06.04.1971
Efri deild: 96. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég tel tétt aðeins að gera grein fyrir því, af hverju þetta frv. er aftur komið hér til hv. Ed., en það er af þeirri ástæðu, að í Nd. nú áðan var samþ.brtt., sem ég flutti þar, að ríkisstj. yrði heimilað að taka lán, allt að 30 millj. kr., til rannsókna á landgrunninu. Um þetta urðu töluverðar umr. í Nd. í sambandi við nál., sem lagt hafði verið fram frá ráðuneytisstjórum, nefnd ráðuneytisstjóra, er ríkisstj. fól að kanna ýmis atriði, er skiptu máli varðandi könnun á landgrunninu og ýmis atriði landhelgismálsins, og var vakin athygli á því þar, að þar væri gert ráð fyrir, að það þyrfti verulegt fjármagn til þess að sinna þessum rannsóknum nú í ár og á næstu árum. Það var að vísu mín skoðun, að ekki væri þörf á að taka upp sérstaka lántökuheimild í þessu sambandi, enda mjög óvíst, hvers fjár yrði þörf eða að hve miklu leyti það yrði að greiðast með beinum framlögum úr ríkissjóði, þar sem gert er ráð fyrir leigu á skipi, sem óeðlilegt væri að taka lán til, heldur en t.d. ef yrðu notuð varðskip eða einhver slík önnur skip í eigu ríkisins og jafnframt gerði hæstv. forsrh. grein fyrir því, að ýmsar aðrar leiðir kæmu til greina og hefðu þegar verið ákveðnar til rannsókna á landgrunninu, svo sem samningur, sem hefði verið gerður við Shell í Hollandi um sérstaka könnun, sem stæði Íslendingum síðan til boða að kostnaðarlausu. Engu að síður var það skoðun mín, þar sem fram kom, að menn lögðu mikla áherzlu á, að það væri a.m.k. heimild til staðar, ella kynni það að verða misskilið svo, að það væri ekki fullur áhugi á að sinna þessum viðfangsefnum, þá væri það mjög óheppilegt, að slík till. kæmi fram og yrði felld og mundi þá torvelda það, menn kynnu að gagnálykta sem svo, að það væri þá ekki heimilt fyrir ríkisstj. að leggja fram fé til þessara þarfa. Niðurstaðan varð því sú að taka upp þessa heimild, sem ég gat hér um, 30 millj. kr. til rannsókna á landgrunninu, og vona ég, að hv. Ed. geti fallizt á að samþykkja frv. með þeirri breytingu.