05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði hér í dag, að það væri búið að leysa mál, að mér skildist, stofnlánadeildarinnar og veðdeildarinnar og sú lausn var í því fólgin, að það átti að auka við það, sem stofnlánadeildin fengi til að lána út, 25 millj. eða mundi hún þá hafa 181 millj. til útlána, og veðdeildin ætti að fá til viðbótar þessum 3.6 millj. 5 millj. Ég verð nú að segja það, að ég er hræddur um, að hæstv. fjmrh. mundi nú ekki verða ánægður með þessa lausn mála, ef hann stæði eða sæti nú sem bankastjóri Búnaðarbankans og ætti að deila þessu út miðað við þá fjárþörf, sem þarf til þessara hluta. Það vita allir, að veðdeildin hefur haft takmarkað fé á undanförnum árum til útlána, en undanfarin tvö ár hefur hún þó lánað 14.5 millj. hvort árið. Hámarkslán, sem deildin hefur getað lánað, hefur verið 200 þús. kr.

Það var verið að biðja mig fyrir nokkrum mánuðum að útvega lán norður í okkar kjördæmi, okkar hæstv. fjmrh., það var til kaupa á 1/4 hluta úr jörð og kaupverðið á 1/4 hluta þessarar jarðar var 1.7 millj. Eftir þeim reglum, sem stofnlánadeildin hefur og fjárráðum hennar, þá getur hún ekki lánað nema 50 þús. út á þessi jarðarkaup. Hvernig eru þessir menn staddir? Það er í mörgum tilfellum, þegar er um að ræða litlar, húsalausar jarðir, að þetta nægir, en í öllum tilfellum, þar sem eru sæmilega hýstar jarðir, þá eru þau lán smámunir, sem fást úr veðdeildinni miðað við þá fjárþörf, sem þar er fyrir hendi. Og að lána í veðdeildina 8.6 millj. á þessu ári og telja það nóg, það er náttúrlega langt frá lagi. Það er ekki einu sinni 1/5 hluti af því, sem þangað þyrfti. Og þó að lánsupphæðin væri ekkert hækkuð frá því, sem er, þá þyrfti mikið meira en að tvöfalda þessa upphæð til þess að geta afgreitt þær lánsbeiðnir, sem þar liggja fyrir. Miðað við þá áætlun, sem Búnaðarbankinn gerði rétt eftir áramótin, var reiknað með að þurfa að hafa upp undir 240 millj., eins og ég sagði áðan, eða 238.6 millj. Og það er komið í ljós síðan, að ýmsir þessir liðir, eins og þeir voru áætlaðir, eru langt fyrir neðan það, sem fjárþörfin sýnir, að muni þurfa. T.d. var áætlað út á jarðýtur, skurðgröfur og þess háttar vélar aðeins 3 millj. kr. Ég veit, að bara í okkar kjördæmi eitt þarf þetta fjármagn, ef á að verða við þeim óskum, sem liggja nú fyrir. Það er greinilegt, að í sambandi við útihúsabyggingar, sem var áætlað samtals 75 millj., ég skil ekki í, að það dugi miðað við þær beiðnir, sem ég veit, að eru komnar. Og vöntunin var svo mikil á s.l. ári, að í sambandi við fjósbyggingar þær, sem voru byggðar, fjós og hlaða, stórfjós og hlaða, þá var meiningin að reyna að dreifa þessu á þrjú ár. En hvaða bóndi getur byggt með því að fá þessi föstu lán í þrennu lagi, 3 ár eða 2 ár, síðasta hlutann eftir að hann er búinn að byggja? Ég sé ekki, að slíkt sé hugsanlegt, og ég geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. viti um það, því að slík dæmi eru úr okkar kjördæmi, að þar eru miklir erfiðleikar á vissum stöðum einmitt af þessum ástæðum.

Ég held, að það sé því fjarri lagi, að það sé búið að leysa lánsþörf stofnlánadeildarinnar, þó að væri til útlána um 180 millj., og þá er ekki búið að leysa þessar 50 millj., sem ég gat um í fyrri ræðu minni, það er óleyst mál. Að vísu hefur komið til tals, að Seðlabankinn og Búnaðarbankinn lánuðu þetta fé til einhverra ára, en það er ekki frá því gengið og a.m.k. verður það örðugt fyrir Búnaðarbankann að verða við því eins og hlutirnir standa í dag. Ég vil því óska þess, að hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því, að þetta verði athugað og það komi ekki fyrir, að það þurfi að synja lánsbeiðnum vegna þess, að stofnlánadeildin hefur ekki fjármagn.

Ég gat um það í minni fyrri ræðu, að miðað við það, sem var á árunum 1956 og 1957, þá hefði þetta fjármagn þurft að vera milli 230–240 millj., en síðan hafa komið ýmsir liðir, sem er farið að sinna, t.d. á þessu ári núna þarf 26 millj. í minkabúin. Það er áætlað, að það þurfi 25 millj. í sláturhús og mjólkurstöðvar, sem þá var ekki inni í dæminu, og það er áætlað um eða yfir 20 millj. í dráttarvélar og jarðýtur og þess háttar vélar, sem þá var heldur ekki lánað út á, þannig að sambærilegar tölur þyrftu að vera, ef ætti að sinna þessum nýju verkefnum, þá þyrfti stofnlánadeildin að hafa yfir 300 millj. til þess að lána, ef það fé hefði svipaðan framkvæmdamátt o féð, sem var lánað út á árunum 1956 og 1957. Ég er því mjög óánægður yfir þeim svörum, sem hæstv. fjmrh. gaf hér áðan, því að það er ekki gott, ef hæstv. ráðh. stendur í þeirri meiningu, að það sé í raun og veru búið að leysa þessi mál, því að það er svo langt frá því.