverjar spurningar til hæstv. ráðh. um atriði, sem mér finnst ekki koma nægilega skýrt fram í lesmáli frv.

Það getur ekki verið um það deilt, að hér er um mikla stökkbreytingu að ræða varðandi kennaramenntunina í landinu. Í því einu að taka hana og lyfta henni upp á háskólastig hlýtur að felast eitthvað meira en lítið, ef það er ekki einhver keimur af yfirlæti í því, eins og hv. síðasti þm. vék að og sagði, að sér fyndist. Ég verð að segja það, að ég er ekkert viss um það, að það að taka alla kennaramenntunina og setja hana á háskólastig sé neitt vitleg ráðstöfun eða til þess fallin að gefa neina tryggingu fyrir góðri barnafræðslu á Íslandi. Ég er ekkert sannfærður um það. A.m.k. er það svo, að það eitt að taka eitt stórt stökk eins og hér er gert, gefur enga tryggingu í sjálfu sér. Það er bezt, að stóru stökkin séu þá vel hnitmiðuð og menn séu undir það búnir að taka þetta stökk. Mér kemur í hug gamall verzlunarmaður á Ísafirði danskur, sem hafði lengi verið hjá danskri selstöðuverzlun þar og var svo í þjónustu Hinna sameinuðu íslenzku verzlana og þótti þær fara geyst af stað, en það var ekki þar eftir endingin hjá þeim, því að þær fóru á hausinn eftir skamman tíma. Hann sagði: „Ef maður tekur of stórt stökk, þá rifna buxurnar, og þá fer aldrei vel,“ sagði Andersen gamli. Ég er afar hræddur um, að það geti farið svo, að sá, sem tekur stórt stökk og rífur sínar buxur, standi helzt til fáklæddur eftir — strípaður — og það verði svo með þetta stóra stökk í kennaramenntuninni, að stjórnin sé ekki betur búin eftir en áður. Þá hefur þarna farið á þennan veg, sem farið getur, ef of stór stökk eru tekin.

Það er nú svo með kennarastarf, að þar eru ekki próf og lærdómur einhlít. Ágæt er menntunin alltaf og þekkingin, en próf í kennarastarfi eru ekki einhlít. Það er mín reynsla frá 20 ára kennarastarfi. Ég hafði við minn gagnfræðaskóla kennara bæði með háskólapróf og án háskólaprófs, og það held ég, að ég verði að segja, að það var svona alveg sitt á hvað, hvort þeir voru betri kennarar á gagnfræðastigi, sem höfðu háskólapróf, eða hinir, sem höfðu það ekki. Það skal játað, að það voru ágætir kennarar í hópi háskólaprófsmannanna, en það voru líka í hópi þeirra menn, sem voru gjöróhæfir kennarar, þannig að mér varð ljóst, að háskólapróf eitt út af fyrir sig er engin trygging fyrir því, að um góðan kennara sé að ræða. Aftur á móti kennarar með almennt barnakennarapróf frá Kennaraskóla Íslands, eins og hann var þá, þegar þeir voru að menntast, gátu verið meðal úrvalskennara. Vitanlega höfðu þeir menntað sig sjálfir í viðbót við sitt skólanám, og það verður hver einasti maður að gera, líka háskólaprófsmaðurinn. Hann verður aldrei til lengdar góður kennari, ef hann ætlar að liggja á sínum lárberjum frá háskólaprófinu; það er ég viss um.

Þegar við hugsum til þróunar kennaramenntunarinnar á Íslandi á einum mannsaldri frá því, að kennarakennsla hefst hér 1908, þá komumst við að raun um, að fyrstu áratugina er kennaramenntunin eins vetrar skóli í sex mánuði með barnafræðsluna sem undirstöðu. Það er nærri því ótrúlegt, að með þessari menntunaraðstöðu skyldum við fá yfirleitt góða kennarastétt. Svo mikið er víst, að með þennan menntunargrundvöll varð reynslan oft sú, að við fengum afburðakennara — og ekki aðeins afburðakennara, heldur afburðamenn sem uppalendur. Þessi gamla kynslóð lyfti stóru taki, og þjóðin á henni mikið upp að inna, þó að hún nyti engrar háskólamenntunar. Það er fjarri mér, að ég sé að ýja að því, að til þessa tíma eigi að hverfa og kennaramenntunin eigi að vera af eins skornum skammti og við höfum orðið við að búa sökum efnaskorts og fátæktar. En þetta sýnir það, að við höfum fengið góða kennara þrátt fyrir litla menntun. Og reynslan segir fleiri kennurum en mér það áreiðanlega, að þó að allir kennarar væru með háskólapróf, þá væri það ekki örugg trygging fyrir því, að við hefðum betri kennarastétt eftir en áður.

