01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur verið mjög gagnrýnd á undanförnum árum fyrir aðgerðarleysi í menntamálum, og er það eðlilegt. Lögin frá 1946 eru fyrir löngu orðin úrelt á þessum tíma mikilla breytinga og vaxandi kröfu um meiri menntun. Þau hafa jafnvel heldur ekki komið til framkvæmda að öllu leyti víða um landið, eru e.t.v. illframkvæmanleg, og úr því hefur ekki verið bætt.

Nú var hins vegar brugðið við fyrir nokkru og settar á fót nefndir ágætra sérfræðinga, og mér sýnist, að segja megi, að þessar nefndir hafi, að vísu í nafni hæstv. ríkisstj., lagt inn á hið háa Alþ. tvö mjög mikil frv. um endurbætur í menntamálum, annars vegar svokallað grunnskólafrv. og hins vegar frv. um Kennaraháskóla Íslands.

Ég er ekki að efast um það, að þessir sérfræðingar hafa unnið vel. Hins vegar sýnist mér það fásinna, að Alþ. eigi eingöngu að vera eins konar afgreiðslustofnun fyrir sérfræðingaálit. Hið háa Alþ. á að sjálfsögðu að taka sér tíma til þess að endurskoða slík mál vel og dæma þau og meta af eigin athugun. Í þessum málum báðum hefur enginn tími gefizt til slíks.

Nú skilst mér raunar, að grunnskólafrv. verði ekki afgreitt á þessu stígi, og fagna ég því. Það þarf að taka til ítarlegrar athugunar og verður vonandi lagt fyrir næsta þing aftur endurbætt.

Ekki virðist hins vegar af einhverjum ástæðum vera hljómgrunnur fyrir svipaðri meðferð á kennaraháskólafrv., og fæ ég ekki skilið hvers vegna. Frv. um kennaraháskóla hefur verið mjög gagnrýnt af fjölmörgum aðilum, sem hafa látið í té umsagnir. Ég fyrir mitt leyti er ekki að efast um, að í þessu frv. eru fjölmörg ágæt ákvæði, sem þurfa að koma til framkvæmda, en ég get þó ekki fallizt á það fyrir mitt leyti, ,að hið háa Alþ. sé nánast þvingað til þess að afgreiða slíkt mál án ítarlegrar athugunar, eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Reykn. hérna áðan.

Það vekur einnig athygli mína í sambandi við þetta mál, að ekki einn einasti talsmaður hinna fjögurra minni hl. menntmn. hefur í raun og veru mælt með þessu frv. sem slíku. Þeir hafa allir harmað, að frv. hefur fengið mjög skamma meðferð hér í d. og n. alls ekki fengið tækifæri til þess að kanna það, eins og hún raunar ætti að gera. Það er undarlegt, að svo mikið mál skuli afgreitt með þeirri málsmeðferð.

Ég get tekið undir fjölmargt, sem hv. 3. landsk. þm. sagði áðan um þetta frv. Ég er í vafa um ýmis atriði eins og t.d. það, hvort rétt sé, að kennarar yngstu barna séu með háskólapróf, hvort það sé nauðsynlegt a.m.k., og ég vil efast um, að það bæti úr kennaraskorti í dreifbýlinu, sem er víða mikill. Það er að vísu rétt, að margir kennarar útskrifast nú frá Kennaraskóla Íslands. En hvernig verður þetta að nokkrum árum liðnum? Hins vegar tel ég, að í frv. séu það margar endurbætur frá því ástandi, sem nú ríkir, að nokkuð vafasamt sé að fella það, og ég hefði því kosið, að frv. hefði verið vísað til hæstv. ríkisstj. til athugunar m.a. til mþn. fram að næsta þingi. Þetta virðist hins vegar ekki fá hljómgrunn.

Ég get fylgt, að því er mér sýnist, öllum þeim brtt., sem fram hafa komið. Þær eru að mínu, mati allar til bóta, m.a. brtt. hv. 5. þm. Reykn. Ég fæ ekki séð, að þær séu á nokkurn hátt varasamar með tilliti til háskólans. Það liggur fyrir umsögn n., sem Háskóli Íslands skipaði, og þar er lögð áherzla á, að bæði frá fjárhagslegum og kennslulegum sjónarmiðum sé æskilegt að tengja þessar tvær stofnanir, Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, betur en gert er í frv., enda eru till. hv. þm. þannig orðaðar, að nánar á að ákveða í reglugerðum. Sé ég því ekki, að þær séu það bindandi, að vafasamt geti talizt. Þótt æskilegt hefði verið, að álit háskólans lægi fyrir, mun ég því einnig fylgja þeim brtt. Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að harma það og átelja, að hið háa Alþ. skuli í þessu mikilvæga máli vera notað sem hver önnur afgreiðslustofnun fyrir sérfræðingaálit. Alþ. verður, eins og ég sagði áðan, að fá tækifæri til þess að líta sjálft á slík mál og meta þau að verðleikum.