25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, og það var fyrst og fremst vegna þeirra ummæla, sem síðasti hv. þm. viðhafði, að meðmæli með frv. hefðu verið ótviræð frá Búnaðarþingi. Ég vona, að hv. þm. hafi athugað það, að Búnaðarþing segir einmitt: „eftir atvikum“. Hvað þýðir það frá Búnaðarþingi? Það auðvitað þýðir það, að miðað við það, sem sé og vænta má, þá muni þeir mæla með þessu frv., en það er engin lukka yfir því í augum þeirra fulltrúa, sem sátu á Búnaðarþingi; þá hefði þetta ekki verið þannig orðað.

Annað atriði, sem ég ætla aðeins að víkja að, er varðandi þessar 120 þús. kr. Ég gat um það í fyrri ræðu minni, að til þess að framkvæmdamátturinn væri líkur og verið hefði, þegar l. var síðast breytt, þyrfti að gera betur. Það er búið að breyta l. fjórum sinnum. Fyrst var þetta sett inn, held ég, 1957, og voru það 25 þús. kr., síðan var l. breytt 1960 og upphæðin færð upp í 40 þús. kr., 1962 upp í 50 þús. kr. og 1964 upp í 60 þús. kr. En til þess að framkvæmdamátturinn væri hinn sami, þá þyrfti þetta að fara upp í 160 þús. kr. Þannig hefur verðbólgan farið með okkar krónur. Þó að það sé kannske hægt að segja, að þetta sé svolítil bót, þá er auðséð, að hverju stefnir. Ég vil undirstrika það, að þessi styrkur er langtum minna virði nú en áður var. Þar sem nú er orðið áliðið, þá ætla ég að láta þetta nægja.