Ég held, að það hafi verið nokkurt vit í því hjá Dönum að gera ekki sömu prófkröfur eða menntunarkröfur til kennara á öllum skólastigum skólakerfisins. Þeir höfðu sérstaka kennaraskóla fyrir forskólakennarana, sem ætluðu sér að gera það að lífsstarfi að kenna smábörnum. Nú skal ég segja það eitt um smábarnakennslu, að ég tel hana undirstöðu allrar kennslu og sízt vandaminni en kennslu þroskaðri nemenda á eldri aldursstigum. Mér fannst, þegar ég hafði lokið kennaraprófi, að ég væri varla fær um að hefja kennslu, nema ég hefði fyrst prófað mig einmitt í smábarnakennslu og sett upp minn eigin smábarnaskóla fyrst og fremst til þess að gera mig færan um að komast í sem nánasta snertingu við það fólk, sem ég ætlaði að kenna, því að það er auðveldara með smábörnin en fólk á nokkru öðru aldursstigi. Og ég held, að mér hafi verið sá vetur langsamlega lærdómsríkastur í öllu mínu kennarastarfi — veturinn, sem ég hafði litlu börnin, 6, 7 og 8 ára, til þess að kenna. Og það verð ég að segja, að það var sízt auðvirðilegra starf en þegar ég var að kenna síðar á árum í gagnfræðaskóla. En samt er það svo, þó að smábarnakennarar þurfi að fá sízt minni menntun í sálarfræði, uppeldisfræði, kennsluvísindum, kennslufræði og æfingu í kennslu, að öllu leyti eins og ekki minni en kennarinn, sem ætlar að kenna þroskaðri nemendum á síðari skólastigum, þá er hitt staðreynd, að sá kennari, sem ætlar sér að gera smábarnakennslu að ævistarfi, þarf ekki að vera sprenglærður í æðri stærðfræði, hann þarf ekki að vera sprenglærður í efnafræði og eðlisfræði eða öðrum slíkum fræðum, sem koma fyrst inn í kennslustarfið á síðari stigum skólastarfsins, og hann þarf ekki að eyða tíma í það; þjóðfélagið þarf ekki að kosta upp á það fyrir smábarnakennarann. Að heimta háskólamann með háskólapróf til að kenna börnum lestur og annast kennslu smábarna er annaðhvort yfirlæti eða a.m.k. óskynsamleg fjárfesting. Hefðum við t.d. efni á því, Íslendingar, fiskveiðaþjóðin, að gera það að skilyrði, að enginn mætti stjórna trillubát, nema hann hefði farskipapróf? Það væri kannske aukið öryggi í því; ég skal ekki segja um það. En það væri ekki dagsdaglega, sem hann kæmi að notum, þessi hái lærdómur í sjómannafræðum, við að stýra trillunni. En það getur vel verið, að í framhaldi af þessu verði það gert að skyldu, að enginn megi stýra smáfleytu, nema hann hafi farskipapróf. Þetta finnst mér vera nærri því hliðstætt.

Nei, Danir höfðu aðrar námskröfur og aðrar kennslukröfur í kennaraskólunum, sem voru að undirbúa smábarnakennara, en slökuðu þar sízt á kröfunum í uppeldisfræðum, sálarfræði og kennslufræði. Þeir voru undir þetta starf búnir. Svo komu hinir almennu kennaraskólar og undirbjuggu menn til kennslustarfs í þjónustu almenna barnaskólans og unglingastigsins þar með, en töldu alveg sjálfsagt, að áhugasamir og lifandi kennarar, sem vildu efla sig að þekkingu og hæfni í starfinu, færu síðan af frjálsum vilja, þegar þeim hentaði og þörfin krafði, í kennaraháskólann til þess að bæta við sitt nám einkanlega í þeim sérgreinum, sem þeir ætluðu þá að sérhæfa sig í og fullkomna þekkingu sína í. Ég held, að þessi þrískipting kennaramenntunar hjá Dönum hafi verið „praktísk“ og eðlileg og hafi í raun og veru leyst úr menntunarþörf kennarastéttar á hinum ýmsu stigum miðað við starfssvið þeirra.

