24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

233. mál, girðingalög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætlaði nú aðeins að leyfa mér að minna á brtt., sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Norðurl.. e. um breytingu á þessu frv. Ég vil taka það fram, að ég er alveg fylgjandi meginstefnu þessa frv. Ég held, að það sé til bóta og geri girðingalögin skýrari, en hins vegar hefði ég kosið, að efnislega að mestu yrði það ákvæði til bráðabirgða, sem upphaflega var í frv., en hv. landbn. lagði til, að fellt yrði niður og fellt var niður við 2. umr., tekið upp að nýju efnislega — að sjálfsögðu ekki óbreytt. Ég tel raunar verr farið, að það skyldi ekki vera reynt í n. að breyta þessu ákvæði með einhverjum hætti, og við höfum því leyft okkur hér tveir þm. að flytja þessa brtt. Þar er um nokkra breytingu frá upphaflegu orðalagi að ræða, og leyfi ég mér að leggja það undir atkv. Þetta bráðabirgðaákvæði hefur sitt gildi í sambandi við þetta mál, eins og áður hefur verið rakið hér, og ég vil enn fá úr því skorið, hvort d. mundi ekki vilja fallast á, að þessi brtt. mín yrði samþykkt.