07.04.1971
Sameinað þing: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki venja mín að kveðja mér hljóðs utan dagskrár, en ástæðan til þess, að ég hef gert það núna, er tilefni, sem kom fram í orðsendingu, sem birtist frá hæstv. fjmrh. í dagblaðinu Tímanum í gær. Út af þeim umr., sem þar hafa farið fram á milli hæstv. fjmrh. og eins af ritstjórum blaðsins, og því, sem kom fram í þessari orðsendingu, þá leyfi ég mér að spyrjast fyrir um þessi atriði hjá hæstv. fjmrh.:

1. Var tekið tillit til þeirra kjara, er embættismenn ríkisins hafa nú um bifreiðanotkun, er kjarasamningar opinberra starfsmanna voru gerðir í desember s.l.? Hefur ráðh. hugsað sér að birta þær reglur, sem gilda nú þar um?

2. Er gert ráð fyrir því, að opinberir starfsmenn fái eftirleiðis sérstakar greiðslur fyrir einstök verk, sem þeir vinna vegna starfs síns, svo sem nefndarstörf, er unnin eru í venjulegum vinnutíma, eins og áður var, meðan laun fyrir embætti voru lægri en nú er.

3. Voru ekki laun innheimtumanna ríkissjóðs í nýgerðum kjarasamningum miðuð við það, að laun þeirra vegna innheimtu féllu niður? Hefur ráðherra gert ráðstafanir til þess, að það komist í framkvæmd, eða hvenær má gera ráð fyrir því, að svo verði gert?

4. Kemur ekki til framkvæmda við skattálagningu á þessu ári, að niður falli þau hlunnindi innheimtumanna ríkisins, að 25% innheimtulaun séu skattfrjáls.

5. Á það sér stað enn þá, að starfsmenn séu ráðnir í þjónustu ríkisins og launakjör þeirra séu ákveðin án samþykkis launamáladeildar fjmrn.?

6. Hefur tilhögun um launakjör sölustjórans í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli verið breytt? Mun fjmrh. beita sér fyrir því, að þeirri tilhögun verði breytt, ef það hefur ekki verið gert enn þá?

Ég hafði áður afhent hæstv. fjmrh. þessar spurningar og vonast til, að hann geti svarað þeim.