Ég held, að við værum ekki á neinum villigötum, þó að við tækjum eitthvert tillit til þessara hluta og undirbyggjum menn til kennarastarfsins að nokkru með tilliti til þess verkefnis, sem þeir ætluðu að velja sér í kennslustarfinu. En það verður áreiðanlega nokkuð dýr fyrir þjóðfélagið menntun kennarastéttarinnar, þegar þetta allt saman er tekið upp á háskólastig og allir kennarar, sem eiga við kennslu á öllum skólastigum, eiga að hafa háskólapróf, þ.e. hafa gengið í gegnum hið almenna skólakerfi og í viðbót við það tekið stúdentspróf, og skilst mér þó, að þegar stúdentsprófið er búið og þriggja ára kennaranám í framhaldi af því, þá séu þeir ekki viðurkenndir sem fullgildir kennarar, en það er eitt af hinum óljósu atriðum, sem ég þarf að spyrja um.

Í skýringum frv. á bls. 11 segir, að nýliðar, sem lokið hafa kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands, skuli njóta tveggja ára leiðsagnar og starfsþjálfunar, áður en þeir öðlast skipun í kennarastarf. Þeir geta ekki fengið skipun í kennarastarf, þó að þeir séu búnir að ljúka stúdentsprófi, fara síðan inn í kennaraháskólann og vera þar í 3 ár, fyrr en þeir hafa notið tveggja ára leiðsagnar og starfsþjálfunar. Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvar á þessi starfsþjálfun, þessi leiðsögn og starfsþjálfun að fara fram? Hverjir eiga að annast hana? Gerist þetta samtímis kennarastarfinu fyrstu árin, sem menn þá eru settir? Síðan þegar þeir eru búnir að fara í gegnum þetta viðbótarnám, má þá veita þeim embætti? Ég sé hvergi skýringar á því, hvar þeir eiga að fá þessa leiðsögn og starfsþjálfun, eftir að þeir sem nýliðar hafa lokið kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands. En þetta skilst mér, að hljóti að vera í raun og veru einn liður í þeirra námi; fyrr eru þeir ekki fullkomnir kennarar.

Nei, ég vík að því aftur. Ég er ekkert viss um það, að smábarnafræðslunni verði betur borgið á Íslandi með háskólaprófsmönnum við það starf. Ef þeir jafnframt eru þeim mannkostum búnir og hæfileikum, sem góðan kennara mega prýða — og það verður sjálfsagt í mörgum tilfellum um það að ræða — þá verða þeir góðir smábarnakennarar, en ekki vegna háskólaprófsins eins.

Ég hefði haldið, að það væri hyggilegt fyrir okkur að hafa enn um sinn réttan og sléttan kennaraskóla, þriggja eða fjögurra ára kennaraskóla, sem byggði á gagnfræðaprófi — eða meðan við enn þá höfum landsprófið, þá hefði hann það sem grundvöll fyrir hina almennu kennara og síðan möguleika til þess að stunda framhaldsnám í kennslufræðum við Háskóla Íslands, í sálarfræði og uppeldisfræði og öðrum kennsluvísindum, sem væru námsgreinar í háskólanum, og síðan ekki söguna meir um neinn kennaraháskóla við hliðina á Háskóla Íslands. Ég tel það vera ofrausn að vera með prófessora í sálarfræði og uppeldisfræði við háskólann og svo alveg sérstakan kennaraháskóla með sérfræðinga í sálarfræði og uppeldisfræðum þar líka. Það er eitt af hinum tilbúnu veðramótum.

Það er nokkuð skýrt, að inntökuprófið í kennaraháskólann verður stúdentspróf eða annað jafngilt nám. Og nú spyr ég: Hvaða nám er það, sem verður metið til jafns við stúdentspróf, úr því að inntökuprófið er ekki einskorðað við stúdentspróf? Mér skilst líka, að þriðji möguleikinn geti komið til, í einstöku tilfellum a.m.k. sérstakt inntökupróf, og þetta séu þrír möguleikar, sem alla eigi að meta til jafns við stúdentspróf.

Varðandi skýringar á frv. kemur þarna fram, að verkleg þjálfun á skólatímanum skal vera eigi skemmri en 12 vikur. Ég geri ráð fyrir, að verkleg þjálfun sé kennsluæfingar, kennsla í kennslufræðum og „praktísk“ leiðsögn í kennaraháskólanum um kennslu. Þessi „praktíska“ kennsla á í Kennaraháskóla Íslands að taka 12 vikur á námstímanum — í þrjá mánuði á þremur árum. Það finnst mér harla lítið. Þeir koma ekki út sem reyndir í kennarastarfi frá prófborðinu úr Kennaraháskóla Íslands, þó að þeir hafi notið á þremur síðustu árum 12 vikna æfingakennslu. Það eru sannarlega önnur fræði, sem verða látin sitja í fyrirrúmi, en kennsluæfingar — leiðsögn slyngra kennara, sem getur verið gífurlega mikils virði fyrir ungan kennara.

