10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

128. mál, eyðing refa og minka

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og hv, frsm. meiri hl. gat um hér áðan, kom fram á öndverðu þinginu frv. um breyt. á l. um eyðingu refa og minka, sem eru frá 1957, en 1. flm. þess var hv. 1. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, og meðflm. með honum var ég og hv. varaþm. Jónas Jónsson. Skömmu eftir að þetta frv. kom fram hér í hv. d. kom það frv. fram, sem hér er nú til umr. Þessi frv. voru því tekin saman í hv. landbn. og voru send til Sveins Einarssonar veiðistjóra til umsagnar. Áður en ég kem að brtt., tel ég rétt að lesa upp álitsgerð Sveins Einárssonar út af þessum framkomnu frv., með leyfi forseta:

„Ég vísa til bréfs hv. landbn. Nd. Alþ. og sendi eftirfarandi umsögn mína varðandi tvö lagafrv. um breyt. á l. um eyðingu refa og minka frá 1957.

Þegar umrædd lög tóku gildi 1957, var það álit margra veiðimanna, að nokkurs ósamræmis gætti í verðlaunagreiðslum fyrir unnin dýr, þannig að verðlaun fyrir að vinna ref, kr. 350.00, voru of lág miðað við að vinna mink á, kr. 200.00.

Mitt álit er, að verðlaun fyrir að vinna hin svonefndu hlaupadýr hafi verið of lág í fyrstu, hvað þá nú. Með tilliti til þess og ýtrustu hófsemi í útgjöldum, þá legg ég til, að verðlaun fyrir unna refi verði hækkuð í kr. 1400.00, svo sem gert er ráð fyrir í þskj. 137, og verðlaun fyrir að vinna mink í kr. 700.00, svo sem gert er ráð fyrir í þskj. 150.“ — En það er það frv., sem er hér til umr. — „Þá tel ég nauðsynlegt, að verðlaun fyrir unnin grendýr og yrðlinga verði einnig hækkuð, svo sem gert er ráð fyrir í þskj. 137.

Nái þessar verðlaunahækkanir fram að ganga, mun það vafalaust auka mikið áhuga fyrir dýraveiðunum á ný, en þess hefur gætt undanfarin 2–3 ár, að áhugi fyrir veiðunum hefur minnkað verulega sökum of lágra verðlauna.

Viðvíkjandi 3. gr. í þskj. 137 leyfi ég mér að taka eftirfarandi fram: Eftir að hafa haft náin kynni af þessum málum um langt árabil, er það skoðun mín, að greiðslur fyrir minkavinnslu komi mjög misjafnt og óréttlátlega á sveitarfélög landsins, þar sem sum þeirra telja aðeins örfáa gjaldendur, og má í því sambandi t.d. benda á Þingvallasveit, Skógarströnd, Ögurhrepp og ýmis önnur fámenn hreppsfélög, þar sem villiminkur heldur sig mjög mikið. Mér er vel kunnugt um, að þessi fámennu hreppsfélög eiga í erfiðleikum með að standa í skilum við veiðimenn með tilskilin verðlaun fyrir unnin dýr, sem geta orðið á annað hundrað talsins á einu ári.

Það er ekki síður í þágu þeirra, sem í þéttbýlinu búa, að þessum skaðvaldi, sem villiminkurinn er í náttúrulífi landsins, sé eytt eins og frekast má verða. Það er engin sanngirni í, að þeir, sem búa í strjálbýlinu og þola jafnframt margvíslegt fjárhagslegt tjón af völdum minka, verði einnig að bera meiri kostnað við eyðingu hans en aðrir landsmenn. Það voru ekki bændur, sem fluttu minkinn inn í fyrstu, og ekki eru það þeir, sem hefja minkarækt hér að nýju. Ef litið er á þessi mál með skilningi og sanngirni, þá hlýtur það að vera réttlætiskrafa, að kostnaður við eyðingu villiminka komi þó jafnt niður á alla landsmenn. Það er sannfæring mín, að taki ríkissjóður á sig allar greiðslur vegna eyðingar villiminka, muni það gerbreyta henni til hins betra og útiloka ýmsa erfiðleika, sem nú er við að etja.

