22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Lögin um utanríkisþjónustuna eru nú orðin allgömul eða um 30 ára, og voru þar að auki á sínum tíma sett svona tiltölulega undirbúningslítið, þar sem þá voru ýmsar breytingar í heiminum, sem gerðu það að verkum, að nauðsynlegt var, að þau lög væru sett þá þegar. Það hefur því fyrir þó nokkru síðan orðið ljóst, að það er æskilegt að gera nokkrar breytingar á þeim l. og haustið 1969 var lagt fyrir Alþ. stjfrv. um utanríkisþjónustu Íslands. Það var samið af n., sem í voru aðallega fulltrúar í utanrmn., þeir Benedikt Gröndal alþm., Gils Guðmundsson alþm., Ólafur Jóhannesson alþm., Sigurður Bjarnason alþm. og Agnar Kl. Jónsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður n. Þetta frv. var svo lagt fyrir Alþ., eins og ég sagði, haustið 1969, og lýsti ég því þá og gerði grein fyrir þeim breytingum, sem með því frv. voru gerðar. Þessu frv. var þá vísað til allshn. þessarar hv. d., og hún sendi það aftur til utanrmn. og óskaði hennar umsagnar. Þessi umsögn var gefin, eftir að utanrmn. hafði falið 5 mönnum að athuga frv. betur, þeim Birgi Kjaran formanni n., Gils Guðmundssyni, Ólafi Jóhannessyni og Benedikt Gröndal, sem allir höfðu verið í n. áður, og Pétri Thorsteinssyni ráðuneytisstjóra utanrrn. Þeir ræddu svo frv. og gerðu sér grein fyrir nokkrum breytingum, sem æskilegt væri að gera á því, og þessar breytingar voru síðan felldar inn í þetta frv., sem borið var fram 1969. Ég skal ekki fara út í að ræða mikið þetta frv., sem þá var borið fram, því að það hefur verið gert og ég sé enga ástæðu til þess. En ég skal fara nokkrum orðum um þær breytingar, sem þessi síðari 5 manna n. gerði á frv. og nú er búið að taka upp í það frv., sem hér liggur fyrir.

Þessar breytingar eru helztar: 1. Nú er ákveðið, að forsetaúrskurð þurfi til að kveða á um, hvar skuli vera sendiráð og fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur. 2. Fellt er niður ákvæði 7. gr. varðandi nafnbætur ræðismanna. 3. Orðið ambassador, sem var notað í fyrra frv., er ekki lengur notað í þessu og skipting ambassadora í a-flokk og b-flokk er felld niður. Í stað orðsins ambassador er notað orðið sendiherra, sem er íslenzkara og nær alveg því, sem felst í hinu orðinu. Hvað snertir flokkana 5, sem starfsmönnum utanríkisþjónustunnar er skipað í í 8. gr., er ekki gert ráð fyrir að skipun, hvorki forsetaskipun né ráðherraskipun þurfi, þó menn séu fluttir til í starfi og á milli staða í sama flokki. Þar sem rætt er um ráðningu viðskiptafulltrúa og annarra sérfulltrúa um tiltekinn tíma í 11. gr., er fellt niður ákvæðið varðandi sérfyrirkomulag á launagreiðslum. En hins vegar er gert ráð fyrir því í aths. við gr., að aðilar, sem standa að ráðningu slíkra fulltrúa, geti tekið þátt í launagreiðslum þeirra. Í 6. lagi er ekki fastbundið, að skjalavörður utanrrn. annist vörzlu bókasafns og skráningu og útgáfu samninga, heldur er tekið fram, að svo skuli vera að jafnaði. Í 7. lagi er tekið fram, í 14. gr., að settar skuli reglur um greiðslu sjúkrakostnaðar starfsmanna utanríkisþjónustunnar erlendis. Þetta hefur viða reynzt mikið vandamál, þar sem sjúkrahjálp er orðin mjög dýr viða erlendis, og þarf vissulega til að koma einhver trygging fyrir þetta fólk, svo það verði ekki hálfgerðir öreigar, ef það þarf að fara á sjúkrahús erlendis. Þetta er nokkuð misjafnt eftir stöðum, en yfirleitt er þetta mjög dýrt í Bandaríkjunum t.d., en þar hafa ýmsir sendiráðsmenn orðið fyrir barðinu á þessu og orðið að greiða fé, sem var þeim alveg um megn að greiða. Með einhverjum hætti þarf að koma því til leiðar, að þessi sjúkrakostnaður starfsmanna utanríkisþjónustunnar verði greiddur, t.d. með því að taka upp einhvers konar tryggingar fyrir þetta fólk, sem gætu náð til þessara útgjalda. Í orðinu ræðismannsskrifstofa og sams konar orðum öðrum, verði fellt niður orðið „manns“ og notað ræðisskrifstofa og aðalræðisskrifstofa, bara ræðisskrifstofa o.s.frv. Og enn fremur hefur svo aths. við frv. verið breytt í samræmi við þessar breytingar á gr., frá því sem það var borið fram 1969. Ég þarf raunar ekki að taka fleira fram um þetta frv., það skýrir sig alveg sjálft. Hv. Ed. hefur haft það til athugunar og hún hefur samþ. það næstum því að segja óbreytt, bara með einni smávægilegri orðalagsbreytingu við 3. gr. og liggur hún líka alveg ljós fyrir.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.