6. skýringarliðurinn við frv. er á þá leið, með leyfi hæstv. forseta: „Sérhæfing er meiri, bæði með hliðsjón af greinum, aldursstigi og sérlegrí gerð nemenda.“ Hvað er nú átt við með sérlegrí gerð nemenda? Hvað er átt við með því? Sérhæfingin er aukin með hliðsjón af kennslugreinum, aldri nemendanna og sérlegri gerð þeirra. Mig langar til þess að fræðast nánar um þetta, hvaða sérgerð nemenda þarna er átt við.

Enn fremur er atriði, sem ég er mjög hlynntur, sem er þarna í 8, gr. frv., að kennaraefnum sé skylt að taka þátt í almennum framleiðslu- og þjónustustörfum eða vinna á uppeldisstofnun eigi skemur en 4 mánuði samanlagt á námstímanum. Einhvers staðar annars staðar stendur, að þetta verði tekið til greina, ef þeir hafa innt þetta af hendi á síðasta ári, áður en þeir fara inn í kennaraháskólann. Þetta atriði hefði ekki þurft, a.m.k. fyrir nokkrum árum, meðan skólarnir voru ekki þandir yfir allt árið. Þá tóku ungmennin íslenzku þátt í almennu framleiðslustarfi og höfðu þessa forsendu, sem þarna þarf að tryggja með sérstökum aðgerðum og setja að skilyrði til þess, að menn hafi þó aðeins komizt í snertingu við atvinnulíf þjóðarinnar. En þarna verður vafalaust nokkuð komið undir framkvæmdinni. Ég veit ekki, hvort það verður hægt að útiloka stúlkur frá því að fara inn í kennaraháskólann, ef þær hafa ekki vottorð upp á það, að þær hafi unnið að framleiðslustörfum. En þetta er rýmra, þ.e. talað er um þjónustustörf eða vinnu við uppeldisstofnun. Ég er síður en svo á móti því, að það sé með einhverjum hætti tryggt, að verðandi kennarar hafi lífsreynslu og hafi komizt í snertingu við atvinnulífið. En væri nú t.d. atvinnuleysistímabil í nokkuð mörg ár, þá er erfitt fyrir það námsfólk, sem er 91/2 mánuð í skóla á ári hverju, að komast inn á vinnumarkaðinn, og gæti þannig farið, að þetta útilokaði það frá menntun.

Það, sem ég nú hef sagt, eru mínar almennu hugleiðingar um frv. — um þetta stóra stökk í menntunarmálum kennara, og skal ég fyllilega játa það, að ég er engan veginn öruggur eða viss um það, að við með því að setja kennaramenntunina alla á háskólastig séum að stíga neitt farsældar- eða heillaspor fyrir íslenzku þjóðina eða á nokkurn hátt að tryggja það örugglega, að við fáum menntaðri kennarastétt og betri uppalendur en við jafnvel höfðum, meðan Kennaraskóli Íslands var á sínum frumbýlingsárum, því að sú kennarastétt, sem þaðan kom, hefur orðið til farsældar fyrir þroska og þekkingu þessarar þjóðar. Ég held, að það, sem okkur riði miklu meira á en að kippa allri kennaramenntuninni upp á háskólastig, væri að einbeita okkur nú að því að gjörbreyta iðnfræðslunni og tæknimenntuninni hjá þessari þjóð. Það er fyrst og fremst á hinu verklega sviði, sem íslenzka þjóðin er ekki nægilega menntuð, og það er sök okkar skólakerfis og gamla meistarakerfisins í iðnfræðslunni, sem er algerlega bundið við miðaldaástand og handverkið, en ekki verksmiðjuiðnaðinn, og við höfum lítið sem ekkert gert til þess að leggja þetta fyrir róða sem algerlega úrelt fyrirkomulag og móta nýtt kennslufyrirkomulag sniðið við þarfir verksmiðjuiðnaðarins — tækniþróunarinnar í heiminum. Á þessu sviði er íslenzka þjóðin því miður ómenntuð þjóð. Ekki held ég þó, að það væri æskilegt, þó að það kynni að vera jafnmikið í munni eins og í þessu tilfelli að kippa þeirri menntun allt í einu á háskólastig. Þá er ég hræddur um, að buxurnar rifnuðu, og þá fer ekki vel.