Ég lít svo á, að þegar þessi lagabreyting er rædd, sé nauðsynlegt að athuga, hvernig hún yrði í framkvæmd, til að fyrirbyggja hugsanlega misnotkun. Enn fremur álít ég, að ef til þeirrar lagabreytingar kæmi, að ríkissjóður tæki á sig allan kostnað við eyðingu villiminka, þá eigi sýsluskrifstofur að annast allar greiðslur vegna hennar fyrir hönd ríkissjóðs.

Tala unninna dýra á öllu landinu síðustu árin er um 450 fullorðin grendýr, 1200 yrðlingar, 400 utan grenja (hlaupadýr) og nærri 3000 minkar á ári.“

Þetta er umsögn Sveins Einarssonar veiðistjóra. Hv. frsm. meiri hl. gat um það, að það væri verið að stefna þessu frv. í tvísýnu með því að leggja fram þær brtt., sem við höfum leyft okkur að leggja fram, sem erum fulltrúar Framsfl. í hv. landbn., en hann gat þess einnig, að þetta væri þó ekki nein fjárhagsleg byrði fyrir ríkissjóð eða alveg hverfandi. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm.: Er það bara af því, að það eru framsóknarmenn, sem koma fram með breytinguna, sem frv. er stefnt í tvísýnu, fyrst það er ekki í raun og veru um neitt fjárhagsatriði að ræða? Þessi spurning vaknar, ekki sízt þar sem sá maðurinn, sem hefur mesta þekkingu á þessum málum, hefur lagt það til, að einmitt þessar breytingar verði samþykktar, því að það eina atriði, sem er öðruvísi í frv. okkar hv. þm. Gísla Guðmundssonar, var það, að greiðsla fyrir mink verði 800 kr. Við breyttum því og fórum að öllu leyti eftir umsögn veiðistjóra. Ég skil ekki þessa röksemdafærslu þm. Það hlýtur þá að vera það, að það sé bara vegna þess, að það erum sem sé við, sem komum fram með þessar till.; þess vegna megi ekki eftir hans eigin málflutningi samþykkja þær.

Það kemur fram hjá veiðistjóra, að hann telur, að það verði unnið miklu betur að útrýmingu minkanna, ef þessi breyting verði, sem er lagt til hér í 3. gr. í sambandi við 2. gr. laganna. En hún er þannig, að eftir gildistöku þessara laga endurgreiði ríkissjóður að fullu kostnað við eyðingu minka samkv. lögum. Og ég veit það — ég þekki það í sumum sveitarfélögum a.m.k., þar sem er töluvert mikill minkur — að þessu er ekki sinnt eins og skyldi, og ég hef ekki trú á því, að því verði sinnt öðruvísi en að fá sérstaka veiðimenn til þess. Þetta kann að vera, að þetta sé eitthvað misjafnt eftir landshlutum, en ég er hræddur um, að þetta verði ekki í lagi öðruvísi en þessi mál eiginlega verði undir veiðistjóra komin að miklu leyti, a.m.k. að því er varðar eyðingu minkanna.

Aðrar þær brtt., sem við leggjum til, eru í fyrsta lagi við 1. gr., þ.e. að fyrir 300 kr. komi 400 kr., og við 2. gr., þ.e. að í staðinn fyrir 1100 kr. komi 1400 kr. Ég sé ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta að sinni. Ég vil undirstrika það enn og aftur að þessar till. eru að öllu leyti eftir ráðleggingum Sveins Einarssonar, og eins og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., þá er þarna ekki um neina verulega fjárhæð að tefla, þó að allar þessar brtt. væru samþykktar, en það er enginn vafi á því, að þetta yrði til stórra bóta, ef samþykkt yrði.