02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

241. mál, sala hluta af landi jarðinnar Dysja og jarðarinnar Háagerðis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég flutti hér áðan við 2. umr. brtt. við þetta frv., sem er flutt af öllum þm. úr Norðurl. e., sem eiga sæti í þessari d. Að beiðni hv. 5. þm. Vesturl. hef ég samið hér viðbót við þessa till. Hann óskaði eftir því, að það væri sett inn sams konar ákvæði um, að það mætti ekki selja landið aftur og er í þessu frv. í sambandi við sölu á jörðinni Dysjum. Og þá yrði þessi till. þannig, með leyfi forseta: „1. Á eftir 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Ríkisstj. er heimilt að selja Dalvíkurhreppi jörðina Háagerði í Dalvíkurhreppi. Náist ekki samkomulag um kaupverð, skal það ákveðið að mati dómkvaddra manna, en óheimilt er Dalvíkurhreppi að selja öðrum land eða lóðir úr umræddu landi. 2. Við fyrirsögnina bætist: og Dalvíkurhreppi jörðina Háagerði í Dalvíkurhreppi. Þar sem þessi till. er skriflega flutt og of seint fram borin, þá verð ég að vænta þess, að leitað verði afbrigða fyrir till.