Einstöku orð og orðatiltæki eru í þessu lærða frv., sem ég skil ekki, og það er ekki látið svo lítið að skýra þessi orð neins staðar í þessu mikla lesmáli. Ég hélt fyrst, að ég væri að hnoðbögglast með argar prentvillur, þegar ég var staddur í 2. og 3. gr. frv. Þá var ég að bögglast við þetta hérna, 5. tölul. á bls. 2. Þar segir: „Í aprílmánuði kjósa kennarar skorar sér skorarstjóra.“ (Gripið fram í.) Já, já, kennarar skorar kjósa sér „skorarstjóra til tveggja ára í senn úr hópi fastra kennara og tekur hann við starfinu 1. júli. Um kosningu á fulltrúum lausráðinna kennara og nemenda sem og framkvæmd á kosningu skorarstjóra segir nánar í reglugerð.“

Og svo fór ég að reyna að leita skýringa. Jú. Þetta er skýrt í skýringum við 8. gr. Og ég las þá skýringu, en þar var forðazt að nefna skor og engar skýringar á því. Ég var jafnnær, og nú verður að leita til ráðh. með skýringuna á skorinni. Þetta er ekki hin kalda Skor þarna vestur á Barðaströnd, sem hann Eggert sigldi frá; það þóttist ég vita.

„Ákvæði þetta,“ segir í skýringum við 8. gr., „er nýmæli. Miklu varðar, að kennarar hljóti bein og raunsönn kynni af kjörum þeirra, er öðrum störfum gegna, svo að þeir öðlist á þeim ljósan skilning á öruggum forsendum, en sú er helzt vörn gegn samfélagslegum fordómum. slíkur skilningur er einnig skilyrði fyrir öryggi, sveigjanleik og viðbragðsflýti í þeim fjölþættu mannlegu samskiptum, sem kennarans bíða.“

Ekkert um skor í þessari skýringu, sem vísað var til. Þetta er nýmæli, og það getur vel verið, að þetta sé snjallt nýmæli, en að setja þetta inn í lagamál, án þess að það sé skilgreint á nokkurn hátt eða skýrt, þannig að flestir menn viti, hvað við er átt, kann ég ekki við í slíkri lagasmíð sem þessari.

Þetta er 1. umr. um málið, og menntmn. á eftir að leggja heilann í bleyti um þetta mál, kryfja það til mergjar, kalla sjálfsagt til sín marga fræðimenn í kennarastétt og ræða við þá um megindrætti fyrirkomulags þessa, hvort þeir séu sannfærðir um, að öllu sé bjargað með því að setja þetta allt upp á háskólastig og þar fram eftir götunum. Og svo fáum við hv. þm., sem utan menntmn. erum, að heyra, hvað álitið verður um þessi fjölmörgu nýmæli, þessa gjörbreytingu, þetta stóra stökk í kennaramenntun Íslendinga, sem hér er fyrirhugað. En ég er einn af þeim þm., sem ekki eru sannfærðir um það, að svo mikið liggi á að gera þetta að lögum, að það verði endilega að gerast á þessu þingi innan um allt það málamoldviðri, sem við erum í nú á síðari hluta þings. Ég held, að það væri alveg að skaðlausu, að þetta frv. sætti eins rækilegri könnunarmeðferð og tími vinnst til í vetur og væri síðan lagt til hliðar og séð til, hvort feður þess verða þeir, sem ýta því úr vör aftur á næsta þingi eða þá einhverjir aðrir, sem taka hugsjónirnar að sér. En það er mitt álit sem sé, að við gætum vel borgið þekkingar- og menntunarhlið íslenzkrar kennarastéttar í skyldunáminu með því að hafa þá starfsskiptingu um menntun kennara, að þeir, sem ætluðu sér að gerast smábarnakennarar, fengju hina fyllstu og beztu menntun í sálarfræði og uppeldisfræði og kennsluvísindum og síðan að öðru leyti í almennum námsgreinum, eins og slík stofnun teldi þurfa, og síðan væri kennaraskóli, fjögurra ára kennaraskóli, skulum við segja, og þeir, sem ætluðu sér að stunda sérkennslu í ákveðnum greinum eða bæta við sína kennaramenntun, ættu kost á því með viðbótarnámi í Háskóla Íslands.

Ég held, að með því, sem ég nú hef sagt, hafi ég vikið að flestu því, sem ég taldi ástæðu til sem gamall kennari einkum við þessa 1. umr. málsins.