05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend hér upp vegna þeirrar brtt., sem hv. 5. þm. Norðurl. v. var að leggja hér fram við það frv., sem hér er nú komið á lokastig. Eins og hann gat um, þá er sú till. samhljóða frv., sem við fluttum snemma í vetur, ég og þessi hv. þm. og fleiri, um það, að þeim fjármunum, sem munu vera 1 eða 11/2 millj. kr., sem fer í það að setja viðvörunarmerki á sígarettupakka, verði heldur varið til þess að gera t.d. upplýsingakvikmyndir um skaðsemi tóbaks og kosta aðra slíka upplýsingastarfsemi, sérstaklega að því er varðar ungt fólk — upplýsingastarfsemi til þess að vara það við tóbakinu. Það þarf að sjálfsögðu enginn að efast um það, að ég er honum sammála um það, að þessum fjármunum væri betur varið þannig. Það er satt, sem hann segir, að þetta virðist engin áhrif hafa að setja þessi viðvörunarmerki á pakkana. En þó að ég taki undir það með honum, að vinnubrögð viðkomandi n. eru í hæsta máta furðuleg, þ.e. að það skuli enn ekki vera komið í d. aftur þetta frv. okkar, þá hefði ég nú kosið að láta það ágreiningsatriði bíða, blanda ekki þessu máli saman við það mál, sem hér er, eins og ég segi, komið á lokastig. Ef farið er að blanda í þetta mál nú á þessu stigi ágreiningsatriði eins og þessu, sem ég var nú að nefna, þá er hætta á því, að málið nái ekki fram að ganga.

Ég á sæti í þeirri n., sem fjallaði um þetta mál í þessari hv. d., þ.e. heilbr.- og félmn., og menn voru þar fljótt sammála um það að mæla með samþykkt þess — þó með þeirri breytingu, sem gert er ráð fyrir í till. n., þ.e. að þetta bann taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1972. Við vorum sammála um þetta þar, og það virtist ekkert ætla að torvelda framgang málsins, en þegar fer að nálgast afgreiðslu í n., þá koma tilmæli um það frá stórkaupmönnum, stjórn Félags ísl. stórkaupmanna, um það, að þeir fái að segja álit sitt. Ég man nú ekki, hvort það eru 3 eða 5 dagar, síðan þetta var. Og þessu var vel tekið, þó að okkur virtist það sumum að sjálfsögðu næsta undarlegt, að þessir aðilar, þ.e. stjórn Félags ísl. stórkaupmanna, skyldi ekki fyrr koma með þessi tilmæli. Málið hafði verið til afgreiðslu í Ed., og það hefði verið eðlilegast, að þeir hefðu komið á framfæri sínum sjónarmiðum hjá heilbr.- og félmn. Ed. Þetta gerðu þeir ekki. Þeir komu ekki með tilmælin fyrr en þetta er allt saman komið á lokastig og fara þá fram á það við okkur, að við frestum afgreiðslu málsins í n., að mig minnir um einn dag, einn sólarhring, og síðan koma tilmæli um það, að bætt sé við einum sólarhring enn þá, og þá loksins afgreiðum við málið án þess þó að fá álit það, sem við biðum eftir frá stjórn Félags ísl. stórkaupmanna, svo að það þarf nú ekki neina sérstaka óvild í garð stórkaupmanna til þess að láta sér detta í hug, að þetta hafi kannske verið einn þátturinn í þeim leik að tefja þetta mál.

Og ég verð að segja í sambandi við þá till., sem hv. 5. þm. Norðurl. v. var að flytja hér, að mér finnst hafa orðið nóg um tafir á afgreiðslu þessa máls. Og ég vil eindregið mælast til þess, að hann dragi þessa till. sína til baka, láti hana bíða afgreiðslu þeirra ágætu manna, sem hér munu eiga sæti á nýju þ. í haust. Ég efast ekki um það, að það verður skilningur á því þá eins og nú, að þessum fjármunum væri betur varið til þess að kosta ýmiss konar upplýsingastarfsemi um skaðsemi tóbaks en vera að eyða þeim í það að klína þessum miðum á pakkana. Ég óttast ekki um afgreiðslu þess máls, þegar þar að kemur, en ég óttast, að þetta mál, sem er að komast á lokastig, þetta mikla nauðsynjamál, tefjist svo við flutning þessarar till., að það nái e.t.v. ekki fram að ganga. Og það má alls ekki ske.